Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:32:02 (4933)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:32]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi frumvarp sem snertir heimildir lögreglunnar er það annars vegar í lögreglulögunum og hins vegar í lögunum um meðferð opinberra mála sem hafa verið lengi til endurskoðunar. Réttarfarsnefnd hefur sent ráðuneytinu tillögur sínar. Skipti hafa farið fram á upplýsingum og skoðanaskipti verið á milli ráðuneytisins og réttarfarsnefndar. Þessi mál hafa komið þar til umræðu. Fyrir liggur skýrsla frá 1999 um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Það kemur til álita við gerð þess frumvarps þannig að þessi mál koma þar til álita og í samskiptum ráðuneytisins og réttarfarsnefndar og síðan er það ráðherra að taka ákvörðun um það sem hann leggur fyrir þingið.