Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:46:48 (4909)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða sem formaður Landssambands lögreglumanna hefði sjálfur getað flutt og ég get í flestum tilvikum tekið undir það sem sagt var. Við eigum að efla alþjóðlegt samstarf á sviði löggæslunnar og við eigum að gera það sem hægt er innan marka a.m.k. þeirra mælikvarða sem við höfum alist upp við varðandi persónufrelsi.

Sporin hræða. Ég er svolítið hræddur við frumvarp sem mér finnst hálfvegis vera eins og óútfylltur tékki. Greiningardeild, hvað á hún að gera? Áhættumat, hvernig á það að fara fram? Menn greina ekki hættuna nema menn hafi upplýsingar. Menn verða þá að safna þeim. Um hverja? Þá hópa sem hugsanlega kunna að fremja brot gegn æðstu stjórnvöldum landsins? Hvaða hópar eru það? Hverjir eiga að taka ákvörðun um það með hverjum á að fylgjast og hver á að gæta gæslumannanna? Þessum spurningum er ósvarað.

Ég þekki hæstv. dómsmálaráðherra það vel að ég hlustaði grannt á ræðu hans, mér fundust nefnilega vera litlar skýringar á greiningardeildinni í þessu frumvarpi. Þær komu frekar fram í ræðu hæstv. ráðherra og þar kom sú skoðun fram að það ætti að rannsaka óframda glæpi, þ.e. það ætti með öðrum orðum að afla upplýsinga um það sem hugsanlega kynni að gerast, brot gagnvart æðstu stjórnvöldum. Hvernig á að gera það? Með því að fylgjast með fólki? Þá hugsa ég til sumarsins þegar ríkislögreglustjóri lét elta við hvert fótmál þvert yfir landið fólk sem hingað kom til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Eru það slíkir hópar sem á að fylgjast með? Eru það þeir sem fremja mansal, peningaþvætti? Ég geri mjög skýran greinarmun á þessum tegundum glæpa sem við ræðum hér og það kemur ekki fram hér með hvaða hætti á að taka ákvarðanir um slíkt eftirlit.