Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:00:34 (4901)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá mjög almenn orð um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ég vil byrja á því að segja að ég hef fram að færa ákveðna gagnrýni, eða kannski ætti öllu heldur að segja áhyggjur vegna þeirrar áherslu sem er að finna í frumvarpinu og er ég þar að sjálfsögðu að víkja að svokallaðri greiningardeild sem á að hafa það hlutverk með hendi að leggja mat á hættu á hryðjuverkum, ásamt meiru, og rannsaka það sem kallað er landráð.

Hitt sem ég vildi segja um þetta frumvarp almenns eðlis er að ég tel það að mörgu leyti geta orðið til góðs enda er það sprottið upp úr hugmyndum sem lengi hafa verið á döfinni hjá lögreglumönnum og sýslumönnum, eins og vikið er að í athugasemdum við lagafrumvarpið og einnig má hrósa því að leitað hefur verið eftir sjónarmiðum margra aðila og reynt að efna til almennrar umræðu um þær víðtæku skipulagsbreytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Um einstaka þætti þeirra breytinga ætla ég ekki að tjá mig enda tel ég mikilvægt að málið fái mjög vandaða umfjöllun í nefndum þingsins og fyrir nefndina munu að sjálfsögðu koma hagsmunaaðilar, Landssamband lögreglumanna, sýslumenn og ýmsir sem hljóta að verða til kvaddir. Um einstakar skipulagsbreytingar ætla ég því ekki að tjá mig að sinni en mun hlusta grannt eftir því hvað þessir aðilar koma til með að segja.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í lögunum þar sem vikið er að réttindum starfsmanna en þar segir á þá leið að við hvers kyns flutning starfa skuli starfsmenn njóta áunninna réttinda sinna. Samkvæmt hefð er þar verið að vísa í stöðu manna, það er verið að vísa í kjör, laun og önnur kjör og menn horfa að sjálfsögðu einnig til röskunar á högum sem kunna að leiða af flutningum. Á allt þetta á eftir að reyna en ég ætla ekki að gefa mér neitt annað á þessu stigi en að reynt verði að standa við þau fyrirheit sem er að finna í ákvæði til bráðabirgða, að fullu. Alþingi mun að sjálfsögðu fylgjast með framkvæmdinni þegar þar að kemur.

Það er sitthvað sem ekki er í frumvarpinu sem maður hefði gjarnan viljað sjá þar, eins og efling á efnahagsbrotadeild lögreglunnar. Reyndar skal sagt að þar er fyrst og fremst um fjárhagsstuðning að ræða, ekki endilega skipulagsbreytingar en þetta frumvarp fjallar náttúrlega fyrst og fremst um skipulagsbreytingar hjá lögreglunni. En það má minna á að ekki alls fyrir löngu var hér á ferð nefnd frá Evrópuráðinu, hygg ég að hún hafi verið, sem gaf okkur þau ráð að við skyldum stórefla efnahagsbrotadeildina þannig að hún væri fær um að takast á við verkefni sem nýr heimur færði okkur, miklu stærri og alvarlegri efnahagsbrot, og deildin eins og að henni væri búið væri ekki í stakk búin til að sinna slíkum verkefnum. En eins og ég segi er það hugsanlega ekki verkefni þessara laga að taka á slíku en því nefni ég þetta að hér er ég að tala um áherslur og það eru þær áherslur sem lúta að leyniþjónustu og landráðum sem ég vil sérstaklega vekja athygli á.

Ég á sannast að sagna erfitt með að átta mig á hvað þessar lagabreytingar sem hér er gerð tillaga um þýða. Þó vil ég taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að við þurfum að skoða málin heildstætt og skoða þau skref sem verið er að stíga hvert á fætur öðru hvað þetta varðar. Hann nefndi réttilega að Alþingi hefði á liðnum árum haft til umfjöllunar margvísleg lög sem snerta réttindi borgaranna og minnti á lög um hleranir án dómsúrskurðar, eða öllu heldur lagafrumvarp sem aldrei fór í gegnum þingið. Ég vil minna á fleiri lög, t.d. Schengen-samkomulagið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða þingmenn þess höfðu ákveðnar efasemdir um en þar segir í 6. gr. þess samkomulags, svo dæmi sé tekið, að heimilt sé að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið, þ.e. Schengen, m.a. ef ætla má af fyrri hegðun einstaklings — það segir á þessa leið í þessum lögum — eða af öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða á Schengen-svæðið sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingastarfsemi. Ég man eftir að ég vakti athygli á því í umræðu um Schengen-samkomulagið á sínum tíma hve matskennd ákvæði af þessu tagi væru. Þá voru nýafstaðin mótmæli í Seattle í Bandaríkjunum þar sem Alþjóðaviðskiptastofnunin, World Trade Organization, hafði nýlokið fundi og mikil mótmæli höfðu tengst fundinum, rúður brotnar í ráðstefnuhöllum o.s.frv. Í augum ráðstefnuhaldara var þar eflaust verið að fremja skemmdarverk en í mínum augum og augum hundruða þúsunda manna og milljóna tuga var verið að koma á framfæri öflugum mótmælum gegn stefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hefur því miður gengið þvert á almannahag og sérstaklega hagsmuni fátækra þjóða heimsins. Skemmdarverk í augum eins getur verið þjóðþrifaverk í augum annars. Það sem ég er að vekja athygli á er hversu matskenndir þessir hlutir eru og þegar þeir eru færðir á bak við tjöldin og færðir embættismönnum, þess vegna í hendur lögreglunni. Ég vil taka það fram að ég ber fullt traust til íslensku lögreglunnar, þetta snýst ekki um það, en okkur ber að stíga varlega til jarðar, og ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem einmitt komst þannig að orði.

Þá ætla ég aðeins að líta á þær breytingar sem verið er að gera á lögunum og það væri fróðlegt að hæstv. dómsmálaráðherra skýrði nánar hvað fyrir honum vekti. Í 1. gr. frumvarpsins sem liggur fyrir þinginu er verið að gera tillögu um breytingu á 5. gr. lögreglulaga. Þar segir í 2. tölul., með leyfi forseta:

„Sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum eru:

a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot,

b. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota.“

Síðan eru fleiri töluliðir og fleiri liðir í þessari grein. Nú á b-liður þar sem vikið er á landráðunum að orðast á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„B-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“

Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvort orðalagið er ekki alveg ljóst hvað hér vakir fyrir löggjafanum því það er talað um að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild en síðan kemur fram í athugasemdum við greinina að þetta sé ein og sama deildin, eða hvað? En í athugasemdum við þessa grein segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er lagt til að lögreglurannsóknardeild sem rannsakar brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og stjórnvöldum þess skuli jafnframt vera greiningardeild sem hafi það hlutverk að vinna áhættumat vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi eða öðru sem ógnað getur öryggi ríkisins.“

Þetta virðist vera ein og sama deildin, eða hvað? En það hefur verið bætt í um hlutverk hennar frá fyrri lögum, nefnilega að annast það sem kallað er áhættumat, mat á áhættu á hryðjuverkum. Hvernig er unnið að því að gera slíkt mat? Maður þarf væntanlega að reyna að grafast fyrir um hvað hugsanlega vakir fyrir aðilum sem líklegir eru til slíkra verka. Og hvað þarf til að afla slíkra upplýsinga, því ekki bera þeir slík áform á torg? Það þarf væntanlega að njósna um þá. Þarf að fylgjast með því sem þeir gera. Hér er komið að þessari tengingu við leyniþjónustu og þegar við heyrum það síðan að heimildir embættisins til vinnubragða og verka munu ráðast af því hvað leyniþjónustur í Evrópu komi til með að gera, þær vinnureglur sem þær komi til með að setja sjálfum sér, þá erum við komin ansi nærri leyniþjónustuhugsuninni.

Ég kvaddi mér hljóðs hér fyrir fáeinum dögum til að vekja máls á þessu, gerði það í mjög andstuttum stíl á tveimur mínútum, en ég gat um það að á a.m.k. þremur stöðum í íslenskum lögum er vikið að landráðum sem hér á að vera verkefni sérstakrar greiningardeildar. Það er í fyrsta lagi í lögreglulögunum. Síðan er það í almennum hegningarlögum, þar eru landráð skilgreind í 87. gr., og síðan er vikið að landráðum í lögum um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, svo ég hafi titil þeirra laga réttan eftir. Þar segir í c-lið 3. tölul. 2. gr., með leyfi forseta:

„Til brota gegn öryggi Íslands eða Bandaríkjanna teljast:

1. landráð; 2. skemmdarverk, njósnir og brot á hvers konar lögum, er varða leyndarmál íslenska ríkisins eða Bandaríkjanna, eða leyndarmál, er varða varnir Íslands eða Bandaríkjanna.“

Síðan segir áfram í c-lið 7. tölul. 2. gr., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skulu gefa hvor öðrum skýrslur um árangur hvers konar rannsóknar og saksóknar í málinu, þar sem lögsögu getur borið undir hvorn aðila sem er.“

Hér er sem sagt kveðið á um það að Íslendingar, íslensk stjórnvöld, skuli gefa bandarískum stjórnvöldum upplýsingar um þá vitneskju sem þau komast yfir og lúta að hugsanlegu landráði. Þar er komið að þeirri spurningu sem ég vildi beina til hæstv. dómsmálaráðherra: Þarf ekki að búa svo um hnútana ef greiningardeild af því tagi sem kveðið er á um í lögunum verður komið á laggirnar — og er reyndar fyrir hendi núna undir öðru nafni og hæstv. ráðherra segir okkur að það sé ekki að verða nein eðlisbreyting á þó ég hafi ákveðnar efasemdir um það og gagnrýni þær áherslur sem fram koma í þessu frumvarpi hvað þetta snertir og alla umgjörðina um það — að slíkar deildir hjá lögreglunni hafi sérstaka upplýsingaskyldu gagnvart Alþingi Íslendinga? Þetta tíðkast í sumum löndum og hefur t.d. verið við lýði í Noregi, að því er ég best veit, að þingið fær aðgang að upplýsingum sem snúa að því sem menn skilgreina sem landráð eða rannsóknir á hryðjuverkum eða einhverri ógn gegn þjóð og ríki. Ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvað honum finnist um slíkt.

Sjálfur hef ég mjög miklar efasemdir um að yfirleitt sé komið á fót starfsemi af þessu tagi. En ég hef þann fyrirvara að ef slíkt verður ofan á, og það er vissulega ofan á, tel ég skipta mjög miklu máli að þingið, lýðræðislegir fulltrúar, hafi aðgang að upplýsingum sem þar koma fram. Það þarf ekki að fara langt til að vísa í njósnir á vegum ríkisins, t.d. í Noregi. Þar var njósnað um vinstri sinnaða stjórnmálamenn á sínum tíma og án þess að aðrir vissu en framkvæmdarvaldið og þá einnig lögreglan. Þetta er mjög óeðlilegt og mjög hættulegur hlutur. Við eigum að stíga afar varlega til jarðar þegar við erum komin inn á þessar brautir. Ég ítreka að ég hef miklar efasemdir um það yfirleitt að við eigum að fara út í þessar hugsanlegu landráðarannsóknir. Við eigum að efla almenna löggæslu í landinu og taka á því sem er saknæmt gagnvart íslenskum hegningarlögum, og geri ég þá ákveðna fyrirvara við þær greinar sem fjalla um svokallað landráð.

Við sjáum það sem er að gerast í ýmsum ríkjum. Í Bandaríkjunum situr mjög öfgafull og að mínum dómi mjög hættuleg ríkisstjórn, hættuleg lýðræðinu og mannréttindum ekki bara að heiman heldur einnig heima. Sjálfur Bush forseti er farinn að brigsla andstæðingum sínum, og jafnvel í Demókrataflokknum, um landráð, ýja að slíku, farinn að nota þessi ákvæði bandarískra laga til að gefa í skyn að menn séu hættulegir ríki og eigin þjóð.

Ég er alls ekki að gera því skóna að slíkt sé uppi hér. Ég er einvörðungu að vekja athygli á hinu stóra samhengi hlutanna. Ef það er rétt sem fram kemur í máli hæstv. dómsmálaráðherra, að það sé í reynd ekki að verða nein eðlisbreyting á starfsemi lögreglunnar, hvers vegna þá þessar ríku áherslur, sem fram koma í máli hans og í greinargerð með frumvarpinu, á að það þurfi að efla hér varnir og forvarnir gegn hugsanlegum hryðjuverkum og landráðum?