Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 16:25:46 (4917)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[16:25]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda mig við að ræða um skipan lögreglumála og fara aðeins yfir það sem hefur gerst í þessu máli.

Björn Bjarnason, hæstv. ráðherra hefur farið yfir tillögurnar sem framkvæmdanefndin kom með. Þær gerðu ráð fyrir fækkun lögregluumdæma úr 26 í 15 og að stofnuð yrðu sjö lykilembætti sem eiga að annast rannsóknir og fleira. Hæstv. ráðherra gerði fáar breytingar á þessum tillögum. En hann gerði tvær sem snerta Norðvesturkjördæmi, svo ég haldi mig við að fara yfir stöðuna þar. Ég held að það gefi góða mynd af því sem stendur til. Annars vegar breytti hann því að lykilembætti fyrir Vesturland skyldi verða á Akranesi í stað Borgarness. Hins vegar átti Hólmavík að tilheyra sýslumannsembættinu á Ísafirði.

Fyrirkomulagið á lögreglumálum á landinu er náttúrlega barn síns tíma. Bættar samgöngur og bylting í samskiptamöguleikum, t.d. í fjarskiptum, tölvutækni og tækjabúnaði við löggæslustörf, hefur fyrir löngu skapað mikla möguleika á endurskipulagningu lögreglumála. Markmiðið er að efla þjónustu löggæslunnar, gera hana hagkvæmari og styrkja hana. Í vegi fyrir breytingum í þessa átt hefur staðið svolítið merkileg íhaldssemi. Hún er undarleg og helst sambærileg við þá andstöðu sem verið hefur við stækkun og eflingu sveitarfélaga í landinu. Eins mætti nefna andstöðu og tregðu við að breyta prestaköllum. Þetta er sem sagt fremur pólitískt viðnám við þróun til meiri hagræðingar.

Dómsmálaráðherrar síðustu ára hafa svo sem allir séð nauðsyn þess að endurskipuleggja lögreglumálin en ekki haft krafta til að taka þær ákvarðanir. Sýslumenn og aðrir fyrirmenn í ýmsum héruðum hafa risið öndvert gegn flestum hugmyndum um breytingar þar til núna. Þá tillögu sem nú er fram komin ber því ekki að vanþakka þó hún sé engan veginn nógu burðug. Við verðum, eftir að hafa beðið lengi eftir úrbótum á þessu sviði, að gefa ráðherranum prik fyrir viðleitni þótt sannarlega hefði mátt gera betur a.m.k. hvað varðar skipulag þessara mála á Vesturlandi. Ég hef oft látið í ljós þá skoðun mína að Vesturland ætti að vera eitt lögregluumdæmi. Hvar lögreglustjóri svæðisins eigi að sitja hef ég látið liggja á milli hluta enda finnst mér það ekki skipta öllu máli í þessu efni. Hann gæti t.d. setið á Akranesi, Borgarnesi eða Stykkishólmi.

Það kemur reyndar skýrt fram í skýrslu verkefnisstjórnar sem kom út snemma á síðasta ári að þetta væri ákjósanlegasta fyrirkomulagið, þ.e. að hafa eitt lögregluumdæmi á Vesturlandi. Því miður hefur skort á getu og kjark hæstv. dómsmálaráðherra til að fara að þeirri tillögu. Niðurstaðan er því þrjú lögregluumdæmi. Eitt þeirra myndar hring um Snæfellsjökul, annað nær yfir flatlendi vestur af Akrafjalli, það er ekki mjög stórt. Hið þriðja nær yfir Vesturland að öðru leyti. Þetta er ekki mjög gáfulegt fyrirkomulag, eða hvað? Væri ekki nær að hafa Vesturland sem eitt lögregluumdæmi og að lögsagnarmörkin væru þá eingöngu í kringum það í staðinn fyrir að kljúfa það upp í þrjá parta eins og gert er ráð fyrir?

Allir hljóta að sjá að þetta er ekki skynsamleg niðurstaða. En að mínu viti er ljóst að stækkun og efling umdæmanna á landsvísu færir okkur fram á veginn, mun skila betri þjónustu og meira öryggi til borgaranna. Stofnun lykilembætta gefur vísbendingu um að stjórnvöld vilji halda áfram á þeirri braut sem hér er byrjað að feta. Ég óttast hins vegar að upp muni koma togstreita um starfsfyrirkomulag og verkefni milli lykilembættanna og þeirra embætta sem undir þau eiga að heyra. Vonandi verður hægt að ná fram endurbótum á þessum tillögum á Alþingi þegar fjallað verður um málið.

Á það vil ég leggja áherslu á, hæstv. forseti, þegar fjallað verður um þetta mál, þótt menn hafi ekki rætt þetta mál sérlega mikið í dag og haft áhuga á öðrum hlutum frumvarpsins, að ég óska eindregið eftir því að í nefndinni fari menn vandlega yfir þetta atriði og reyni að átta sig á því hvort eigi nú ekki að ganga lengra en gert er. Ég tel t.d. að Vesturland sé ágætisdæmi um að ganga megi alla leið í því að breyta þessu svæði í eitt lögreglusvæði og hafa einn lögreglustjóra á svæðinu.

Það er að mínu viti ávísun á erfiðleika í samstarfi og togstreitu á milli embætta að setja upp slíkt lykilembætti. Það á að hafa einhvers konar boðvald yfir (Dómsmrh.: Það er ekki rétt.) hinum embættunum, ráða rannsóknum og öðru slíku. Hæstv. ráðherra svarar því þá hér á eftir ef hann telur að það sé nú engin hætta á því að það verði togstreita. (Dómsmrh.: Það er rangt.) Hæstv. ráðherra hefur væntanlega hlustað á sýslumenn á þessum svæðum. Þeir virðast sumir hverjir sömu skoðunar og ég, að það sé hætta á togstreitu milli embættanna.

Ég tel ástæðu til að huga að því. Ég bið þá hæstv. ráðherra að rökstyðja það þannig að menn sem ekki eru gáfaðri en ég skilji af hverju hafa skuli þrjú lögsagnarumdæmi á Vesturlandi þegar eitt þeirra nær yfir nánast allt Vesturland en hin yfir mjög takmarkað svæði, annars vegar í kringum Snæfellsjökul og hins vegar flatlendið vestur af Akrafjalli. Þetta held ég að segi sína sögu um að menn skorti pólitískan kjark til að ganga alla leið og gera það sem skynsamlegast er. Það liggur í augum uppi.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um málið að sinni en hvet nefndarmenn til að huga vel að þessu, skoða málið vandlega og taka því ekki sem gefnu að hæstv. ráðherra hafi komist að allra bestu niðurstöðu sem hægt er að finna. Þannig er það einfaldlega ekki. Þótt búið sé að leggja svo mikla vinnu í þetta mál er niðurstaðan ekki sú skynsamlegasta. Það er a.m.k. ljóst að mínu mati að það á að ganga lengra. En ástæðan fyrir því að menn gera það ekki er að menn skortir pólitískan kjark og styrk til að klára málið skynsamlega.