Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:22:06 (4923)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:22]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hagar sér hérna í þingsal. Að neita að svara þingmanni sem spyr málefnalegra spurninga á hvaða vegferð hann sé og hvað felist í þessu frumvarpi sem hann ætlast til að við samþykkjum. Það var ekkert verið að dylgja um þjóðskrá. Það eina sem ég var að spyrja um var hvort einhverjar breytingar stæðu til varðandi þjóðskrána. Það var eina spurningin. Fólk getur bara lesið það í ræðu minni þegar hún verður gefin út hvort þar hafi falist einhverjar dylgjur. Það eru málefnalegar spurningar sem felast í málflutningi mínum og við eigum einfaldlega heimtingu á að vita þetta. Mun eftirlit með borgurum aukast ef við samþykkjum þetta frumvarp? Hvernig fer þetta áhættumat fram? Er þessi vinna nú þegar í gangi?

Eru þetta ómálefnalegar spurningar? Það hafa meira að segja aðrir þingmenn spurt svipaðra spurninga. Ég skil ekki hvernig hæstv. dómsmálaráðherra heldur að hann geti komist upp með að leggja einhvern hv. þingmann í einelti með að neita að svara honum vegna þeirra staðreynda að hann dregur fram fyrri mál þessa ráðherra. Ég átta mig ekki á þessum málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra og ég krefst þess að hann svari málefnalegum spurningum mínum.