Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:27:33 (4929)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra vék að rannsóknardeildunum sem á að koma upp í hverjum landshluta. Ég er sammála áherslum hæstv. ráðherra í að það eigi að gera það. En ég benti á það í ræðu minni að Norðurland vestra er þar með sett undir annan landshluta, þ.e. undir Norðurland eystra. En annars erum við með þessa skiptingu: Vesturland, Vestfirðir, Austurland, Suðurland, og síðan höfuðborgarsvæðið sem sérstök skipting gildir um. Þannig að ég lagði til að það yrði skoðað hvað þetta embætti varðar með gamla Norðurland vestra eða Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Varðandi samstarf að öðru leyti þá tel ég að margt sé til fyrirmyndar hjá hæstv. ráðherra í þessari vinnu. (Forseti hringir.) En þó tel ég að eðlilegt sé að viðkomandi íbúar eða sveitarfélög fái að koma inn með athugasemdir og ábendingar svo hægt sé að skoða vandlega (Forseti hringir.) hvernig þessu verði sem best hagað.

(Forseti (DH): Ég bið hv. þingmann að virða tímann.)