Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 15:00:35 (6939)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[15:00]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður sé að tefja þingstörf þó hann tali í nokkrar mínútur, það er langt frá því. En ég taldi að ég hefði svarað þessu nægilega nákvæmlega til að það dygði við 1. umr. En það á eftir að fjalla um frumvarpið í nefndinni og þar er hægt að fara nákvæmar ofan í hlutina.

Eins og ég sagði áðan vinnum við svona mál í samstarfi við markaðinn og við erum auðvitað ekki að reyna að tefja málið. Það er langt frá því. Við erum að reyna að vinna þetta eins hratt og mögulegt er en það er ýmsu að sinna í viðskiptaráðuneytinu og það skiptir líka máli. Við höfum þarna ákveðinn frest og í því tilfelli sem hv. þingmaður er að tala um, í sambandi við það að Kauphöllin hafi ekki lengur opinbert vald heldur færist það til Fjármálaeftirlitsins, þá er það frestur sem er til 2009. Ég er ekki að tala um að það þurfi að nýta allan þann frest. Engu að síður er eitthvað í það að hægt sé að færa þetta að fullu yfir. Þetta er þessi svokallaða lýsingartilskipun.

Síðan er það frumvarpið sjálft og endurskoðun þess, um hvað hún snýst, sem er þá í tengslum við verðbréfamarkaðstilskipunina. Ég nefndi áðan að það er ýmislegt, það er um verðbréfamarkaðinn og tekur m.a. til starfshátta fjármálafyrirtækja.

Ég vil ítreka að ég hef ekkert annað í huga en að þetta sé unnið eins hratt og mögulegt er. Ég get því miður ekki svarað því nákvæmlega hvenær þessu er lokið að fullu en vinnan er í gangi, svo mikið er víst.