Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:30:56 (4932)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:30]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að segja að ég tel að enginn hæstv. ráðherra eigi að leyfa sér að tala niður til nokkurs þingmanns eins og hæstv. ráðherra gerði áðan. Ég hvet hæstv. forseta til að velta fyrir sér hvort ekki ætti að senda hæstv. ráðherra til Tógó til að láta hann slaka á eða jafnvel kæla fætur sína í hinu ferska og frísklega Þingvallavatni.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér að þingmenn hefðu í dag talað með þeim hætti að þeir væru að óska eftir því að hingað inn í þingið kæmu einhvers konar hugmyndir eða tillögur um öryggislögreglu. Það er rangt. Það hefur enginn þingmaður nefnt það hér í dag. Ég varpaði nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra. Sumum svaraði hann, sumum ekki. Ein af þeim var þessi, og hana endurtek ég:

Hyggst hæstv. ráðherra leggja fram frumvarp sem miðar að því að veita þessari greiningardeild eða lögreglurannsóknardeildinni einhvers konar nýjar heimildir umfram þær sem nú þegar eru til staðar til þess að sinna hlutverki sínu?