Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:34:27 (4936)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:34]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður núna en mig langar aðeins að nota mitt seinna tækifæri í 1. umr. þessa frumvarps í þeirri von minni að hæstv. dómsmálaráðherra treysti sér til að svara spurningum mínum.

Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, sem núna labbar út, sagði í upphafi máls síns að hann vonaði að þessi umræða skipti máli. Hún hefur ekki gert það vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra kaus að svara öllum öðrum þingmönnum en þeim sem hér stendur. Ég hef sjaldan orðið vitni að jafnmiklum dónaskap og hæstv. dómsmálaráðherra sýndi í þessu máli. Ég tel að ræða mín hafi verið málefnaleg og ég dró fram hans fyrri verk, hans fyrri frumvörp, og ég ætla ekki að taka þátt í þeim leik að fela mál hans. Þó að hann vilji ekki fá þau í dagsljósið tel ég mikilvægt umræðunnar vegna að við ræðum þetta frumvarp í samhengi við það á hvaða leið við erum.

Frelsið fer aldrei í einu vetfangi, það fer hægfara, hefur einhver sagt. Þess vegna þurfum við að setja þetta í samhengi. Það sem ég minntist á var að þessi hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem heimilar hleranir án dómsúrskurðar. Það er bara staðreynd. Allsherjarnefndin gat komið í veg fyrir að það yrði samþykkt. Það er sömuleiðis staðreynd að þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra skerti gjafsókn, það var gert í fyrra. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra setti umdeild útlendingalög sem nánast öll mannréttindasamtök, Persónuvernd, Lögmannafélagið o.s.frv. voru mótfallin. Þetta var eitt af þeim málum sem ég dró fram hér. Þessi sami dómsmálaráðherra hefur sömuleiðis breytt lögunum þannig að halda megi eftir gögnum frá verjanda. Þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir því að sérsveitin hefur þrefaldast á þremur árum og hann hefur lýst yfir mjög sérkennilegu viðhorfi gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég setti þetta allt í þetta samhengi því að þetta er lífsskoðun hæstv. dómsmálaráðherra, hún endurspeglast að sjálfsögðu í áherslumálum hans. Ég er bara einfaldlega ósammála hans lífsskoðun — sem betur fer, segi ég — en þó að ég sé ekki sammála hæstv. dómsmálaráðherra, og ég veit að hann mun ekkert vera sammála mér, getur hann a.m.k. svarað spurningum mínum. Hann hefur þeim skyldum að gegna hér í þingsal að svara spurningum hv. þingmanna.

Það fólust engar dylgjur í spurningum mínum. Þetta voru málefnalegar spurningar um hvað felist í þessu frumvarpi, og ekkert meira en það. Það má alveg sjá þær spurningar, þær voru ekki gildishlaðnar á neinn hátt eða neitt slíkt. Þetta var tölusett í níu liðum og ég fékk sáralítil svör frá hæstv. dómsmálaráðherra þegar hann reyndi að svara öðrum hv. þingmönnum þar sem sumum spurningum minna var ekki teflt fram af neinum nema mér.

Það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. dómsmálaráðherra kýs að líta á þetta mál hvað mig varðar sérstaklega. Hann grípur iðulega til þess ráðs að kalla málflutning minn barnalegan, og endurtekur það ítrekað. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem minn málflutningur á að vera barnalegur, og ég veit að fleiri hv. þingmenn sjálfstæðismanna hafa gripið til þeirrar snilldarlegu röksemdafærslu að afgreiða málflutning þeirra sem þeir eru ósammála með þeim rökum. Að sama skapi hlýtur málflutningur ýmissa mannréttindasamtaka, Lögmannafélagsins, Persónuverndar í sumum tilvikum o.s.frv. að vera líka barnalegur því að öll þessi mál sem ég taldi upp áðan voru gagnrýnd af þessum aðilum.

Ég ætla svo sem ekkert að lengja þetta sérstaklega. Mig langaði aftur að ítreka spurningar mínar. Mig langaði að fá frá hæstv. dómsmálaráðherra svör við því hvern hann telji eiginlega vandann vera, hvort hann sjái einhverja óvini ríkisins núna. Mig langaði líka að vita hvort vinnan væri nú þegar í gangi hjá ríkislögreglustjóraembættinu. Það hefur ekki komið fram. Er þessi vinna nú þegar í gangi og er hann að sníða stakk og ramma utan um starfsemi sem nú þegar er í gangi? Mun eftirlitið aukast með þessari lagabreytingu? Því hefur ekkert verið svarað.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki enn þá nefnt starfsheimildir sem hann vill veita lögreglunni og eiga að vera sambærilegar starfsheimildum annarra ríkja. Hann hefur boðað að hugsanlega komi fram frumvarp en mig langar gjarnan að heyra hvaða heimildir hann vill veita lögreglunni, hvað vanti á að hans mati.

Enn ein spurningin sem ekki hefur fengist svar við varðar það að þetta frumvarp opni á fleiri en eina greiningardeild — stendur það til og hver er þá þörfin á slíku?

Síðan má endanlega velta fyrir sér hvað felist í þessu áhættumati, í þessari greiningu á hættunni. Hvað mun þessi deild gera dagsdaglega?

Að lokum hefur verið komið inn á kostnaðinn. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þetta kosti ekki neitt en að sjálfsögðu mun svona deild kosta eitthvað. Hvernig á að mæta þeim kostnaði?

Ég á ekkert von á að hæstv. dómsmálaráðherra vilji svara mér í þetta skiptið frekar en í hið fyrra en mér finnst mjög leiðinlegt hvernig hann kemur hérna fram, og við sérstaklega mig. Ég held að ekki hafi verið tilefni til að haga sér svona og mér fannst þessi hegðun og þessi viðbrögð hans vera honum til skammar. Ég er ekki að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að vera sammála mér, heldur bara að hann sinni því starfi sínu að svara þingheimi sem leggur málefnalegar spurningar fyrir hann. Það tel ég mig hafa gert.