Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:28:17 (4906)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:28]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns að lýsa ánægju minni og hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir vinnulagið við undirbúning þessa frumvarps, fyrir hið víðtæka samráð og samvinnu sem hann hefur haft við fulltrúa allra þeirra sem málið varðar. Mér finnst ástæða til að taka það fram vegna þess að ég hef úr þessum ræðustóli í annan tíma gagnrýnt hæstv. ráðherra fyrir skort á samráði.

Það er ljóst, og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því í ræðu sinni, hver undanfari þessa frumvarps er. Hann rakti það að helstu hvatamenn að breytingum á skipun lögregluumdæma, sem er meginefni frumvarpsins, væri lögreglan sjálf. Það væri Landssamband lögreglumanna sem fyrst hefði hreyft máls á þessu og reynt að fylgja málinu eftir. Ráðherrann gerði grein fyrir störfum og skipunarbréfi þeirrar verkefnastjórnar sem var falin upphafsvinnan að undirbúningi þessa frumvarps. Hann rakti síðan koll af kolli hvernig frumvarpið hefur verið undirbúið, efni frumvarpsins kynnt og leitast við að fá viðbrögð við því, og í síðustu atrennu var brugðist við ýmsum þeim ábendingum sem komu fram við kynninguna.

Mér finnst líka vegna ræðna frá öðrum hv. þingmönnum í umræðunni vert að vekja athygli á því að forsendur frumvarpsins eru mjög skýrar. Forsendurnar eru skýrar og markmiðin eru mjög skýr. Meginefni frumvarpsins er að breyta umdæmaskipan lögreglu og markmiðin eru stærri umdæmi og sameining lögregluliða sem er ætlað fyrst og fremst að styrkja og efla lögregluna og gera henni betur kleift að sinna lögbundnum verkefnum sínum, lögbundnu hlutverki sínu, þeim hlutverkum sem við í annarri löggjöf felum lögreglunni.

Það sem þetta snýst í rauninni um er hvernig við getum eflt þjónustu við borgarana vegna þess að hlutverk lögreglunnar er að gæta öryggis borgaranna og þetta snýst um þjónustu. Kröfur fólks um allt land byggja á því að þetta sé gert sem réttast og skynsamlegast þannig að fólk geti treyst því að öryggis þess sé gætt og það njóti þeirrar þjónustu sem lögreglan á að veita. Þá er ég að tala bæði um almenna löggæslu og líka rannsókn sakamála. Þetta verður m.a. gert með því að samræma vaktkerfi lögregluembætta m.a. í því skyni sem oft hefur verið kallað eftir í þessum þingsal eða úr þessum ræðustól, að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu sem mörgum hefur fundist vanta upp á eins og fyrirkomulagið hefur verið.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, um það sem er meginefni frumvarpsins en hefur kannski að vissu leyti fengið minni umræðu en annað og það sem minna fer fyrir í frumvarpstextanum sjálfum. Mig langar líka, herra forseti, að lýsa miklum stuðningi við þær breytingar sem frumvarpið að þessu leyti felur í sér. Það sem hins vegar hefur verið meira rætt í umræðunni í dag og er alls ekki að finna í frumvarpinu af því að því miður hafa ræður sumra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst snúist um það sem ekki er í frumvarpinu og um hluti sem tilheyra allt annarri umræðu hér í þingi eða einhvers staðar utan úr heimi.

Þá vil ég nefna greiningardeildina. Sá misskilningur virðist vera uppi eða alla vega er reynt að halda því á lofti að verið sé að gera eitthvað allt annað en frumvarpið hljóðar upp á. Það sem frumvarpið segir fyrst og fremst er að svokölluð rannsóknardeild eða lögreglurannsóknardeild sem er falið að rannsaka tiltekin brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins verði jafnframt greiningardeild. Hún á að heita lögreglurannsóknar- og greiningardeild innan embættis ríkislögreglustjóra. Eina nýskipanin er í rauninni sú að þeirri deild er falið að leggja mat á áhættu vegna tiltekinna afbrota og í frumvarpinu er gerð grein fyrir því hvers konar afbrot það eru. Og það eru ekki eins og hver önnur afbrot heldur þau sem ég nefndi, þ.e. landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Rétt er að halda því til haga vegna umræðunnar sem búin er að vera um málið að í frumvarpinu er ekki að finna neinar nýjar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu, engar. Í frumvarpinu er heldur ekki að finna neitt nýtt refsiákvæði. Einungis er verið að víkka út verksvið og hlutverk þessarar deildar og breyta heitinu á henni.

Svo vil ég halda því til haga að lögreglan fær engar nýjar rannsóknarheimildir nema með atbeina Alþingis. Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan tiltekið frumvarp um hleranir án dómsúrskurðar vil ég líka árétta eins og hv. þingmaður gerði að það frumvarp fór ekki í gegnum þingið. Eftir að búið er að mæla fyrir málum fara þau til þingnefndar, allsherjarnefndar í þessu tilviki, eins og fór um það mál þar sem menn gátu komið að sjónarmiðum sínum. Rannsóknarheimildir verða því ekki auknar eða þeim breytt nema með atbeina þingsins, ekki frekar en að refsiákvæðum verði breytt nema atbeini þingsins komi til. Þessu vildi ég halda til haga.

Hins vegar finnst mér að þeim ræðum sem hérna hafa verið haldnar sé meira og minna ætlað að vekja tortryggni gagnvart lögreglu og gagnvart stjórnvöldum. Mig langar í því samhengi að nefna málstofu sem Norðurlandaráð stóð fyrir og var haldin í Ósló núna fyrir nokkrum vikum. Þar áttu Norðurlandaráðsliðar þess kost að hlusta á lögreglustjóra norsku öryggislögreglunnar, þar sem hann gerði grein fyrir meginhlutverki stofnunar sinnar í samráði og samstarfi við aðrar sams konar evrópskrar stofnanir, systurstofnanir. Það var áhættumat. Það var að leggja mat á áhættu, m.a. á hryðjuverkum og ekki bara hryðjuverkum heldur af annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Hvað erum við að tala um þegar við segjum alþjóðleg glæpastarfsemi? Við erum m.a. að tala um mansal á konum og börnum til kynlífsþrælkunar. Við erum að tala um samstarf um þau brot sem ekki stöðvast við landamæri, sem hafa einmitt þau einkenni að teygja sig yfir landamæri ríkja. Þess vegna er samstarfið svo þýðingarmikið.

Það mat þessa ágæta norska embættismanns sem vakti mesta athygli í þessari málstofu og líka í norskum fjölmiðlum var þegar hann áréttaði að vissulega þyrfti lögreglan að vera á varðbergi og halda vöku sinni við landamæravörslu og gagnvart hvers konar öfga- og vígamönnum sem koma yfir landamæri. En mat þeirra hafði leitt í ljós, og hann vildi meina að það væri samevrópskt mat, að hættuna væri ekki síður að finna innan lands. Og hann nefndi í því tilviki, af því að við erum að tala um hryðjuverk, tvo jaðarhópa. Annars vegar nefndi hann fólk af annarri eða þriðju kynslóð innflytjenda sem hafa íslamskan menningarbakgrunn og ganga til liðs við trúarofstækishópa, ofbeldisfulla trúarofstækishópa. Hins vegar nefndi hann fólk af evrópsku bergi brotið, í þessu tilviki fólk af norsku bergi brotið, kynslóð fram af kynslóð öfgaþjóðernissinna og nýnasista. Hann sagði líka og hafði það eftir fyrrverandi norskum dómsmálaráðherra að íslam er ekki sama og íslam. Þetta eru jaðarhópar á báða kanta. Ég nefni þetta sem dæmi um áhættumat sem hann gerði okkur grein fyrir á þeim fundi.

Annað meginefni þess fundar sem mér finnst vert að hafa orð á hér vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um að við þyrftum að hafa heildstæða sýn á þetta mál. Hitt meginatriðið sem lögð var áhersla á á fundinum var þessi gullni meðalvegur. Gullni meðalvegurinn sem við þurfum að rata er annars vegar milli nægilegra öflugra tækja og rannsóknarheimilda lögreglu og ríkisstjórna, og hins vegar persónufrelsis og lýðréttinda borgaranna. Alþingi Íslendinga hefur það í hendi sér að gæta þessa jafnvægis af því að eins og ég sagði áðan verður ekki aukið eða breytt rannsóknarheimildum lögreglu né refsiákvæðum bætt við eða þeim breytt nema með atbeina Alþingis. Auðvitað erum við öll á því að hvers konar sértækar aðgerðir eða lagasetning í baráttu gegn hryðjuverkum megi aldrei ganga svo langt að hún stríði gegn grundvallarreglum réttarríkisins og þeim mannréttindum sem baráttunni er ætlað að verja. Þess vegna hljótum við að leggjast á eitt með því að rata þennan gullna meðalveg en við megum ekki alltaf tala þannig að öryggi borgaranna sé einskis virði því það er fyrst og fremst hlutverk lögreglunnar að standa vörð um sem handhafa ríkisvaldsins.

Herra forseti. Varðandi lögbundið mat á áhættu vegna tiltekinna afbrota hef ég nefnt dæmi um það og vísaði í orð lögreglustjóra í Noregi. En af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði út af því áðan að líklega þyrfti að njósna um aðila eða fylgjast með hvað menn væru að gera, þá vil ég vekja athygli á því að lögreglunni ber, ekki síst á grundvelli alþjóðlegra sáttmála ekki bara að rannsaka brot sem til hennar eru kærð heldur ber henni að vera vakandi yfir fleiru. Vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar var mér sérstaklega hugsað til mansalsins. Þau brot eru ekki kærð. Það er enginn sem kærir þau og það er m.a. hlutverk greiningardeildar að því marki sem hún er útfærð í frumvarpinu að leggja mat á hættu á þess konar brotum. Lögreglan þarf eftir öðrum leiðum, hún getur ekki setið og beðið eftir kæru, að leggja mat á hættuna og hún þarf að leita leiða til að rannsaka og upplýsa slík brot. Þetta snýr ekki eingöngu að persónuvernd almennra, friðelskandi, löghlýðinna borgara. Við erum líka að tala um þá sem stunda slíka iðju og vinna hana í ljósi þess mikla hagnaðar sem þeir geta eignað sér.

En enn og aftur, herra forseti, langar mig að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og árétta að það sem ekki er í því sagt er ekki í því sagt og hvet til þess að menn taki þá umræðu ef og þegar kemur að því að hæstv. dómsmálaráðherra kemur fram með eitthvert frumvarp eða leggur til einhverjar breytingar sem lúta að breytingum á refsiákvæðum eða auknum eða breyttum rannsóknarheimildum lögreglu, en það er bara önnur umræða að mínu mati.