Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:48:16 (4941)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:48]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn getur fengið svör við öllum þessum spurningum í þingnefndinni, nema einni. Þegar hann heldur því fram að ég hafi flutt ræðu á 50 ára afmæli mannréttindasáttmála Evrópu og talað þar á einhvern þann veg um sáttmálann og störf Mannréttindadómstólsins að einsdæmi væri fer hann enn og aftur með rangt mál. Það er alls ekki svo. Hingað kom t.d. í sumar danskur prófessor og flutti erindi í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hélt fram þessum sömu sjónarmiðum með skýrum og góðum rökum. Á fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna á síðasta ári var fjallað um þetta málefni sérstaklega, lýst yfir áhyggjum af því sem kallað er dómstólavæðingin, lýst yfir áhyggjum af því hvernig alþjóðlegir dómstólar eru að seilast og taka völd af t.d. þjóðþingum — þingmaðurinn hefur væntanlega ekki áhyggjur af því. Þingmaðurinn hefur engar áhyggjur af því hvernig mál þróast hér á þessu þingi. Þar er vakið máls á því að alþjóðadómstólar eru farnir að taka völdin af þjóðþingunum og ákveða fyrir þau hvernig á að framfylgja lögum, hvernig á að túlka lögin, hvernig á að þvinga upp á þjóðir ákvæðum sem aldrei hafa verið samþykkt á þingum eins og dæmin sanna.

Af þessu hefur þingmaðurinn ekki neinar áhyggjur heldur sakar mig um einhverjar skoðanir sem hann telur algjörlega úreltar og fáránlegar, skoðanir sem eru að ryðja sér til rúms og vekja mikla athygli og er nauðsynlegt að ræða.