Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:45:05 (4939)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er lífsskoðun hv. þingmanns sem birtist t.d. í því þegar hann var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar. Kom lífsskoðun þingmannsins fram í þeim tölum sem þar birtust og hvernig að því öllu var staðið?

Menn verða að skilja á milli annars vegar tillagna sem lagðar eru fram, vinnubragða á fundum og síðan þess sem þeir kalla lífsskoðun. Ég hef þá lífsskoðun, ef þingmaðurinn vill ræða mína lífsskoðun, að að sjálfsögðu eigum við að búa í frjálsu, opnu þjóðfélagi þar sem hver borgari getur búið við öryggi. Ég tel að í tillögum mínum, sem ég hef lagt hér fram, stuðli ég að því. Ég sætti mig vel við að þingmenn hafi aðra skoðun á þessu og einhver tæknileg atriði við útfærslu á frumvörpum ráði niðurstöðum þeirra frekar en textinn sjálfur sem kemur inn í þingið. Ég tel að það sé bara liður í eðlilegum þingstörfum og skammast mín ekkert fyrir það. Ég tel ekki að vegið sé að mér á nokkurn hátt þótt það sé rifjað upp.

Málflutningur hv. þingmanns er með þeim hætti að ef menn ætla að stunda hér málefnalegar umræður verða þeir að ræða við einhverja aðra, eins og ég hef gert hér í þessum umræðum.