Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 15:59:38 (4915)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þeim sjónarmiðum sem ég hef einkum áhuga á að koma fram í þessari umræðu hef ég þegar að mestu leyti komið fram í andsvörum fyrr í dag. Áður en ég kem að því áhersluatriði sem ég hef einkum fjallað um, greiningardeildinni, langar mig að segja að þetta frumvarp fjallar að verulegu leyti um ákveðna breytingu á lögregluumdæmum og stjórn þeirra. Frá því að ég kom inn á þing árið 1991 má segja að tilraunir ráðamanna til að reyna að breyta þessum umdæmum hafi verið sagan endalausa. Það hefur reynst ákaflega erfitt að breyta og stækka og stundum fækka lögreglustjóraembættum og sýslumannsembættum. Jafnan rísa upp litlir og stórir höfðingjar í kjördæmum landsins sem vilja ekki að neitt færist yfir kjördæmamörkin og þess vegna hefur oft reynst töluvert erfitt að ná fram breytingum af þessu tagi.

Í stærstu dráttum eru þetta ágætar tillögur sem hér er að finna hjá hæstv. dómsmálaráðherra um þennan kafla frumvarpsins og geri ég í sjálfu sér engar sérstakar athugasemdir við það. Ég held að þetta sé að mörgu leyti vel til þess fallið að gera embættin skilvirkari en ég er hins vegar meðvitaður um það að eins og jafnan áður á hæstv. dómsmálaráðherra í höggi við marga sem telja að vegið sé að hagsmunum sinna kjördæma. Ég met drift hæstv. dómsmálaráðherra og vilja til að ráðast til atlögu gegn slíkum hagsmunum, sem ég hef mörgum sinnum áður kallað sérhagsmuni, og óska honum gæfu og gengis til að koma því í verk.

Ég hef í þessari umræðu fyrst og fremst staldrað við 1. gr. þar sem verið er að leggja til að sett verði á fót sérstök greiningardeild. Ég er ósammála því sem hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði áðan að það væri í reynd ekki verið að gera neitt nema gefa deild nýtt nafn. Það er alls ekki rétt. Það kemur glögglega fram í þessu frumvarpi og greinargerðinni, og auðvitað skýrast í máli hæstv. ráðherra, að verið er að búa til nýtt verkefni fyrir þá lögreglurannsóknardeild sem er fyrir hendi. Það kemur skýrt fram í greinargerðinni, af því að hv. þm. Jónína Bjartmarz fjallaði fyrst og fremst um mansal og hryðjuverk, að þessari deild er líka ætlað að taka á öðrum hlutum. Það er erfitt fyrir mig að standa hér og ræða þetta frumvarp eftir að hafa lesið það til hlítar en vera samt ekki alveg klár á því hvaða verkefni önnur þessi deild á að fást við.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði eðlilega að það væri nauðsynlegt að hafa gott samstarf við Norðurlöndin. Ég er þeirrar skoðunar að það sé jafnvel enn ríkari nauðsyn að hafa samstarf við önnur lönd til að vinna bug á þeim glæpum sem hún bar sérstaklega fyrir brjósti, þ.e. hryðjuverkum og mansali, peningaþvætti og annars konar glæpastarfsemi. Í athugasemdum við frumvarpið er hins vegar sagt að lögreglurannsóknardeildin eigi ekki bara að rannsaka landráð og síðan þessar tegundir glæpa heldur líka annað sem ógnað getur öryggi ríkisins. Það væri í sjálfu sér fróðlegt fyrir mig og aðra þingmenn við 1. umr., þar sem við erum að freista þess að brjóta málið til mergjar, að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvað þetta annað gæti hugsanlega verið.

Ég hef fyrr í ræðum mínum í dag t.d. vísað til þess þegar mér fannst íslenskir og reyndar líka erlendir umhverfisverndarsinnar sæta harðræði af hálfu embættis ríkislögreglustjóra. Það harðræði fólst í því að þessu fólki var fylgt eftir þvert yfir landið og jafnan látið vita með einhverjum hætti af návist lögreglunnar. Ég tel að í slíkri háttsemi af hálfu lögreglunnar felist ákveðin ógn og mér er meinilla við ef það eiga að vera vinnubrögð í framtíðinni, og ég hef miklar efasemdir um að lagaheimildir séu fyrir slíku eins og nú er.

Hæstv. ráðherra sagði að í framtíðinni væri ætlunin að þessi greiningardeild hefði sambærilegar lögheimildir og samsvarandi deildir í nágrannalöndunum og þeim löndum sem við þurfum að eiga gott samstarf við á þessu sviði. Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða heimildir eru þetta? Ég hjó eftir því að hann sagði að slíkar tillögur yrðu hugsanlega kynntar síðar. Mig langar þá að spyrja hann og fá svör við því hvort það sé á döfinni að leggja fram frumvarp sem gefi þessari deild einhvers konar nýjar heimildir umfram þær sem er að finna núna og ef svo er þá spyr ég hann líka hvort ekki hefði verið rétt að láta þetta tvennt fylgjast að. Ég lít nefnilega svo á að ef þessum spurningum er ekki svarað séum við í reynd að gefa út óútfyllta ávísun.

Ég tek líka eftir því að hæstv. ráðherra leggur til að eftir atvikum verði heimilt að stofna greiningardeildir af þessu tagi við önnur embætti í landinu ef þörf krefur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað í því felst, við hvaða aðstæður væri hugsanlega þörf á því að stofna slíkar greiningardeildir annars staðar. Ég geld varhuga við áhættugreiningunni og tel að þingið þurfi að ræða af mikilli alvöru afleiðingar þess að veita heimild til að fara út í greiningu af því tagi. Hún byggist á því að safna saman upplýsingum um einstaklinga eða hópa og ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er það sem mun taka ákvörðun um hvaða einstaklingar og hugsanlega hópar yrðu undir slíku eftirliti og þyrftu að sæta því að upplýsingum yrði safnað um þá? Það eru þessi atriði sem ég er helst hræddur við og það er þess vegna sem ég hef velt þessum spurningum upp í umræðunni í dag.

Ég var líka viðstaddur og tók sjálfur þátt í umræðum á þingi Evrópuráðsins fyrir tæpu ári þar sem lögð var fram skýrsla og í framhaldi af því voru samþykkt tilmæli sem vörðuðu einmitt lýðræðislegt eftirlit með hvers konar upplýsingasveitum af þessu tagi, hvort heldur menn kalla það leyniþjónustur eða öryggislögreglu. Rík áhersla var lögð á það að kjörnir fulltrúar fólksins kæmu með einhverjum hætti að því, að sjálfsögðu í fullum trúnaði, að hafa eftirlit með því hvaða heimildir slíkar sveitir fengju í sínar hendur og hvernig þeim væri beitt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að með einhverjum hætti komi inn í lög af þessu tagi, ef þetta á að samþykkjast, ákvæði um það hver það er sem á að gæta gæslumannanna og það getur enginn gert nema kjörnir fulltrúar fólksins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þetta þurfi að tryggja í lögum.

Síðan langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé svo að þetta tiltekna ákvæði, sem er að finna í 1. gr. a-liðarins, hafi verið hluti af niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem samþykkt var á sínum tíma. Mig minnti nefnilega að sú verkefnisstjórn hefði lagt fram að vísu ítarlegar tillögur en ég man ekki eftir því að þetta hafi verið hluti af því. Það kann hins vegar að vera misminni mitt og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji upplýsa mig um þetta.

Að öðru leyti skiptir mestu máli að finna hinn gullna meðalveg. Að af fremsta megni sé reynt að gæta öryggis borgaranna án þess að of langt sé seilst inn á það svið sem við höfum talið persónufrelsið afmarka. Af þessu hafa menn áhyggjur vítt um lönd í dag. Við vitum það öll að í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum greip um sig mikil skelfing í mörgum löndum heims. Í viðbragðsflýtinum voru þá samþykktar ýmsar heimildir til handa framkvæmdarvaldi hinna ýmsu ríkja til að fylgjast með og grípa til tiltekinna ráða í því skyni að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig. Í kjölfarið hafa runnið tvær grímur á menn víða um lönd og sums staðar finnst fólki og stjórnmálamönnum að menn hafi haft fullmikinn hraða á sér og gengið of langt í þeim efnum. Það er því nauðsynlegt að við rösum ekki um ráð fram og vitum nákvæmlega hvað það er sem við erum að fara að samþykkja hér. Eftir að hafa þaullesið þetta frumvarp og greinargerðina og hlustað á hvert einasta orð hæstv. ráðherra er ég ekki algerlega viss um hvað felst í þeim heimildum sem verið er að leggja til að Alþingi samþykki.