Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:43:46 (4896)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fyllist alltaf varúð þegar verið er að leggja til að Alþingi samþykki lög sem veiti framkvæmdarvaldinu heimild til að fylgjast með einstaklingum eða hópum sem ekkert hafa til saka unnið og einhverjir ótilteknir embættismenn með matskenndri ákvörðun líta á að kunni að vera grunsamlegir.

Hér er um byltingarkennt nýmæli að ræða í löggæslu sem felst í því að fá að setja upp greiningardeild. Í frumvarpinu sjálfu er það afskaplega lítið útskýrt hvað á að fara fram innan hennar en hæstv. ráðherra sagði að hún ætti ekki aðeins að rannsaka afbrot sem hafa verið framin, heldur skuli hún líka stunda rannsóknir til að koma í veg fyrir að landráð verði framin eða brot gegn æðstu stjórnvöldum. Það þýðir að það er verið að fylgjast með fólki og ég spyr: Er þetta vísir að leyniþjónustu hér á landi?