Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:28:48 (4930)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:28]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þau byggðarlög sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, Skagafjörð og Húnavatnssýslur, þá hefur ráðuneytið verið í sambandi við forustumenn í þeim sveitarfélögum og er nú að vinna að sérstöku verkefni með sveitarfélaginu á Blönduósi og við höfum hitt menn úr Skagafirði. Við höfum rætt við þá og farið yfir þessi mál þannig að það stendur ekki á ráðuneytinu að efna til funda og viðræðna við þessi sveitarfélög eins og öll önnur. Þannig að það er ekki það sem vantar upp á í þetta.