Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:41:45 (4894)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:41]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið vandi þegar tekið er tillit til þarfar varðandi lágmarksþjónustu og aukna löggæslu að það komi niður á hinni almennu löggæslu í landinu, sá grunur læðist að manni þegar ekki á að auka neitt fjármagn til löggæslunnar og einungis er um tilfærslu að ræða.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti staðið hér og fullvissað okkur um að þetta muni ekki koma niður á almennri löggæslu í landinu og að mönnun lögreglunnar taki mið af þeirri þörf sem er fyrir lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

Það er grundvallaratriði að ráðherrann geri grein fyrir því hér. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins kemur fram að frekari kostnaðargreining og áætlanagerð varðandi ýmsar skipulags- og rekstrarhagræðingar eigi að fara fram. Hvað þýðir þetta eiginlega?

Ég get ekki séð að tillögur ráðherrans mótist af þörfinni sem er fyrir það að bæta hér almenna löggæslu og byggja á tillögum sem grundvallast á (Forseti hringir.) lágmarksþjónustu og þörf fyrir lögregluna.