Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:22:36 (4903)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annars vegar er okkur sagt að það sé ekki að verða nein eðlisbreyting á starfsemi lögreglunnar, hins vegar koma fram nýjar áherslur. Nú er því bætt við lagatextann að þeir sem eiga að rannsaka hryðjuverk, landráð og ógn við ríkið eigi að leggja mat á þá hættu sem að steðjar, eigi að framkvæma einhvers konar áhættumat.

Ég hef spurt: Erum við hér að tala um njósnastarfsemi? Ef við erum að tala um njósnastarfsemi þá hef ég sagt tvennt: Í fyrsta lagi er ég andvígur því að færa slík völd til lögreglunnar, ég tala nú ekki um að slíkt sé gert án þess að heimildir séu fullljósar. Í öðru lagi spyr ég: Ef það verður ofan á að slíkt verður gert og slíkt heimilað, eins og reyndar er gert að einhverju leyti í núverandi lögum á fremur óljósan hátt, þá tel ég mjög mikilvægt að þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar komist þar að sem eftirlitsaðili. Þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson á eftir að koma öðru sinni upp í andsvar, ég gef mér það, þætti mér fróðlegt að heyra álit hans á þessu. Ég bíð einnig eftir að heyra álit hæstv. dómsmálaráðherra. Er ekki eðlilegt að styrkja tengslin á milli lögreglu og Alþingis, lýðræðislega kjörinna fulltrúa, að þessu leyti? Er það ekki lýðræðinu til góðs af því að við erum báðir að tala um lýðræðið og mannréttindin?