Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:37:40 (4890)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara spurningu minni varðandi Vestmannaeyjar. Ég spurði hvort það væri rétt, sem ég skil af lestri þessa frumvarps, að það ætti að taka starf rannsóknarlögreglumanns frá Vestmannaeyjum og flytja það upp á land. Ef svo er finnst mér að ráðherra ætti að segja okkur það skýrum orðum því að fólk í Vestmannaeyjum bíður eftir því að fá að heyra það frá ráðherra hvað eigi að gera í þessu máli.

Fréttir af þessu eru svolítið misvísandi og ruglingskenndar og mér finnst að stjórnvöld séu á vissan hátt að reyna að þokuleggja þetta mál. Það er mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar haldi rannsóknarlögreglumanni úti í Eyjum vegna þess að aðstæður í Vestmannaeyjum eru svo allt öðruvísi en annars staðar á landinu. Hvers vegna er það? Jú, það er enginn vegur út í Vestmannaeyjar, það er oft illfært þangað og ég tel mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar haldi rannsóknarlögreglu í Eyjunum.

Hvað hitt varðar, flutning embætta eða verkefna út á land finnst mér að með þessu frumvarpi ætti að fylgja einhvers konar tímarammi því að þetta skapar svo sannarlega ákveðnar væntingar mjög víða.