Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 16:10:33 (4916)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[16:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögreglulögum. Fyrri ræðumenn hafa ýmsir talað um að við eigum að ræða þetta mál í ljósi fyrri verka hæstv. ráðherra. Menn hafa þá lagt það út á þann veg að allt sem hæstv. dómsmálaráðherra hafi lagt fram hafi verið slæmt. Ég ætla að bera blak af hæstv. ráðherra, hann hefur bætt úr ýmsu sem hefur í byrjun litið illa út. Ég vonast til þess að hann verði einnig tilbúinn að verða við ýmsum réttmætum breytingum á þessu frumvarpi þannig að það geti orðið tiltölulega góð sátt um þetta mál. Það er náttúrlega fáránlegt að afgreiða lögreglulög í einhverri ósátt eða pólitískum ágreiningi. Ég er á því að við eigum að ræða frumvarpið með það að markmiði að þolanleg sátt verði um málið.

Ég vil taka fram að hæstv. ráðherra er ekki alls varnað hvað það varðar að taka tillit til ábendinga, t.d. um umdeilt mál sem minnst var á fyrr í umræðunni og snertir fangelsismál. Það var dregið til baka og ég vil reikna það hæstv. ráðherra til tekna, það er gott þegar menn sjá að sér. Einnig var hlerunarfrumvarpið lagfært þannig að þingheimur gat sæst á það. Hæstv. ráðherra dró líka umdeilt fjölmiðlafrumvarp til baka sumarið 2004, hann sá greinilega eftir því frumvarpi og taldi það ekki eiga rétt á sér. Ég er á því að við eigum að ræða þetta frumvarp með þeim hætti að við getum komist að niðurstöðu og jafnvel sæst á það. Við eigum ekki að deila um þetta heldur nálgast frumvarpið með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu. En það verður samt að segjast eins og er að þegar ég spurði hæstv. ráðherra út í frumvarpið fannst mér hann vera hálfhvumpinn og ekki svara þeim spurningum sem ég beindi að honum. Þær vörðuðu það að verið væri að stofna til nýrrar deildar og nýrra verkefna hjá ríkislögreglustjóra og það kom hvergi skýrt fram í máli hæstv. ráðherra hvaðan þeir fjármunir ættu að koma.

Hin spurningin varðaði víkingasveitina. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki til hvernig hann mældi árangur stóraukins liðssafnaðar víkingasveitar hjá lögreglunni í landinu og mér finnst það miður, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra talaði mjög um að markmið ættu að vera mælanleg.

Ég er ekki pólitískt sammála hæstv. ráðherra hvað varðar áherslur hans í löggæslumálum. Ég er á því að það sé vafasamt að leggja alla áherslu á víkingasveitina. Önnur verkefni blasa við sem snerta hagsmuni almennings í meira mæli og þá á ég við umferðarlöggæslu. Ef við lítum til þess að á þriðja tug manna lætur lífið á hverju ári í umferðinni — það hafa verið teknar saman skýrslur um það, frú forseti, að um milljarða tjón er að ræða, jafnvel á annan tug milljarða í alvarlegustu umferðarbrotunum — hefði ég lagt áherslu einmitt á þann málaflokk en minni áherslu á víkingasveitina. Þó að hér hafi verið fullyrt að einhver árangur væri af starfrækslu hennar þá forðaðist hæstv. ráðherra að svara því hver sá árangur væri en eflaust gerir hann það í lokaræðu sinni.

En varðandi stofnun greiningardeildar sem á að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins þá tek ég undir með ýmsum sem það hafa gagnrýnt. Það verður að leggja meira til grundvallar en gert er í frumvarpinu til að stofna slíka deild. Hér er farið almennum orðum um hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi í heiminum. Ég er á því að rökin fyrir því verði að vera skýrari þannig að hægt sé að leggja blessun sína yfir það. Einnig finnst mér að hæstv. ráðherra ætti að kappkosta að gera málið þannig úr garði að allir geti fallist á það. Eins ætti einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Ég átta mig ekki á að þetta sé greiningardeild eða hvernig hún á að starfa. Það hefur ekki komið fram. Á hún að lesa blöðin, fylgjast með fréttum í sjónvarpinu, fylgjast ákveðnu fólki eða þjóðfélagshópum? Mér finnst að áður en við höldum áfram með þetta mál þurfi að fara fram hreinskiptin umræða um hvað þessi deild eigi að gera.

Um stofnun slíkrar deildar þarf einnig að ríkja sátt. Hún verður að njóta trausts í samfélaginu. Það er ekki nóg að hún njóti trausts hæstv. dómsmálaráðherra eða ríkislögreglustjóra heldur verður almenningur að vera þess fullviss að eftirlit sé með deild sem á að fylgjast með svo mikilvægum málaflokkum. Ég er á því að það yrði málinu til framdráttar að ákveðið eftirlit, t.d. Alþingis, væri með þessari deild. Það hefur komið fram, m.a. í máli hæstv. ráðherra, að deildin eigi að vera í samstarfi við sambærilegar stofnanir í nágrannaríkjunum. Þess vegna verða menn að koma hreint fram hvað þetta varðar.

Ég vildi hins vegar einnig gera að umtalsefni að menn óttast það mjög á landsbyggðinni að löggæsluverkefni verði dregin suður og þetta frumvarp sé liður í því. Mér finnst miður að hæstv. ráðherra svari ekki hvort að svo sé. Með frumvarpinu er stofnað til aukins kostnaðar í Reykjavík auk þess sem embættin á landsbyggðinni eru sameinuð að einhverju leyti. Ég er á því að það verði að koma fram hvaðan fjármunirnir í greiningardeildina eiga að koma. Mér finnst sanngjarnt að hæstv. ráðherra svari því með einhverjum hætti.

Hvers vegna er þessi tortryggni á landsbyggðinni? Jú, t.d. hefur hæstv. ráðherra rukkað um löggæslukostnað ef landsbyggðarmenn halda litlar hátíðir. Þá er jafnvel sendur reikningur á undan, áður en viðkomandi hátíð er haldin. (Dómsmrh.: Hvenær hefur það verið gert?) Það hefur t.d. verið gert í Skagafirði að ganga þurfti frá löggæslukostnaði áður en ungmennalandsmót í Skagafirði var haldið. Um það stóðu miklar deilur. Ég hef flutt frumvarp þess efnis að frá því verði gengið að menn þurfi ekki að standa í þrasi um löggæslukostnað.

Eitt af því sem fólk á landsbyggðinni óttast, frú forseti, er að þetta frumvarp búi til einhverja nýja sveit hjá ríkislögreglustjóra í Reykjavík en dragi úr verkefnum á landsbyggðinni. Ef við skoðum hvar alvarlegu umferðarslysin eru þá eru þau oft úti á þjóðvegunum. Mér finnst að áherslurnar ættu að vera þar en ekki endilega á að fjölga víkingasveitarmönnum. Umferðareftirlit og löggæsla í umferðinni skiptir almenning miklu máli. Ég er á því að við ættum að ræða það fremur en fjölgun víkingasveita og slíkt.

Annað er vert að skoða af þessu tilefni. Menn vilja fylgjast með og greina atburði, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Mér finnst það gott mál. Ég gæti jafnvel tekið undir slíkt frumvarp, að setja þyrfti slíka stofnun á fót. En þá þurfa menn líka að búa svo um hnúta að með því sé eftirlit og almenn sátt um það. Slík mál má ekki eingöngu reka af einum flokki eða hæstv. dómsmálaráðherra. Það þarf að vera almenn sátt um svona mál ef fara á út í breytingar af því tagi. En það væri líka ágætt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að hugleiða, vegna þess að honum er umhugað um brot gegn stjórnskipan ríkisins, æðstu stjórnvöldum og lýðræðislegri skipan, stöðu þeirra flokka sem sækjast eftir opinberu valdi. Það þarf náttúrlega líka að hafa eftirlit með þeim og því hvernig þeir fjármagna sig, frú forseti.

Ég er á því að menn sem gera svo ríkar kröfur um að setja meira í að greina hætturnar verði að líta í eigin barm, frú forseti. Hvernig fjármagna þeir sig? Það er t.d. orðið mjög dýrt að taka þátt í prófkjörum. Þetta kostar milljónir fyrir menn sem sækjast eftir almannavaldi. Ég sé að einhverjum þykir þetta ekki koma málinu við, en þetta snertir málið. (Dómsmrh.: Ekki Frjálslynda flokkinn.) Ég heyri á hæstv. ráðherra að honum er umhugað um Frjálslynda flokkinn. (ÖS: Hann er hræddur við ykkur.) Það má sjá á heimasíðu hans að hann er hræddur við ýmsa aðila. Þar ritar hann um Baug, þríhyrninga og ýmsar samsæriskenningar. En ég vona sannarlega að þetta frumvarp um greiningu á hættum sem steðja að stjórnskipan ríkisins beinist ekki að þessum hópum, háskólanum, Öryrkjabandalaginu og stjórnarandstöðunni. Ég býst við að menn séu að velta öðrum hlutum fyrir sér í þessu efni.

Mér finnst samt sem áður, frú forseti, að þeir sem alltaf eru að greina hluti sem geti verið hættulegir lýðræðisskipan og æðstu stjórnvöldum ættu einnig að gera kröfur til sín, t.d. um að opna bókhald sitt. Hver fjármagnar Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn? Þar verða almannahagsmunir að ráða og verður að hafa eftirlit með því líka. Ég vonast til að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég beindi til hans í upphafi máls míns. Hann er oft málefnalegur þótt við deilum kannski ekki sömu sýn á löggæslumálin. Ég vil frekar efla umferðareftirlitið. Ég tel að það varði fremur hagsmuni almennings en víkingasveitin. Hvaðan eiga að koma fjármunirnir í þessa greiningardeild? Menn óttast að dregið verði saman í löggæslunni á landsbyggðinni. Ég hef bent á, varðandi þetta frumvarp sem miðar að því að hagræða og jafnvel að draga saman úti á landi hjá sumum embættum, m.a. á Sauðárkróki, að mér finnst þetta svolítið sérkennilegur sparnaður, að fara alltaf út á land til að finna einhverja smáaura. Það blasir við öllum sem skoða sviðið og velta fyrir sér hvert fjármunirnir í löggæslunni fara að þeir enda á höfuðborgarsvæðinu.

Það er vissulega unnið að sameiningu lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu. En menn sjá hins vegar að öðrum megin við Snorrabrautina er embætti sem veltir um milljarði og hinum megin við götuna eru aðrir milljarðar. Þar mætti ef til vill ná fram hagræðingu en menn fara alltaf til Hólmavíkur eða Sauðárkróks til að ná í einhverjar krónur. Mér finnst að þetta þurfi að koma fram og fara þurfi í gegnum þessa þætti. Ég vonast til þess, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að hæstv. dómsmálaráðherra sjái að sér. Hann hefur átt ágæta spretti af og til í að ná sátt um mál, t.d. um hlerunarmálið, hann dró til baka fangelsismálið, um fullnustu refsinga og síðast en ekki síst dró hann til baka löggjöfina um fjölmiðlafrumvarpið. Hann sá að sér þar. Um slík mál þarf að ríkja sátt í þjóðfélaginu.