Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:42:26 (4907)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sem betur fer er enn þá málfrelsi hér á landi og í þessum sal og hv. þm. Jónína Bjartmarz má auðvitað hafa skoðanir á því hvenær okkur beri að ræða hugðarefni okkar í tengslum við þessi mál eða önnur. Hún hefur fyllsta rétt til þess og mér er alveg sama um það.

En umræðan sem hún var að snúa sér að áðan var í reynd umræðan sem ekki hafði farið fram í dag að mínu mati. Það var enginn sem sagði að öryggi borgaranna skipti ekki máli. Það voru þau orð sem hún lagði í munn ræðumanna hér. Að sjálfsögðu skiptir öryggi borganna máli, persónufrelsið líka, eins og reyndar hv. þingmaður lagði ríka áherslu á. Menn verða með einhverjum hætti að finna þarna ákveðinn meðalveg.

Ástæðan fyrir því að menn stíga upp á tærnar í málinu er sú staðreynd að hæstv. ráðherra kynnir til leiks nýja deild, greiningardeild. Hann segir í framsögu sinni að hún eigi þegar tímar líða fram að hafa sambærilegar lögheimildir og aðrar svipaðar deildir í öðrum löndum. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni þegar hún segir að við séum að ræða hér mál sem fyrst og fremst eigi við annars staðar en hér. Hæstv. ráðherra talaði með þeim hætti og þegar hann var spurður í andsvari kom fram, bæði hjá honum og síðar hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að það væri seinni tíma mál að leggja fyrir aðferðir og heimildir fyrir þessa nýju greiningardeild. Samkvæmt því getum við gengið út frá því sem vísu að þess verði a.m.k. freistað þá er eðlilegt að menn spyrji: Hvaða heimildir eru þetta? Eru það t.d. heimildir sem eiga að gefa ríkislögreglustjóra færi á því með lögum að fylgja eftir umhverfisverndarsinnum sem hingað koma til lands og hafa uppi mótmæli að ógna þeim með því að elta þá við hvert fótmál eins og í sumar?