Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:51:19 (4911)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz dregur línu, gerir greinarmun annars vegar á milli brota sem eru ekki kærð og krefjast rannsóknar af hálfu lögreglunnar og hins vegar brota sem eru kærð. Þessi greinarmunur getur átt við í vissu samhengi en ekki í þessu, tel ég. Ekki alla vega til að túlka mitt mál eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur gert eða lagt út af mínum orðum. Við erum öll sammála um það, hygg ég, að það eigi að grafast fyrir um brot á borð við mansal, eiturlyfjasölu og smygl, peningaþvætti og annað af því tagi. Við höfum stundum deilt um það hvaða aðferðum eigi að vera heimilt að beita við slíkar rannsóknir og mjög mikilvægt að þingið og löggjafinn setji ákveðnar reglur um það, að við komum okkur saman um slíkar reglur. Þetta held ég að sé ekki átakamál í sjálfu sér að öðru leyti en því að við viljum ganga misjafnlega langt hvað rannsóknirnar snertir.

Þegar hins vegar kemur að markalínunum á milli þess sem menn geta kallað landráð, skemmdarverk eða hryðjuverk og pólitískra glæpa vakna spurningar. Það eru slíkar markalínur sem eru að verða harla óljósar og ég vísaði þar til þess sem er að gerast í Bandaríkjunum þar sem ýjað er að því að þeir sem gagnrýna stjórnarstefnuna og stjórnvöld séu hættulegir öryggi ríkisins, að þeir stundi landráð. Þegar komið er inn á þær brautir verðum við að hafa varann á. Það er rangt að ég hafi verið að mála skrattann á vegginn með þessu frumvarpi, alls ekki. Ég lagði áherslu á þær breytingar sem verið var að gera og kallaði eftir upplýsingum frá hæstv. dómsmálaráðherra um hvað í þeim fælist en ég var síður en svo að gera því skóna að hér væru einhver stór grundvallaratriði á ferðinni. Ég talaði um áherslubreytingar og kallaði eftir skýringum hæstv. ráðherra hvað þær snertir.