Greiðslur til foreldra langveikra barna

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 13:40:28 (5677)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[13:40]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vissulega framfaraspor að festa á lögbókina greiðslu til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og því ber að fagna en foreldrar langveikra og mikið fatlaðra barna hafa beðið árum saman eftir slíkri löggjöf. Veigamiklir gallar eru þó á frumvarpinu, m.a. að greiðslur eru skammarlega lágar, gildissvið takmarkað og foreldrum sem búa við sambærilegar aðstæður mjög mismunað þannig að jaðrar við brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þrepainnleiðing á greiðslunum, sem ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en árið 2008, leiða m.a. til þess að á þessu og næsta ári fá foreldrar greiðslur í miklu skemmri tíma en foreldrar barna sem greinast á árinu 2008. Sem dæmi um þá mismunun sem þetta felur í sér getur foreldri alvarlega fatlaðs barns sem greinist í desember á þessu ári fengið greiðslur þremur mánuðum skemur en foreldrar barns sem greinist örfáum dögum seinna eða í byrjun árs 2007. Breytingartillögur sem við í Samfylkingunni flytjum, og fulltrúi Vinstri grænna í félagsmálanefnd, Ögmundur Jónasson, styður, miða að því að leiðrétta þetta ranglæti, láta frumvarpið í heild taka gildi strax, opna fyrir heimild í undantekningartilvikum, bæði að framlengja greiðslutímann og að greiðslur geti einnig komið til hjá börnum sem greinst hafa fyrir gildistöku laganna ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og að foreldrar verði að láta af störfum á vinnumarkaði. Einnig leggjum við til að greiðslufyrirkomulag verði það sama og í fæðingarorlofslögunum, þ.e. 80% af launum. Hjá Umhyggju, Félagi langveikra barna kom fram að ekki er munur á því að annast nýfætt barn eða alvarlega veikt barn auk þess sem í báðum tilvikum er um það að ræða að foreldrar verða að hverfa af vinnumarkaði — því er um vinnumarkaðstengdar greiðslur að ræða annars vegar í fæðingarorlofi og hins vegar vegna alvarlegra veikinda barna.

Jafnframt flytjum við breytingartillögu um að framkvæmd laganna verði í höndum Tryggingastofnunar ríkisins en ekki Vinnumálastofnunar vegna þess að um mjög viðkvæmar upplýsingar er að ræða sem Tryggingastofnun hefur þegar umsjón með vegna umönnunargreiðslna og algerlega tilefnislaust að svo viðkvæmar upplýsingar séu einnig í höndum Vinnumálastofnunar. Loks lúta breytingartillögur okkar að því að lífeyrisgreiðslur foreldranna skerðist ekki á greiðslutímabilinu, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, og að tryggt sé að atvinnulausir og þeir sem eru á endurhæfingarlífeyri fái einnig þessar greiðslur, en ekki er kveðið á um það í frumvarpinu sjálfu.