Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:40:01 (4937)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:40]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að taka hér til máls til að mótmæla því sérstaklega að það sé lífsskoðun mín að hér séu stundaðar símahleranir án dómsúrskurðar, að það sé einhver lífsskoðun mín að svo sé. Og það sé lífsskoðun mín að hér séu í gildi lög í landinu sem takmarki ólögmæta komu fólks til landsins, að þetta byggist á lífsskoðun minni, eins og hv. þingmaður segir, og að við séum ósammála um lífsskoðun vegna þessa.

Svo segir hv. þingmaður að ég hafi sett hitt og þetta. Þetta eru allt ákvæði sem samþykkt hafa verið á Alþingi eftir langar umræður og meðferð í nefnd. Ég hef flutt ákveðnar tillögur og ég tel að það sé ekki ámælisvert, m.a. þegar menn kvarta undan því að framkvæmdarvaldið ráði öllu í landinu og snúi þinginu eins og skopparakringlu í kringum sig, að ráðherra leggi fram tillögur sem taki breytingum í þinginu, eins og það sé líka til marks um að þingmaðurinn hafi betri lífsskoðanir en ég að einhverjum frumvörpum sé breytt í þingnefndum.

Þetta hefur ekkert með lífsskoðun að gera. Þetta hefur með það að gera að það er verið að takast á um viðfangsefni líðandi stundar þar sem menn koma með tillögur, takast á um þær á lýðræðislegum vettvangi og komast síðan að niðurstöðu. Það er þess vegna þessi óvirðing við Alþingi sem kemur fram í ummælum þingmannsins og óvirðing við störf þingmanna sem kemur fram í ummælum þingmannsins um meðferð mála í þinginu sem veldur því að ég tel að það sé ekki svaravert að eiga við hann orðastað hér á þessum stað. Það er þessi óvirðing við það að ráðherrann komi með tillögur, leggi þær fram í þinginu, rökræði þær, þær fari í nefnd og síðan taki þær breytingum, að það sé einhver spurning um lífsskoðun mína — þetta er spurning um lýðræðislega stjórnarhætti, almennar umræður og almenna og góða stjórnarhætti í landinu.

Ég sætti mig vel við það að frumvarp sem ég flyt taki breytingum. Það var ég sem átti frumkvæðið að því að kalla frumvarpið um fullnustu refsinga til baka þegar ég sá að það þurfti að betrumbæta það. Það var ekki þingmaðurinn sem stóð fyrir því. Þingmaðurinn hefur ekki staðið fyrir neinum umbótum í lagasetningu frá því að hann kom inn á Alþingi. Og hann hefur haldið þannig á málum sem hann hefur flutt að þeim hefur öllum verið hafnað af þingheimi og enginn viljað taka mark á þeim.