Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:20:27 (4921)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:20]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er leitun á jafn viðkvæmum ráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra er gagnvart sínum eigin verkum. Það getur vel verið að hann vilji fela þau verk. En ég er að endurspegla málflutning nánast allra mannréttindasamtaka þessa lands gagnvart þeim áherslum í frumvörpum sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir þjóðina, hvort sem það eru hleranir án dómsuppúrskurðar, skerðing á gjafsókn, svínsleg útlendingalög og svo mætti lengi telja. Þannig að ég tel að við eigum að setja þetta í samhengi við hvaða vegferð við erum á. Þetta mál vekur einfaldlega spurningar um á hvaða leið við erum. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra í níu liðum málefnalegra spurninga um hver vandinn sé eiginlega. Hverjir eru óvinir ríkisins? Hver verða verkefni þessarar greiningardeildar dagsdaglega? Hvernig fer þetta áhættumat fram? Mun eftirlit með borgurunum aukast? Er svona vinna í gangi núna? Hvað með þjóðskrána? Hvaða starfsheimildir vill ráðherrann auka til að þær verði sambærilegar við heimildir erlendra lögreglna? Og svo mætti lengi telja. Hæstv. ráðherra kaus hins vegar að vera ómerkilegur og ómálefnalegur í svari sínu og leitaðist við (Forseti hringir.) að svara engum af þessum spurningum sem við (Forseti hringir.) þingmenn eigum heimtingu á að (Forseti hringir.) fá svör við.