Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:55:58 (4913)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um að hv. þm. Jónínu Bjartmarz hafi tekist að finna hinn gullna meðalveg sem hún vísar til. Alla vega fannst mér hún ekki ganga þann veg í ræðu sinni. Hún felldi mjög ákveðna dóma um þá sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og lagði út af orðum þeirra á rangan veg, að mínu mati.

En ég vil spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz um eitt atriði. Gefum okkur að við séum sammála um að viðfangsefnið sé flókið og erfitt og þurfi rækilegrar umræðu við og rækilegs aðhalds. Ef komið er á fót deild innan lögreglunnar — eða slík deild efld því hún er þar fyrir hendi að einhverju leyti eða þetta verkefni — telur þingmaðurinn æskilegt að efla aðkomu þingsins eða eftirlit af hálfu löggjafarsamkomunnar eins og tíðkast sums staðar í öðrum ríkjum? Ég held að í norska þinginu t.d. hafi sérstök nefnd það verkefni með höndum að hafa eftirlit með lögreglunni hvað þetta snertir. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hv þm. Jónínu Bjartmarz hvað þetta varðar.