Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:49:06 (4910)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:49]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka í seinna andsvari að í þessu frumvarpi er ekki að finna neinar nýjar eða breyttar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu og engin ný refsiákvæði, bara svo við höldum því til haga.

Brot sem lögreglan hefur ekki vitneskju um geta fyrst og fremst verið óupplýst brot. Í frumvarpinu og í greinargerðinni segir beinlínis að það séu m.a. brot og áhættumat vegna hryðjuverka, alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem mansals. Þessi brot eru ekki kærð. Fyrir fram vitum við ekki um sekt eða sakleysi en lögreglan þarf að leggjast í vinnu til að upplýsa slík brot og getur þurft að beita mörgum þeim rannsóknarheimildum sem Alþingi hefur fram á þennan dag veitt henni. Stundum kemur í ljós að um sekt er að ræða, okkur tekst að koma höndum á brotamenn. Í öðrum tilvikum er það ekki. En brotin eru þess eðlis að við hljótum að styðja, ekki bara það að lögreglunni sé falið þetta hlutverk og þessi skylda heldur að hún hafi samstarf við lögreglu í öðrum ríkjum, ekki síst í hinum norrænu ríkjunum. Þessi brot eru öll þess eðlis að þau stöðvast ekki við landamæri. Þau kalla á og krefjast alþjóðlegs samstarfs og við verðum að vera í stakk búin, m.a. í stjórnskipun lögreglunnar, að geta sinnt þessu samstarfi. Ekki að vera þiggjendur í öllu heldur að vera veitendur. Mér finnst sjálfsagt að fullvalda ríki búi sjálft að einhverju leyti að þeim upplýsingum sem það þarf með en þurfi ekki í öllum tilvikum að leita til annarra. En ég legg áherslu á samstarfið.