Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:36:35 (4889)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:36]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í þeim skýrslum sem ég vitnaði til að ekki eru ráðgerðar breytingar á fjárveitingum til sýslumannsins í Vestmannaeyjum og ekki breyting þess vegna á starfsemi sýslumannsembættisins þar.

Varðandi tímarammana er það svo að við höfum ekki sett þessu nein tímamörk. Aðalatriðið er að efnislega verði vel að verki staðið og að þau markmið sem við höfum sett okkur náist. Það finnst mér meginatriði en ekki tímamörk í slíkum vangaveltum.

Við höfum sett hér fram tillögur. Það er verið að vinna að tillögum varðandi framkvæmd mála á Blönduósi sem er fyrsta verkefnið. Samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að þar hefjist starfsemi núna í vor og þannig mun þetta verða koll af kolli og fer eftir umfangi verkefna og þeirri efnislegu niðurstöðu sem menn komast að um skynsemi flutningsins þegar þau hafa verið undirbúin nægilega vel.