Samgönguminjar

Fimmtudaginn 02. mars 2006, kl. 18:31:29 (5566)


132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Samgönguminjar.

239. mál
[18:31]
Hlusta

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um vernd samgönguminja. Tillagan er á þskj. 239 og er 239. mál þingsins. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa þriggja manna nefnd til að kanna hvernig tryggja megi betur en nú er skráningu og vernd samgönguminja og undirbúa gerð samgönguminjaáætlunar. Nefndin verði skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Vegagerðinni, öðrum tilnefndum af Fornleifavernd ríkisins og þeim þriðja tilnefndum af ráðherra og verði hann formaður nefndarinnar. Nefndin skili niðurstöðu sinni fyrir 1. október 2006.“

Tillaga þessi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur.

Víða um land er að finna merkar samgönguminjar sem liggja undir skemmdum, svo sem brýr, hlaðna vegi og hafnargarða, símamannvirki, sæluhús símamanna frá öndverðri 20. öld og vörður á gömlum þjóðleiðum, sem eru margar mjög merkar. Þá eru ýmsar slíkar þjóðleiðir að leggjast af og falla í gleymsku svo að brýnt er að hefja skipulega vinnu við skráningu þeirra og kortlagningu. Samgönguminjum er vissulega víða sinnt og þeim safnað, bæði af opinberum aðilum og áhugasömum einstaklingum, en stjórnvöld hafa ekki markað ákveðna stefnu í þessum málaflokki. Ekki er hægt að ætlast til þess að áhugamenn sinni einir þessu mikilvæga varðveislu- og skráningarstarfi enda krefjast mörg verkefni á því sviði umtalsverðra fjármuna ef vel á að vera. Þar að auki hlýtur árangurinn í heild að vera undir því kominn að verkið sé unnið eftir einu samræmdu skipulagi sem byggist á góðri yfirsýn.

Samgöngur og samgöngubætur hafa alla tíð verið geysilega mikilvægar fyrir fólk á Íslandi enda landið dreifbýlt og víða erfitt yfirferðar. Óhætt er að fullyrða að 20. öld, sem var öld vélvæðingar hér á landi, hafi verið tímabil meiri og hraðari breytinga í samgöngumálum en nokkurt annað skeið í sögu Íslands. Á slíkum framfaraskeiðum er eðlilega hvað hættast við því að minjar og minningar um samgönguhætti fyrri tíma lendi í glatkistunni og gildi þeirra verði ekki fyllilega ljóst fyrr en um seinan.

Í ljósi þess hve saga samgangna er snar þáttur í Íslandssögunni er afar mikilvægt að vernd samgönguminja verði efld og skipulega að henni unnið. Þess vegna er hér lagt til að Alþingi feli ráðherra að skipa þriggja manna nefnd er kanni hvernig söfnun og vernd þessara minja verði best tryggð og undirbúi gerð samgönguminjaáætlunar. Þess vegna er hér lagt til að Alþingi feli ráðherra að skipa þriggja manna nefnd er kanni hvernig söfnun og vernd þessara minja verði best tryggð og undirbúi gerð samgönguminjaáætlunar.

Hæstv. forseti. Víða er unnið að eflingu ferðaþjónustu hér á landi, m.a. menningartengdrar ferðaþjónustu, svo og að merkja gönguleiðir og er það hluti af verkefnum sveitarfélaga, ferðafélaga og þeirra sem eru í ferðaþjónustu af ýmsum toga. En það gefur ferðum af þessi tagi aukið gildi ef inn í þær tengjast mannvirki, menningarverðmæti svo sem eins og gamlir vegaslóðar og hleðslur, eða það að fylgja fornum reiðleiðum og fara eftir leiðum sem varðaðar hafa verið vörðum um langa tíð. Þessi mannvirki hverfa smám saman ef þeim er ekki haldið við eða kortlögð. Eins þarf að merkja þessa staði og gefa upplýsingar um þá fyrir ferðamenn og þá sem fara um svæðið svo viðkomandi mannvirki hafi meira gildi og sé aðgengilegt. Því þarf að fara í ákveðna kortagerð. Upplýsingar liggja víða, hjá Vegagerðinni, sveitarfélögunum, Minjavernd og fleiri stöðum, en það er enginn einn aðili sem heldur utan um upplýsingar af þessu tagi. Hjá Vegagerðinni hefur verið starfrækt um nokkurra ára skeið deild sem kallast Vegminjasafn og er menningar- og fræðslustofnun. Markmið þessarar stofnunar er að standa vörð um minjar sem tilheyra fyrri tíðar vegagerð á Íslandi og varpað geta ljósi á þennan þátt í menningar- og samgöngusögu þjóðarinnar. Þetta minjasafn hefur aðallega snúið sér að tækjum og tólum sem hafa tilheyrt verkmenningu fyrri vegagerðarmanna en í minna mæli haft tök á að vernda eða fara í endurgerð t.d. gamalla brúa og merkilegra mannvirkja sem eru úti í náttúrunni.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri eða ítarlegri. Hægt væri að nefna marga staði sem áhugavert væri að líta á og kortleggja og fara síðan í endurhleðslu á vegarstæðum og endurgerð á gömlum brúm eins og ég nefndi áðan. Mér finnst mikilvægt að þingsályktunartillagan verði lögð fyrir hv. samgöngunefnd að lokinni þessari umræðu og geti farið út til umsagnar og afgreiðslu á þessu vorþingi.