Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:35:28 (4888)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:35]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra tveggja spurninga. Fyrri spurning mín til hæstv. ráðherra varðar embættið í Vestmannaeyjum — bara svo að það sé alveg á hreinu áður en við höldum áfram í umræðunni — í 3. gr. lagafrumvarpsins kemur fram að við embætti lögreglustjórans á Selfossi skuli vera rannsóknardeild fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum. Nú hef ég fengið svolítið misvísandi fréttir af því að sú ákvörðun hafi hugsanlega verið dregin til baka, að það eigi að taka embætti rannsóknarlögreglumanns frá Vestmannaeyjum og færa það upp á Selfoss. Mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvað er rétt í þessu máli.

Hin spurning mín til hæstv. ráðherra varðar flutning verkefna út á land hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Ráðherra flutti okkur hér jákvæðar fréttir af flutningi nokkurra verkefna og ekki nema gott eitt um það að segja. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hver sé tímaramminn á þessu verkefni, þ.e. að flytja þau út á land. Hvenær sér ráðherra fyrir sér að þessu verði lokið?