Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:57:32 (4914)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:57]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist vita að einmitt í norska þinginu er sérstök þingnefnd sem starfar mjög náið með lögreglunni. En það er ekkert í ljósi þess að það er verið að setja á fót greiningardeild hér. Hún starfar bara náið með lögreglunni, sérstaklega þeirri deild sem lýtur að verksviði eins og þessari greiningardeild er ætlað að hafa. Hugsunin er þá sú að þarna séu kjörnir fulltrúar fólksins sem hún ber sig saman við og upplýsir, og ég geri ráð fyrir því að þeir fundir séu í trúnaði. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu en ég sé hins vegar engin tengsl við þessa umræðu. Það er svo margt annað í norska Stórþinginu og víðast hvar í þjóðþingum í kringum okkur sem er á allt annan veg en við búum við á Alþingi Íslendinga.

Enn og aftur ætla ég að ítreka, herra forseti, að við erum að tala um að breyta heiti og fela ákveðinni deild hjá ríkislögreglustjóra að meta áhættu á tilteknum afbrotum. Það eru engar nýjar rannsóknarheimildir. Ég er alveg opin fyrir þeirri hugmynd að stofna sérstaka nefnd sem fer yfir þær rannsóknarheimildir sem íslenska lögreglan hefur í dag, sem ég geri ekki ráð fyrir að breytist mikið á næstunni. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að við fáum af einhverju öðru samhengi tilefni til að ræða akkúrat þetta hvort sem það er í allsherjarnefnd eða af tilefni einhvers konar þingmáls í þessum sal.