Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:04:53 (4920)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:04]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og vona að hún hafi orðið til að skýra ýmislegt í þessu frumvarpi og þau atriði sem menn hafa verið að velta fyrir sér. (Gripið fram í.) Mun ég nú víkja að ýmsum atriðum ef ég fæ málfrið fyrir frammíköllum.

Hvað varðar það sem talað var um undir lokin og það sem hv. þingmenn veltu fyrir sér varðandi stækkun umdæmanna og síðan spurningin um nálægð lögreglumanna þá vil ég taka fram að ekki er gert ráð fyrir því að lögreglustöðvar verði lagðar niður. Það kemur sérstaklega fram í greinargerðinni á bls. 8, með leyfi forseta:

„Lögreglustöðvum verður ekki lokað vegna breytinga á lögregluumdæmum og sérstaklega er áformað að ákveðið verði í reglugerð að lögregluvarðstofur utan aðalstöðvar lögreglu skuli vera í Búðardal, á Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík auk þeirra staða sem nú eru tilgreindir í reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Þeir staðir eru Ólafsvík, Grundarfjörður, Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Fáskrúðsfjörður og Grindavík.“

Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til að þessum lögreglustöðvum verði lokað. Það er áréttað í greinargerð með frumvarpinu að það verði sett inn í reglugerðina að lögreglustöðvar skuli vera á þessum stöðum. Ég held því að þær áhyggjur séu með öllu ástæðulausar.

Ég vil líka geta þess að það er algerlega rangt að draga upp þá mynd, eins og kom fram í máli tveggja þingmanna, að það að rannsóknardeildir starfi við sjö embætti í landinu feli í sér að þau embætti séu eitthvað yfir önnur embætti sett og að verið sé að fela þeim embættum einhvers konar yfirstjórn yfir öðrum lögregluembættum í þeim umdæmum sem þessar rannsóknardeildir ná til. Svo er ekki. Það er ekki gert ráð fyrir því, heldur að í hverjum landshluta byggist upp nægilega stór eining rannsóknarlögreglumanna til að geta sinnt stórum og flóknum málum og að sú þjónusta sé færð nær íbúunum en er með þeirri skipan sem nú gildir. Það er einmitt þess vegna sem farið er sérstaklega í að breyta ákvæðum í 5. gr. lögreglulaganna, sem kemur síðan inn á rannsóknardeildina og greiningardeildina, til að árétta það að menn þurfi ekki að sækja þessa þjónustu til ríkislögreglustjóra heldur sé ætlunin að byggja upp slíka þekkingu og þjónustu í héruðunum, nær borgurunum, á sjö stöðum á landinu. Þessir menn eiga að koma að því að rannsaka stór og flókin mál sem upp koma og taka á þeim en þeir eru ekki yfir aðra settir og sýslumenn eru ekki yfir aðra settir. Þess vegna er það rangt sem hér var gefið til kynna, þegar talað er á þann veg, sérstaklega af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem endurspeglast líka í þeim texta sem skorað er á fólk í Borgarbyggð að skrifa undir, þar sem látið er í veðri vaka að einhvers konar valdboðsheimildir fylgi því að rannsóknardeildirnar séu á sjö stöðum á landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn átti sig á þessu þannig að þeir fari ekki með vitlausan boðskap um efni frumvarpsins og er nauðsynlegt að leiðrétta það hér vegna orða tveggja þingmanna í umræðunni.

Rannsóknarlögreglumaður í Vestmannaeyjum — það er ekki verið að breyta lögregluliðinu í Vestmannaeyjum á neinn hátt. Þar er rannsóknarlögreglumaður. Ég sé því ekki hvers vegna á að gera það tortryggilegt þegar tekið er fram að því verði ekki breytt og fjölda lögreglumanna verði ekki breytt í Vestmannaeyjum. Þarna er líka verið að gefa til kynna að verið sé að breyta einhverju sem ekki á að breyta með þessu frumvarpi. Nóg er að ræða um það sem breytt verður, annað að draga þær ályktanir af frumvarpinu að breytingarnar séu meiri en þar er mælt fyrir um og er þess vegna ástæða til að taka þetta sérstaklega fram.

Hvað þennan lið frumvarpsins varðar sérstaklega þá kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann væri að velta fyrir sér þessari spurningu með Hólmavík og Ísafjörð eða Hólmavík og Búðardal. Í upphaflegum tillögum, áður en þetta fór í kynningu til sveitarfélaganna, var gert ráð fyrir að Hólmavík og Búðardalur féllu undir lögreglustjórann í Borgarnesi en á fundum á Vestfjörðum var eindregið lagst gegn því að Hólmavík yrði skilin frá Ísafirði. Þess vegna var ákvörðun tekin um við lokagerð málsins að Hólmavík yrði í umdæmi lögreglustjórans á Ísafirði. Þar er því farið að eindregnum óskum heimamanna og tekið tillit til þeirra. Ég heyri að hv. þm. Jón Bjarnason er þessu ósammála og raunar virtist mér á ræðu hans að hann fyndi frumvarpinu allt til foráttu og teldi að það ætti engan rétt á sér. Verið væri að skerða svo hag íbúa um landið að þetta væri í raun og veru slíkt frumvarp að ekki væri rétt að það næði fram að ganga. Að minnsta kosti skildi ég hann þannig að hann vonaðist til að nefndin breytti því öllu á þann veg að þarna yrði í raun og veru engin breyting. Dálítið furðuleg ræða. Ef við eigum ekki að taka mið af því sem fram kom t.d. á þeim fundum þegar rætt var við heimamenn og þeir óskuðu sérstaklega eftir því að vera ekki með Búðardal og Borgarfirði heldur falla undir Ísafjörð, þá finnst mér langt gengið í kröfum til ráðuneytisins um að hunsa sjónarmið íbúa. Eins þegar hv. þingmaður talar um að eðlilegt sé að Reykhólahreppur falli undir Búðardal, þá virðist hann alveg horfa fram hjá því að Reykhólahreppsíbúar hafi, að ég held, tvisvar sinnum hafnað því að verða hluti af lögsagnarumdæmi sem falla mundi undir Búðardal. Hann virðist því ekki taka neitt mið af því sem fólk í þessum byggðarlögum hefur um þetta að segja.

Síðan ræddi hv. þm. Sigurjón Þórðarson hvað eftir annað um að verið sé að taka peninga af landsbyggðinni og setja þá í að fjölga mönnum vegna greiningardeildar. Þetta er misskilningur. Það kemur hvergi fram í frumvarpinu að slíkt eigi að gera. Þvert á móti stendur þar að efla eigi sýslumannsembætti úti á landi og eina fjárhæðin sem nefnd er í greinargerð frumvarpsins er 50 millj. kr. sem fluttar verði með þeim verkefnum sem ráðgert er að flytja út á landsbyggðina. Ég get því miður ekki nefnt dagsetningar í því efni, ekki frekar nú en þegar ég tók til máls í andsvörum, ég ætla ekki að gera það en vísa til þess sem stendur í frumvarpinu. Ég tel að það verkefni sem við erum að vinna að í samvinnu við sýslumanninn á Blönduósi sé ákveðið lykilverkefni í þessu og leiðsagnarverkefni sem þarf að hafa í huga þegar hugað er að öðrum verkefnum.

Hinn þáttur umræðunnar snerist að verulegu leyti um svokallaða greiningardeild og þar drógu menn skrattann á vegginn með mismunandi sterkum litum. Sterkasti liturinn var hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem sá skrattann aðallega í dómsmálaráðherranum, dæmalaust vitlaus ræða og barnaleg í þessum umræðum. Enn og aftur fer þingmaðurinn í sama farið og flytur þessa barnalegu ræðu sína eins og hún breyti einhverju um efni þess máls sem verið er að fjalla um. Andúð hans á dómsmálaráðherra er greinileg og hefur margoft komið fram en hún breytir engu um nauðsyn þess að fjalla um alvarleg málefni sem snerta öryggi ríkisins, lögreglumál og annað slíkt. Ef þingmaðurinn kemst ekki yfir þann þröskuld sem hann sér í ráðherranum verður hann bara að eiga það við sig. Við ræðum um þetta málefni á málefnalegum forsendum en ekki með þeim einkennilega hætti sem þingmaðurinn kýs að ræða þessi mál.

Varðandi þá spurningu hvort þörf sé á greiningardeild þá heyri ég á öllum þingmönnum hér að þeir telja þörf á því að lögreglan sinni þessum verkefnum. Það er enginn ágreiningur um það. Allir þingmenn sem hér hafa tekið til máls og gert þetta að sérstöku umtalsefni eru sammála um að nauðsynlegt sé að lögreglan sinni því að gæta öryggis ríkisins og að líta beri til þessara hluta. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er hins vegar undrandi á því að menn séu farnir að hafa áherslurnar öðruvísi en áður. Það stafar af því að umhverfið hefur breyst, það stafar af því að nauðsynlegt er að ræða þessi mál á öðrum forsendum og taka mið af því umhverfi sem við lifum í og störfum í. Það er aðalatriðið í þessu máli.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði: Hvar er fjallað um þetta í skýrslu verkefnisstjórnarinnar? Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar er fjallað um þetta t.d. með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Skýrari reglur um starfsemi öryggislögreglu. Samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er það hlutverk ríkislögreglustjóra m.a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í helstu nágrannalöndum okkar er verkefnum af þessu tagi sinnt af lögreglu, en iðulega í sérstakri deild eða sérstakri öryggislögreglu,“ — sem ekki er verið að leggja til hér — „sem starfar á grundvelli skýrra lagaheimilda og jafnvel sérstakrar löggjafar og samkvæmt þeirri löggjöf undir sérstöku eftirliti.“

Ef við stígum það skref sem hérna er verið að tala um er eðlilegt að við setjum um það sérstök lög og höfum þá líka sérstakt eftirlit sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala um, ef við teljum það nauðsynlegt. Ef það er það sem þingmenn telja nauðsynlegt, að stofna hér sérstaka öryggislögreglu til að huga að sérstöku eftirliti, hvernig sem því er háttað, þá er það sérstakt viðfangsefni sem við erum ekki að fjalla um hér.

Hins vegar varðandi það þegar spurt er um eftirlit með lögreglunni, þá hefur ríkissaksóknari sérstakar skyldur til eftirlits með henni, einnig dómstólarnir og síðan að sjálfsögðu ráðuneytið og ráðherrann gagnvart þinginu. Ég held því að gagnvart lögreglunni séu allar eftirlitsheimildir þannig að viðunandi sé á allan mælikvarða. Enda hefur aldrei verið gerð nein athugasemd við það af hálfu neins eftirlitsaðila sem hingað hefur komið að þar sé einhver pottur brotinn varðandi þá þætti í löggjöf okkar.

Eins og segir í þessari skýrslu, ef menn ætla að stíga það skref að stofna hér öryggislögreglu þá er það annað mál og þá þarf um það sérstaka löggjöf og þarf að huga að því sérstaklega. Það er ekki gert í þessu frumvarpi, í því er verið að tala um rannsóknardeild lögreglu og greiningardeild og lögð áhersla á greiningarþáttinn. Það er líka gert hér í umræddri skýrslu. Og þá taka menn dæmi sem eru þekkt og standa mönnum nær eins og t.d. bara efling grenndar- og hverfalöggæslu. Hvað felst í því að efla grenndar- og hverfalöggæslu? Hvað felst í því að lögreglumenn tileinki sér þekkingu á ákveðnum hverfum eða ákveðnum byggðum í landinu? Í því felst að þeir séu reiðubúnir til að afla sér þeirrar þekkingar um þróun mála á því svæði, að þeir geti greint áhættu sem að steðjar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir einhverja hættu sem að íbúunum stafar. Það sem við erum að leggja áherslu á með þessu, greiningardeild á vegum ríkislögreglustjóra eins og kemur fram, er alþjóðleg glæpastarfsemi, skipulögð glæpastarfsemi, hryðjuverk. Það má því segja að við séum að uppfæra starf sem við getum kallað hverfalögreglu líka, grenndarlögreglu þar sem menn eru að greina ákveðna strauma og við leggjum áherslu á þá þætti. Þetta eru atriði sem menn mega ekki missa sjónar á. Og ef þeir vilja ekki að þetta tæki sé skilgreint og þetta sé sagt í lögum og að menn átti sig á því að lögreglan hafi það hlutverk sem við felum þessari deild, þá finnst mér menn horfa fram hjá ákveðnum hluta af heimsmynd okkar og neita að horfast í augu við hann. Svo mála þeir skrattann á vegginn, verða hræddir og segja, nei, það er betra að gera ekki neitt, eins og mátti skilja að sumu leyti af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar. (Gripið fram í.)

Það er þetta sem við þurfum að huga að og um þetta er verið er að tala um í frumvarpinu. Allt annað, og það þótti mér fróðlegt að heyra, að næstu skref sem þingmenn vilja stíga eru þess eðlis að þeir eru að velta því fyrir sér eftirfarandi: Á dómsmálaráðherra að koma inn í þingið með lagafrumvarp sem byggist á því að við séum að koma á laggirnar öryggislögreglu eða einhvers konar leyniþjónustu? Það bíður þá og gæti orðið næsta verkefni ef þingmenn vilja að ég vinni að því, ég mun þá að sjálfsögðu huga að því. Það er vikið að því í þessari skýrslu að ef það eigi að gera, þá eigi að gera það með sérstökum lögum og þá þurfi að huga að sérstöku eftirliti. Í því frumvarpi sem ég er að kynna í dag er ekki farið inn á það. (Gripið fram í.) Ég gaf það ekkert til kynna. Ég hef ekki gefið neitt slíkt til kynna því ég tel að greiningardeild sé eins og ákveðin grenndarrannsóknardeild fyrir landið allt, hún skynjar þær hættur sem að landinu steðja en notar sams konar aðferðir, átta sig á sams konar aðferðum og hafa gefist vel við baráttu gegn fíkniefnum og slíkum hlutum. Fíkniefnalögreglan nær ekki árangri nema hún leggi áherslu á greiningu og mat á áhættu. Hún nær engum árangri nema hún afli sér upplýsinga og reyni að draga ályktanir af þeim upplýsingum sem hún getur aflað sér.

Í dag bárust fréttir af því að tveir Litháar hefðu verið handteknir vegna fíkniefnamáls á Keflavíkurflugvelli. Ég fullyrði að handtaka þessara manna byggist á áhættumati og greiningu sem unnin er af fíkniefnalögreglu og lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli þar sem tekið er mið af ákveðnum vísbendingum sem leiðir til að þessir menn finnast. Þetta eigum við að viðurkenna (Forseti hringir.) og þessa starfsemi ber að virða og það er hún sem við erum að árétta með því frumvarpi sem ég er að flytja hér í dag.