Ríkisútvarpið hf.

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 22:36:53 (7732)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:36]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið athyglisverð og skemmtileg umræða hérna í dag eins og hún var fyrir páska þegar hún hófst hér, 2. umr. um þetta ágæta mál, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Hér hefur verið komið inn á fjöldamarga þætti sem tengjast frumvarpinu með beinum hætti og haldnar yfirgripsmiklar ræður, langar og stuttar, en allar nokkuð góðar. Ég ætla að leggja sérstaklega út af því sem liggur allri þessari málafylgju til grundvallar sem er: Af hverju ríkisrekstur á fjölmiðli, af hverju ríkisrekstur á útvarpi og sjónvarpi frekar en ríkisrekstur á dagblaði? Eins og til að mynda sölumenn Ríkisútvarpsins í Sjálfstæðisflokknum taka sérstaklega til í greinargerð með öðru máli sínu sem fjallar um sölu Ríkisútvarpsins þar sem þeir líkja því og leggja að jöfnu fáránleika þess að ríkið reki útvarp og sjónvarp eins og ríkið reki dagblað. En áður en ég byrja á ræðu minni sem fer hér um víðan völl, fyrst um sinn aftur til ársins 1926, þá fram til ársins 1930, örlítið til ársins 1916 þegar sá merki vísindamaður Lee dee Forest gerði fyrstu tilraun til útvarpssendinga í Bandaríkjunum í tengslum við forsetakosningar það ár í Bandaríkjunum og var Íslendingum til mikilla hvata sem þar voru staddir ytra til að hefja útvarpsrekstur hér heima, sem hófst fyrst árið 1925 þegar H.f. Útvarp tók til starfa með sérleyfi frá Alþingi til útvarpsreksturs. Sú útvarpsstöð tók formlega til starfa árið 1926, einkarekin útvarpsstöð með sérleyfi frá Alþingi og sendi út með gloppum og hléum út árið 1928 og var þá komið í mikið þrot.

Jónas Jónsson frá Hriflu hafði þau orð um þá útvarpsstöð, það var deilt um útvarp þá eins og nú, og Jónas sagði svo eftirminnilega, með leyfi forseta:

„Sá útvarpsrekstur var átak hinnar menningarlausu um mál sem þeir réðu ekki við.“

Hann hafði þau eftirmæli um útvarpsreksturs H.f. útvarps árið 1928, og bætti svo við að það hefði verið gróðavegur fyrir fjárbrallsmenn, eins og Jónas orðaði það.

Áður en ég hef mál mitt formlega ætla ég að spyrja hæstv. forseta hvort hægt væri að óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra yrði viðstaddur umræðuna og fulltrúi Framsóknarflokksins, helst formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins, þeir mætu menn. Þáttur Framsóknarflokksins í þessu ríkisútvarpsmáli er rannsóknarefni út af fyrir sig og sjálfstætt mál í sjálfu sér og þess vegna ætla ég að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort það væri einhver vegur að óska eftir því kurteislega að formaður eða varaformaður eða þá starfandi þingflokksformaður yrði viðstaddur ræðu mína sem fjallar m.a. mjög mikið um Framsóknarflokkinn. Helst hæstv. menntamálaráðherra líka.

(Forseti (BÁ): Forseti getur gert hæstv. menntamálaráðherra viðvart um að hv. þingmaður óski eftir því að hann verði kallaður til. Hins vegar held ég að það væri sérkennilegt ef orðið yrði við þeim tilmælum hv. þingmanns að kalla til ráðherra eða þingmenn sem ekki tengjast meðferð málsins sérstaklega.)

Jú, virðulegi forseti, framsóknarforingjarnir tengjast málinu sérstaklega að mínu mati. Þetta er stjórnarfrumvarp og það er í rauninni þáttur Framsóknarflokksins í þessu máli sem er hvað merkilegastur og dapurlegastur kannski og verður til þess að málið kemur fram eftir þá útreið sem Ríkisútvarpið sf. fékk hér fyrir nokkrum mánuðum þegar Framsóknarflokkurinn fullyrti að það mundi aldrei yfir hann ganga að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Það væri algjört grundvallaratriði að félagið yrði sameignarfélag en ekki hlutafélag.

Núna, eftir að undansláttur Framsóknar við Sjálfstæðisflokkinn hefur leitt til þess að hann er rúinn öllum sínum meginmálum og pólitískum prinsippum hlýtur það að vera eðlileg krafa að einhver af forustumönnum Framsóknarflokksins sé við þessa umræðu um þetta grundvallarmál. Þess vegna óska ég eftir því við virðulegan forseta að þeim boðum verði prúðmannlega komið til einhvers af forustumönnum flokksins hvort þeir sjái sér fært að vera hérna við umræðuna, hvort einhver þeirra gæti verið þátttakandi í henni með beinum hætti hérna í salnum, þar sem þingmönnum ber jú skylda til að vera við þingumræður ef þeir eiga þess einhvern kost, þannig að ég óska formlega eftir því að þessum óskum mínum verið komið til bæði formanns Framsóknarflokksins og hæstv. menntamálaráðherra, að þeir verði við þessa umræðu og ræðu mína hér í kvöld, sem eins og ég segi tengist mjög Framsóknarflokknum.

Áður en ég fer nokkrum orðum um einstaka þætti þessa frumvarps sem er ekki bara gallað heldur má kalla það ákaflega klasturslega og hráa smíð og varla boðlegt til 2. umr. í Alþingi. Svo gallað kom málið inn og svo gallað er málið hér af hálfu menntamálaráðherra, að afstaða Framsóknar í þessu máli hlýtur að verða okkur að miklu umræðu- og rannsóknarefni þegar við förum yfir þetta mál. Fyrir nokkrum mánuðum töluðu forustumenn Framsóknarflokksins sig hása úr ræðustól þingsins og víðar um að ekki kæmi til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Það væri algjör frágangssök af þeirra hálfu. Það mátti skilja nokkra forustumenn Framsóknarflokksins þannig að það mundi hreinlega þýða stjórnarslit ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að keyra það í gegn að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi enda væri það, mátti skilja á þeim, stórt skref í þá átt að Ríkisútvarpið yrði selt. Þar stæði hins vegar Framsóknarflokkurinn í lappirnar, það væri ekki til sölu, enginn undansláttur gefinn, enginn afsláttur gefinn og hvergi yrði hvikað frá sannfæringu Framsóknarflokksins, og var margítrekað frá landsfundum flokksins, að ekkert yrði gefið eftir í ríkisútvarpsmálinu, það yrði ekki hlutafélag. Þetta var eitt af þeim örfáu prinsippum sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að standa við þegar flest væri fokið af flokknum og hann orðinn ansi dapurlegur ásýndar eftir nánast takmarkalausa undirlægju við Sjálfstæðisflokkinn árum saman.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn eiginlega án nokkurra útskýringa eða sérstaks aðdraganda hvikað frá þessu máli. Það hafa engin pólitísk skilaboð komið frá flokknum um af hverju þessi viðsnúningur varð á stefnu flokksins, af hverju það var algjört grundvallaratriði fyrir nokkrum mánuðum síðan að Ríkisútvarpið yrði sameignarfélag en ekki hlutafélag, af hverju það er í lagi núna. Flokkurinn hefur kúvent í þessu prinsippmáli og hefur komið með mjög óljós skilaboð síðan. Þess vegna lýsi ég eftir framsóknarmönnum hérna úr ræðustóli Alþingis, þeir hafa verið jafn sjaldséðir hérna við umræðuna um Ríkisútvarpið eins og kannski framsóknarmenn eru í dag á meðal kjósenda.

Þeir verða að gefa okkur skýringar á því af hverju undanslátturinn frá meginmálum og prinsippum Framsóknarflokksins átti sér stað í máli Ríkisútvarpsins. Máli sem markar að mínu mati skref í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram við völd með einhverja undirlægju og hækju undir arminum eins og Framsóknarflokkurinn hefur gengið fram í síðustu málum. En það þýðir ekki að kenna hækjunni um heltina í þessu máli frekar en öðrum, það er eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og Framsóknarflokkurinn lætur sig hafa það og eltir Sjálfstæðisflokkinn í þeirri ferð.

Hvað varðar efnisatriði málsins og það sem mér finnst standa sérstaklega út af borðinu þar, ég mun koma inn á það í ræðu minni á eftir, lýtur að fjármögnun útvarpsins, svo sem með nefskatti, að setja það á fjárlög eða á áframhaldandi notkun afnotagjalda. Ítök stjórnarflokkanna í útvarpinu eru að mínu mati ekki losuð með þessu, því fer fjarri. Í raun og veru er verið að búa svo um hnútana að ef stjórnarfarið í landinu er eins og núna sé hægt að gera útvarpsstjóra að einhvers konar pólitískum seppa Sjálfstæðisflokksins, þó svo að það sé ekki þannig núna, en að það verði þannig búið um hnútana til framtíðar.

Það sem er verst við þetta mál er að með því er verið að rjúfa 76 ára gamla sátt um Ríkisútvarpið. Það hefur yfirleitt ríkt nokkuð pólitísk sátt um rekstur útvarpsins, að útvarpið skuli ríkisrekið. (Gripið fram í.) Upp á sáttina hefur kannski einna helst vantað á síðari árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn byrjaði að berjast fyrir því að útvarpið yrði einkavætt.

Þegar litið er til baka og í bókina Útvarp Reykjavík – Saga Ríkisútvarpsins 1930–1960, eftir Gunnar Stefánsson, segir svo á einum stað um tilurð útvarpsins, með leyfi forseta:

„Andstæðingar framsóknarmanna og alþýðuflokksmanna skipulögðu nú liðsafla sinn. Íhaldsflokkurinn var stofnaður 1924 og Sjálfstæðisflokkurinn varð til 1929 með samruna Íhalds- og Frjálslynda flokksins. Höfuðmálgagn þessara samtaka var Morgunblaðið en Vísir studdi þau einnig. Geysihörð og illvíg pólitísk átök settu mestan svip á blöðin. Það var hart barist um sálirnar á þessum árum en þegar útvarp kom til sögunnar var sú stefna strax mörkuð, og um hana fullt samkomulag, að það skyldi standa utan við stjórnmáladeilur. Í reynd þýddi það að útvarpið mátti heita utan átaka um þjóðfélagsmál. Útvarpið var einn þáttur ríkisvaldsins en hinar stríðandi stjórnmálafylkingar komu sér saman um að halda því í því skjóli.“

Þessi sátt hefur að miklu leyti ríkt um að hið opinbera skuli halda úti ríkisútvarpi þangað til það sáttarof gerðist með þessu máli sem við ræðum hér í dag.

Annað sem ég ætlaði að ræða sérstaklega og lýtur að efni og inntaki málsins er að hér skuli ekki tekið á umfangi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það er feikilega mikið í dag og á þessum örlitla markaði hljótum við að þurfa að gæta sanngirni gagnvart hinum fjölmiðlunum, gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum, blaðamiðlunum og netmiðlunum ef því er að skipta. Að mínu mati á að takmarka töluvert mikið umfang Ríkisútvarpsins á auglýsinga- og kostunarmarkaði einfaldlega til að tryggja einkareknu ljósvakamiðlunum rými á markaðnum. Við búum í svo litlu landi, hér er örmarkaður þar sem fjölmiðlarnir slást um mjög afmarkaðar upphæðir til rekstursins og þar er forskot Ríkisútvarpsins náttúrlega töluvert. Hér er í rauninni verið að leggja lokahönd á það að sáralítill munur verði á hinu svokallaða almannaútvarpi, Ríkisútvarpinu, og hinum hefðbundnu markaðsstöðvum að flestu leyti nema Ríkisútvarpið hefur heilmikið forskot í formi nefskatts, ef hann gengur eftir, og afnotagjalda í dag án þess að umfang þess á auglýsingamarkaði sé takmarkað svo nokkru nemi. 365 miðlar gera ítarlegar athugasemdir við þetta í umsögn sinni um málið sem ég mun vísa til á eftir.

Það voru mikil vonbrigði þegar málið um Ríkisútvarpið sf. hraktist til baka fyrir nokkrum mánuðum af því að ég taldi að þá kæmi þetta mál fram í nýrri mynd og endurskoðað þar sem tekið væri á þessu, af því að það væri undirliggjandi sátt um að takmarka umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði um leið og hlutverk þess væri skilgreint upp á nýtt, að almannaútvarpinu væri mörkuð sérstaða og það skilgreint í byrjun nýrrar aldar. Þegar verið væri að setja ný lög um Ríkisútvarpið skipti mestu máli að marka Ríkisútvarpinu nýtt hlutverk, skilgreint hlutverk sem væri annað en hinna hefðbundnu markaðsmiðla, jafnágætir og prýðilegir og þeir eru, þeir reka öflugar fréttaþjónustur og miðla ágætu efni, mikið til erlendu, en á þeim og Ríkisútvarpinu er sáralítill munur.

Hitt sem ég hefði viljað sjá í frumvarpi um ríkisútvarp er einhvers konar skilyrði um hlutdeild innlends dagskrárefnis í dagskrá stöðvanna. Ég efast ekkert um að það er vilji þeirra sem fara fyrir Ríkisútvarpinu að auka hlutdeild innlends efnis. Það er metnaður til þess hjá mörgum sem á stöðinni starfa. En að mínu mati á löggjafinn að marka það þannig að það verði skilyrt hver hlutdeild innlends efnis sé í dagskrá Ríkisútvarpsins. Þá tel ég að nefskattsleiðin sé að mjög mörgu leyti óheppileg leið til að fjármagna útvarpið. Það væri miklu farsælla að setja Ríkisútvarpið á fjárlög, gera slíkan samning til nokkurra ára í senn, fimm ára fjárlagasamning, í stað þess að taka upp nefskattinn.

Ég held að afnotagjöldin hefðu verið miklu skárri kostur áfram og til framtíðar en að fara út í nefskatt sem er erfitt að jafna gagnvart fólki eftir tekjum og aðstöðu þess. Ég held að það sé ósanngjörn leið. Það væri miklu farsælla að setja Ríkisútvarpið á fjárlög þó að það sé kannski alls ekki aðalmálið í þessu efni. Það er að sjálfsögðu rekstrarformið. En fyrir því hef ég ekki heyrt nein rök sem sannfæra mig um að breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag og að það eigi t.d. ekki að vera sjálfseignarstofnun eða ríkisstofnun áfram, því enda þótt hlutafélagaformið henti vel hvers konar hagnaðarrekstri og hagnaðarsjónarmiðum á það ekki við um samfélagslegan rekstur af neinu tagi.

Ég var nokkuð sannfærður um að það kæmi fram í þessari endurskoðun og nýju frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið að takmarka hlutdeild og umfang útvarpsins á auglýsingamarkaði, sem ég held að sé í kringum 30% í dag, örugglega milli 50 og 60% á sviði ljósvakamiðlunar, mjög umfangsmikið. Auðvelt er að færa ýmis rök fyrir því að Ríkisútvarpið þurfi og eigi að vera á auglýsingamarkaði hvað varðar aðgengi þeirra sem vilja auglýsa til almennings. Í auglýsingum koma að sjálfsögðu fram margs konar upplýsingar sem eiga erindi við fólk, það er ekki málið, en út af smæð markaðarins tel ég sanngirnismál gagnvart einkareknu miðlunum að það sé takmarkað mjög. Við eigum að skoða það á einhverju árabili að færa hlutdeildina niður í kannski 15–25% í einhverjum skrefum um leið og hlutverk útvarpsins verði skilgreint algerlega upp á nýtt. Og meginmálið sem þetta frumvarp snýst fyrst og fremst um, fyrir utan fjármögnun og rekstrarform, er hlutverk útvarpsins til framtíðar. Endurskilgreining á almannaútvarpinu og pólitísk tilraun til að endurskilgreina hlutverk og markmið útvarpsins þannig að það standi undir nafni sem almannaútvarp, sem geri annað og meira en að dreifa og miðla til okkar aðkeyptu afþreyingarefni og skemmtiþáttum í miklum mæli og meira og minna sömu sjónvarpsdagskrá og er að finna á hinum íslensku stöðvunum og þeim erlendu stöðvum sem stórum hluta almennings gefst færi á að kaupa aðgang að.

Ríkisútvarpið hefur að miklu leyti þróast yfir í það á síðustu árum og áratugum að senda út mikið af misgóðu erlendu sjónvarpsefni, vissulega margt ágætt, sem margir sækja í en það getur ekki verið hlutverk ríkisrekins fjölmiðils að senda út miðlungsgott og í mörgum tilvikum lélegt, erlent afþreyingarefni. Það hlýtur að verða að sinna hlutverki sínu á sviði fréttaþjónustu og samfélagslega tengdri þjónustu og því að miðla og stuðla að framleiðslu á íslensku dagskrárefni, íslenskri dagskrárgerð. Það hefur margoft komið fram í umræðum og hlýtur að vera algjört grundvallarmál.

Þar sem menntamálaráðherra mistekst hvað gróflegast í þessu fljótfærnislega, klasturslega og illa gerða frumvarpi sínu er að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar. Með þeirri skilgreiningu sem er að finna í frumvarpinu núna — þó að liðunum hafi kannski fækkað um rúmlega 10, ég held að þeir hafi verið 32 í frumvarpinu um Ríkisútvarpið sf. í fyrra, um hlutverk almannaútvarpsins Ríkisútvarpsins — er í sjálfu sér verið að þenja Ríkisútvarpið yfir allt. Það getur í rauninni hafist handa við hvers konar miðlun og samkeppnisrekstur á sviði miðlunar ef frumvarpið gengur eftir og eins og hinn valdamikli útvarpsstjóri hefur í raun og veru lyst til að beita sér fyrir.

Þarna bregst hæstv. menntamálaráðherra bogalistin hrapallega, þ.e. að endurskilgreina Ríkisútvarpið upp á nýtt. Þess vegna er frumvarpið það fljótfærnislega og óboðlega klastur sem það er, og hefur vakið þær illvígu pólitísku deilur sem nú eru uppi á Alþingi um Ríkisútvarpið. Það er sáttarof, raunverulegt sáttarof um Ríkisútvarpið í fyrsta sinn í marga áratugi og kannski hefur aldrei fyrr verið deilt á eins flokkspólitískum nótum um framtíð og tilurð Ríkisútvarpsins og núna, fyrir utan kannski hin vanmáttugu áhlaup örfárra þingmanna Sjálfstæðisflokksins að því að selja Ríkisútvarpið. Vissulega eru það hinir sömu menn, þ.e. sölumenn Ríkisútvarpsins úr Sjálfstæðisflokknum, sem eru þeir einu sem taka til máls hér úr stjórnarliðinu við 2. umr. um Ríkisútvarpið og eru á mælendaskrá um þetta mál, að ég held. Það eru þeir félagar, hv. þingmenn Pétur Blöndal, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, sem sýna þó þá pólitísku viðleitni að taka þátt í umræðunni þó að kannski gangi misvel að útskýra fyrir fólki af hverju sölumenn Ríkisútvarpsins mæla núna fyrir því að það verði ekki selt en samt gert að hlutafélagi. Það er ákaflega ótrúverðugt, ákaflega óheppileg staða í þessu pólitíska máli að Sjálfstæðisflokkurinn skuli með annarri hendinni berjast fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt og einkavætt en reyni með hinni að sannfæra almenning um að Ríkisútvarpið eigi að vera áfram í ríkiseigu, það sé einungis verið að hlutafélagavæða það til að auðvelda og straumlínulaga reksturinn, gera það hraðskreiðara í kapphlaupinu um auglýsingapeningana úti á auglýsingamarkaðnum, hraðskreiðara í kapphlaupinu um besta og vinsælasta sjónvarpsfólkið, og það eigi ekki að selja það.

Að sjálfsögðu er Sjálfstæðisflokkurinn að stíga skref í átt að sölu á Ríkisútvarpinu. Ég efast a.m.k. ekki um það. Það er þeirra að sannfæra okkur um að svo sé ekki. Hins vegar veldur undirlægja Framsóknarflokksins mér hryggð í þessu máli, af því að ég trúði því fyrir ári síðan að hann meinti það þegar hann sagði að hann mundi aldrei nokkurn tímann standa að því í ríkisstjórnarsamstarfi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Ég trúði því þegar framsóknarmenn sögðu þetta þá, kannski eins og ég trúði því að Framsóknarflokkurinn ætlaði að standa vörð um Íbúðalánasjóð, en það er önnur umræða.

Þáttur Framsóknarflokksins í málinu er með algerum ólíkindum. Þess vegna óskaði ég eftir því við virðulegan forseta þegar ég hóf mál mitt um hálfellefuleytið, að þeim boðum yrði komið til varaformanns og formanns Framsóknarflokksins og í þriðja lagi þingflokksformanns eða einhvers fulltrúa þessara þriggja, að framsóknarmaður léti sjá sig í þingsalnum, að framsóknarmaður yrði við umræðuna sem rökræddi við mig í kvöld um framtíð og rekstrarform Ríkisútvarpsins og af hverju Framsóknarflokkurinn hefði hvikað frá því grundvallaratriði sínu að Ríkisútvarpið yrði aldrei gert að hlutafélagi. Sameignarstofnunin sem var fyrir nokkrum mánuðum sá átakapóstur sem Framsóknarflokkurinn boðaði að yrði í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn — af hverju seldi Framsóknarflokkurinn Sjálfstæðisflokknum þetta prinsipp líka? Var það gjaldið fyrir forsætisráðherrabýttin um árið, eða hvað? Átti Framsóknarflokkurinn ekkert inni hjá Sjálfstæðisflokknum? Af hverju fór salan fram? Af hverju seldi Framsóknarflokkurinn þetta pólitíska prinsipp, að Ríkisútvarpið yrði ekki gert að hlutafélagi?

Við þessu og svo mörgu öðru í frumvarpinu ætla ég að fá svör. Þau munu koma svona af og til frá fulltrúum frá Sjálfstæðisflokki, enda eru þeir nokkrir hér við umræðuna og hafa verið allan tímann og er ástæða til að fagna því í sjálfu sér að þeir skuli þó sjá ástæðu til þess sem Framsóknarflokkurinn gerir ekki. Ég er ekki sammála því mati hjá virðulegum forseta að Framsóknarflokkurinn sé ekki hlutaðeigandi eða komi þetta mál í sjálfu sér ekki við. Þetta er stjórnarfrumvarp. Framsóknarflokkurinn fer með forsætið í ríkisstjórninni, jafnundarlegt og það er í sjálfu sér, þess vegna er málið að sjálfsögðu á pólitísku forræði hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, rétt eins og hæstv. menntamálaráðherra, sem ég óskaði sérstaklega eftir líka áðan að yrði beðin um að vera við umræðuna hér í þingsal. Ég trúi því að á næstu mínútum birtist bæði hæstv. menntamálaráðherra og ef hæstv. forsætisráðherra er vant við látinn þá hinn spræki og yfirlýsingaglaði varaformaður Framsóknarflokksins sem fór á kostum í miklu Morgunblaðsviðtali fyrir nokkrum dögum og virðist, ef rétt má skilja ýmsa aðra þingmenn flokksins, hafa valdið svo miklum deilum í Framsóknarflokknum að þar sé varla nokkrum manni út sigandi lengur án þess að efna til enn þá meiri illinda og kannski þess vegna láta þeir ekki sjá sig við umræðuna í kvöld þar sem við hljótum fyrst og fremst að ræða um það hlutverk Ríkisútvarpsins af hverju ríkið á að reka fjölmiðil.

Frjálshyggjumennirnir svöruðu því fyrir sitt leyti í frumvarpinu sínu. Þeir sögðu að það ætti ekki að gera það frekar en að reka ríkisdagblað eða ríkistímarit, ríkisrekið Séð og heyrt eða ríkisrekið Morgunblað og töldu það mikið fáránleikaleikhús og mikinn skopleik að hugsa sér að ríkið ræki fjölmiðil. Þeir hinir sömu hafa nú að einhverju leyti snúið við blaðinu af því að þeir segja að ekki standi til að selja útvarpið, það sé ekki markmiðið með frumvarpinu að einkavæða Ríkisútvarpið, heldur einungis að gera reksturinn nútímalegri og hægari fyrir þá sem hann hafa með höndum. Þá hljótum við að gera athugasemdir við það að frumvarpið skuli ekki taka á pólitískum ítökum stjórnmálaflokkanna í Ríkisútvarpinu, pólitísku kverkataki sem birtist sérstaklega í hinu fræga fréttastjóramáli í fyrra.

Við hljótum að spyrja verði Ríkisútvarpið hf. frumvarp að lögum: Gæti fréttastjóramálið átt sér stað eftir það, er von á öðru fréttastjóramáli? Ég held það, ég held að þetta hafi í sjálfu sér ekki tekið fyrir það að stjórnarflokkarnir á hverjum tíma, og sérstaklega þeir sem nú sitja í örvæntingu sinni yfir stöðu mála, reyni að troða inn einhverjum pólitískum fulltrúum sínum til að hafa pólitísk áhrif og pólitíska íhlutun í útvarpið. Í frumvarpinu er ekki tekið á því máli. (Gripið fram í.) Það gæti verið. Ítök stjórnmálaflokka og stjórnarflokkanna eru ekki losuð í málinu, kverkatakið er áfram á Ríkisútvarpinu.

Það er einkum tvennt sem stendur upp úr sem mér þykir dapurlegt. Frumvarpið er misheppnuð málamiðlun stjórnarflokkanna við að setja ný lög um Ríkisútvarpið. Frumvarp er sáttarof á 70 ára gamalli sátt um Ríkisútvarpið og með því misheppnast hæstv. menntamálaráðherra algjörlega og fullkomlega að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Þess verður einnig að geta að það er mjög undarlegt að menntamálaráðherra skuli hafa legið svo á. Kannski vegna skorts á minnismerkjum eftir mjög brokkgeng ár í menntamálaráðuneytinu að koma einhverju stóru máli í gegn, setja þessi lög og boða sérstök fjölmiðlalög um leið. En þessu var hraðað inn í þingið án þess að nokkurn tíma væri útskýrt af hverju þetta færi þá ekki saman. En það er nú vatn undir brúna.

Ég held að frumvarpið um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins sé enn einn naglinn í pólitíska líkkistu Framsóknarflokksins og muni reynast Framsóknarflokknum mjög erfitt þegar fram í sækir að útskýra það fyrir fólki af hverju hann féllst líka á að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið alveg eins og hann féllst líka á að afhenda bönkunum endanlega yfirráðin yfir íbúðalánunum á dögunum. Þegar nýr hæstv. félagsmálaráðherra var spurður af hverju, þá hafði hann ekki hugmynd um það. Ekki var búið að segja honum af hverju Framsóknarflokkurinn er að hvika frá því líka. Af hverju studdi Framsóknarflokkurinn innrásina í Írak á sínum tíma? Og núna þetta, af hverju er Framsóknarflokkurinn með Sjálfstæðisflokknum í þeirri vegferð sem ég held að leiði til þess, ef þeir stjórnarflokkar fá áframhaldandi umboð, að Ríkisútvarpið verði selt. Þó svo að gera þurfi lagabreytingu að sjálfsögðu og flytja um það sérstakt lagafrumvarp þá er það sú pólitíska vegferð sem ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé á, þ.e. að einkavæða og selja Ríkisútvarpið. Það ræður för að mínu mati. Það er sú niðurstaða sem ég dreg af þessu misheppnaða og vonda frumvarpi frá hæstv. menntamálaráðherra þar sem hver mistökin reka önnur í málafylgjunni allri. Þetta er ákaflega raunalegur minnisvarði sem hæstv. menntamálaráðherra er að reisa sér með frumvarpinu þar sem öll fjögur meginatriði málsins sem hér eru nefnd til sögunnar eru misheppnuð.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkissjóðs um rekstur Ríkisútvarpsins … Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda og álagningu sérstaks útvarpsgjalds. Í þriðja lagi eru gerðar breytingar á stjórnun. Í fjórða og síðasta lagi er mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað á fjárreiðum reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu og annars reksturs.“

Frumvarpinu mistekst að mínu mati í öllum veigamestu þáttunum og sérstaklega því sem öllu máli skiptir: Af hverju eigum við að halda úti ríkisútvarpi fyrir fleiri milljarða á ári af skattpeningum almennings? Af hverju á það fyrirbæri heima í hlutafélagi? Við þessu hafa engin svör komið.

Ég ætla aðeins að líta til baka og rifja upp af hverju við erum að reka ríkisútvarp og hvað varð til þess að sú vegferð hófst að hér voru sett lög um ríkisútvarp á sínum tíma því það hlýtur að liggja því algjörlega til grundvallar, sagan kennir okkur það. Af hverju erum við að halda úti ríkisútvarpi? Af hverju á almenningur að borga á þriðja milljarð af skattfé sínu til að halda úti ríkisútvarpi? Það er ekki til að halda úti pólitískum snata fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvers konar ríkisstjórnarútvarpi, enda hafa starfsmenn þar komið í veg fyrir það, þrátt fyrir áhlaup ríkisstjórnarflokkanna á sjálfstæði stofnunarinnar hvað eftir annað, sérstaklega fréttastofunnar að svo verði. Það er fróðlegt, skemmtilegt og gagnlegt að líta til sögunnar um þessi atriði.

Fyrsti reglulegi dagskrárdagur Ríkisútvarpsins var 21. desember 1930 og var sagan fram að þeim degi nokkuð skemmtileg og skrautleg. Þann 18. mars 1926 talaði Magnús Guðmundsson ráðherra fyrstur Íslendinga í útvarp á Íslandi þar sem hann opnaði útvarpið, sem þá hét Hf. útvarp. Það var árið 1925 sem Alþingi samþykkti lög um að Hf. útvarp mætti starfa og veitti því sérstakt sérleyfi til þeirra starfa.

Um það hafði Jónas frá Hriflu þau orð sem ég hafði hérna áðan að með stofnun á Hf. útvarpi væri komið fram, með leyfi forseta: „Átak hinna menningarlausu um mál sem þeir réðu ekki við.“ Það voru eftirmál Jónasar um útvarpið, gróðavegur fyrir fjárbrallsmenn, sagði Jónas frá Hriflu á sínum tíma og var mikill andstæðingur þessarar tilraunar og sérstaklega hafði hann nöpur orð um það síðar meir.

Hf. útvarp sendi út með hléum út árið 1928 og einnig var öðru útvarpi, einkaútvarpi, manni að nafni Cook, veitt starfsleyfi af Alþingi norður á Akureyri, og það tók til starfa 16. maí 1925 en starfaði stutt og gekk illa. Síðan voru lög um einkarétt ríkisins á útvarpi sett árið 1929 og hófst þá í framhaldinu af því undirbúningur að Ríkisútvarpinu eins og við þekkjum það í dag. Þetta er mjög skemmtileg saga sem í raun og veru byrjar með sögu og innreið símans á Íslandi. Til að átta sig á því af hverju hið opinbera á að halda úti fjölmiðli, ríkisútvarpi, er fróðlegt að lesa sér örlítið til um hvað frumkvöðlunum gekk til sem leiddu það á sínum tíma, að einungis tíu árum eftir að í fyrsta sinn var tilraunaútvarpað í Bandaríkjunum, sem var árið 1916, var byrjað að útvarpa á Íslandi, sem er í rauninni merkilega stuttur tími. Og einungis fjórum árum síðar, 21. desember 1930, hóf Ríkisútvarpið rekstur sinn eftir nokkurra ára mjög brottgengan og erfiðan útvarpsrekstur einkaaðila sem einn hv. þingmaður hafði þau orð um eftir að þeim rekstri lauk.

Magnús Torfason sagði þá í umræðu um ríkisrekstur á útvarpi í febrúar 1929, með leyfi forseta:

„Það hefði að sjálfsögðu átt vel við að lýsa raunasögu þessa fyrirtækis frá því að það var stofnað 1925 en hún er svo ömurleg að lítil skemmtun verður af og því sleppi ég því.“

Það gekk sem sagt mjög illa að reka Hf. útvarp og urðu töluverð pólitísk átök um það sem ég kem inn á hér á eftir.

Um útvarpið sagði sá snjalli og skemmtilegi maður Sigurður Nordal í erindi sínu sem nefndist Útvarpið og bækurnar og var sent út fyrsta reglulega dagskrárdag Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Í dag, þegar útvarpsstöð ríkisins tekur til starfa, hefst hin fjórða öld, útvarpsöldin. Að vísu hefur hún átt sér nokkurn aðdraganda. Ritsími og talsími, loftskeyti og hljóðritar, allt raftæki eins og útvarpstækin, hafa búið menn undir hana …

Í hverju þessi nýju tímamót verða fólgin, getur framtíðin ein vitað í öllum atriðum. En sumt má þegar sjá í hendi sér. Einangrunin minnkar í sveitunum, fréttir berast ört og reglulega um allt land, tónlistin verður daglegt brauð fyrir hvern þann sem hefur viðtæki. En hver áhrif hefur þetta á það sem fyrir er? Hljóta t.d. blöðin ekki að breytast stórum? Geta þau verið að flytja út um sveitir fréttir, sem útvarpið hefur þegar flutt fyrir löngu? Nenna menn að lesa tímarit og bækur þegar þeir hafa öll þessi ógrynni af fyrirlestrum og upplestri?

Útvarpið er alls staðar á bernskuskeiði, er enn á miklu færri heimilum en síðar mun verða, og á stórum eftir að breyta starfsháttum sínum. Sú kynslóð sem nú stjórnar útvarpinu og hlustar á það er alin upp við bækur og blöð og heldur ósjálfrátt í hvort tveggja. Í kjölfar hinnar verklegu byltingar sem gerir útvarpsstarfsemina mögulega getur átt eftir að koma andleg bylting, þó að það hljóti að taka lengri tíma.“

Menn bundu því miklar væntingar við útvarpið sem mjög margar hverjar gengu eftir enda hafði það að sjálfsögðu gífurleg áhrif á miðlun menningar, afþreyingar og frétta til landsmanna allra, sérstaklega í ljósi þeirra hörmulegu samgangna sem þá voru um Ísland og aðgengi annarra en þeirra sem bjuggu hér í Reykjavík að afþreyingu, menningu og fræðslu hvers konar. Menningarlegt og öryggislegt gildi útvarpsins var mikilvægt í hugum manna og eins og ég nefndi hér áðan blönduðust inn í pólitískar deilur, enda voru þeir stjórnmálaflokkar sem við þekkjum og þau stjórnmálaöfl sem hafa tekist á síðan verið að taka á sig myndir á þessum tíma og pólitísk átök voru gífurlega hörð. En það var algjör útgangspunktur stjórnmálamannanna á þeim tíma mitt í þeim geysihörðu átökum og miklu harðari pólitísku átökum en við þekkjum í dag, þegar allt virðist stundum renna eftir sama farveginum. Þar tókust menn á í fullri alvöru um ríkisrekstur á atvinnutækjum, einkarekstur o.s.frv.

Þarna var sátt um Ríkisútvarpið og mikið lagt upp úr því að viðhalda þeirri sátt að Ríkisútvarpið ætti að stuðla að jöfnuði, hlutleysi og sanngirni og því að þjappa Íslendingum saman í eina menningarheild og Ríkisútvarpið yrði að nokkurs konar miðju í samfélaginu sem hefði ríku öryggis- og menningarlegu hlutverki að gegna. Að útvarpið mundi gera landið allt að einni menningarheild, var hinn rauði þráður í viðhorfi manna á þessum tíma.

Af fyrstu skrefum í útvarpsrekstri á Íslandi, til að varpa ljósi á tilurð Ríkisútvarpsins og þess mikilvæga hlutverks sem það hefur gegnt allar götur frá 1930, í samfélaginu og á að gegna áfram að mínu mati, sem annaðhvort stofnun í eigu ríkisins eða sjálfseignarstofnun. En alls ekki sem hlutafélag, því það er engin leið að fá neina fullvissu fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sæti ekki lagi og stígi næsta skref fljótlega með þrautpíndan og útbrunninn Framsóknarflokkinn í eftirdragi og einkavæði Ríkisútvarpið og þvingi því í gegnum þingmeirihluta sinn hér á Alþingi og þeirrar ömurlegu stöðu sem hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson er í, þar sem hann virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að allt sé falt fyrir forsætisráðuneytið. Hann láti í raun og veru hvað sem er yfir sig ganga.

Ég nefndi hérna áðan stuðning framsóknarmanna við innrásina í Írak sem besta dæmið um hve hvikulir þeir eru og að allt sé falt fyrir völdin, allt fyrir íhaldið, segja þeir núna. Tryggvi Þórhallsson, sem var forsætisráðherra þegar lögin um Ríkisútvarpið voru sett, sagði eins og frægt var: Allt er betra en íhaldið. Sá mæti maður sat hér að völdum og er nú kannski átakanlegast af öllu að rifja upp þann stórhug sem var að baki lagasetningarinnar um Ríkisútvarpið ekki síst af hálfu framsóknarmanna sem fóru með landstjórnina og þá þeirra dapurlegu sporgöngumanna sem fara með völdin í dag. Rúnir öllum pólitískum prinsippum, búnir að selja þetta allt saman frá sér.

Einn af þeim sem stóð að stofnun Hf. útvarps á þeim tíma var Ottó B. Arnar símfræðingur. Hann fékk Jakob Möller alþingismann til að flytja frumvarp á Alþingi 1924, átta árum eftir að tilraunaútsendingarnar hófust í Bandaríkjunum. Í bókinni sem ég vitnaði í áðan, um sögu útvarpsins, segir að hann hafi fengið sérleyfi til handa sér til að reka víðboð. Víðboð á Íslandi. Frumvarpið var ekki rætt, segir hér, með leyfi forseta, en vísað til allsherjarnefndar. Á næsta þingi 1925 var það lagt fram aftur af sama þingmanni. Til fróðleiks og skemmtunar hefst frumvarpið svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórninni veitist heimild til að veita hlutafélagi sem Ottó B. Arnar, símfræðingur, Kristján Bergsson, forseti Fiskifélagsins, Lárus Jóhannesson, hæstaréttarmálaflutningsmaður, Sigurður Sigurðsson, forseti Búnaðarfélagsins og Þorkell Þorkelsson, forstjóri Veðurstofunnar, ætla að stofna sérleyfi til að reka útvarp næstu næsta 10 ára skeið, frá því að stöðin tekur til starfa gegn þeim skilyrðum og með þeim hlunnindum er nú skal greina.“

Í 4. lið frumvarpsins segir að ríkið eigi kauprétt að stöðinni eftir 10 ár fyrir virðingarverð hennar. Þetta var hugsun löggjafans á þeim tíma. Í bókinni segir síðan, með leyfi forseta:

„Þetta frumvarp var allmikið rætt á Alþingi og voru þingmenn yfirleitt þess fýsandi að hefja útvarpsstarfsemi í landinu. Þó virtust þeir telja að með leyfi til einkarekstrar væri aðeins tjaldað til einnar nætur, ríkið hlyti brátt að koma til. Litu menn þá einkum til Landssímans sem þess aðila er tæki að sér rekstur útvarps. Sú stofnun treysti sér ekki til þess þá og vildu menn því fallast á að hið væntanlega hlutafélag fengi rekstrarleyfi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Ásgeir Ásgeirsson, Framsóknarflokki, var einn helsti formælandi málsins. Hann vildi að skýrt kæmi fram að félagið mætti ekki vera gróðafélag heldur félag áhugamanna sem vinna vilja fyrir þjóðina. Hann hreyfði því að stofnað yrði almenningshlutafélag í líkingu við Eimskipafélag Íslands og mætti ríkið leggja til þess nokkurt fé. Um menningarhlutverk útvarps sagði Ásgeir: „Það snertir skóla, kirkjur, Alþingi, leikhús o.s.frv. og því næst sjávarútveginn og aðra atvinnuvegi.““

Menningargildi útvarpsins var mönnum ákaflega hugleikið á þessum tíma og það liggur í því að ríkið setur lögin um Ríkisútvarp nokkrum árum seinna, almannaútvarp. Enda var tekist mikið á um það í þinginu hvert ætti að vísa málinu. Í bókinni góðu segir einnig, með leyfi forseta:

„Annars var þingmönnum ekki síður í huga gildi útvarps sem öryggistækis fyrir sjómenn enda kom til orða að vísa málinu til sjávarútvegsnefndar, þótt allsherjarnefnd yrði fyrir valinu. Þetta má þykja undarlegt en á sér þá skýringu að nýlega höfðu orðið mannskæð sjóslys.“

Þar hefði útvarpið skipt miklu um miðlun upplýsinga.

Eftir nokkrar umræður og deilur á Alþingi og breytingar á frumvarpinu var það samþykkt og afgreitt sem lög frá Alþingi á því ári, 1925. Þar var mikið tekist á um, eins og nú, hvernig Ríkisútvarpið ætti að fjármagna sig og í meðförum þingsins hafði sá kostur til fjáröflunar verið valinn að sérleyfi fengist til að flytja inn og selja viðtæki. Síðar var horfið frá því og það leyfi var ekki veitt heldur ákveðið að hver notandi skyldi greiða stofngjald og síðan árgjald. Það að Hf. útvarp fengi ekki leyfi til að flytja inn og selja viðtæki varð til að útvarpið gekk aldrei sem skyldi og Ottó B. Arnar og samstarfsmenn hans töldu þetta vera úrslitaatriði en honum sagðist svo frá löngu síðan, með leyfi forseta:

„Útvarpsleyfið fékkst en ekki einkasöluleyfið og þótti þá mörgum sem þessi tilraun væri fyrir fram dauðadæmd, enda kom það á daginn. Afnotagjaldið varð að vera mun hærra en upphaflega var áætlað þar sem það var eini tekjustofn útvarpsins og jafnframt hindraði það efnaminna fólk í að fá sér útvarpstæki. Árgjaldið var ákveðið 50 krónur og þar með hófst útvarpið.“

Þar með hófst sem sagt útvarpsrekstur á Íslandi, einkarekið útvarp, Hf. útvarp sem þessir frumkvöðlar hrintu úr vör og ráku með höppum og glöppum næstu missiri og gekk mjög illa. Um þriggja til fjögurra ára skeið, á 3. áratug 20. aldarinnar, má því segja að útvarpsrekstur á Íslandi hafi verið í þessu formi og aðdragandi þess að Ríkisútvarpið var stofnað og sú að mörgu leyti glæsilega 76 ára saga hófst sem við þekkjum í dag og ræðum nú á nokkurri ögurstundu um framtíð útvarpsins, rekstrarform, hlutverk o.s.frv.

En áður en ég hverf alveg frá þessum frumkvöðlum útvarpsrekstrar á Íslandi vildi ég vitna aðeins í grein sem nefndur Ottó B. Arnar skrifaði í Morgunblaðið sumarið 1925 og dregur skýrt og skilmerkilega fram hvað þessum stórhuga mönnum gekk til með því að stofna Hf. útvarp. Þar segir Ottó í greininni Útvarp, í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Útvarp er nefnd sú hagnýting þráðlauss firðtals að dreifa út eða boða mönnum í ræðu alls konar fréttir, fróðleik og annað sem gagnlegt er og skemmtilegt. Enn fremur er með sama útbúnaði hægt að senda út söng og hljóðfæraslátt og hvers konar hljóð sem er. Senditæki þau sem eru notuð í þessum tilgangi framleiða sveiflur í ljósvakanum en áður en þau láta þær frá sér fara …“

Hann útskýrir síðan fyrir Íslendingum hvernig tæknin gerir þetta undur kleift. Síðan fer hann ýmsum orðum um mikilvægi þess að reka hérna almannaútvarp sem miðlar, fræðir og skemmtir.

Þar með hófst útvarpsrekstur á Íslandi og er rakið í þessari ágætu bók, Útvarp Reykjavík, eftir Gunnar Stefánsson, með nokkuð litríkum og skemmtilegum hætti þótt sitt sýnist sjálfsagt hverjum um túlkanir hans á atburðum og pólitík í þessu máli. En til gamans, fyrst ég er að tala um þessa sögu má geta þess að þetta útvarp opnaði Magnús Guðmundsson, ráðherra í íhaldsstjórn Jóns Þorlákssonar, sem var kosinn frá völdum hér ekki löngu síðar og við tók stjórn Framsóknarflokksins þar sem Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra.

En Magnús ráðherra opnaði útvarpið á Íslandi 18. mars 1926. Það var í fyrsta sinn sem Íslendingur talaði í útvarp hér á Íslandi. Hann ræddi sérstaklega um gildi útvarps í strjálbýlu landi, og segir Magnús, … (MÁ: Skömmu eftir vatnalögin.) já, skömmu eftir að vatnalögin frægu voru sett hér á Alþingi. (MÁ: Var það Jón Þorláksson?) Það var Jón Þorláksson. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa hv. 7. þm. Suðurkjördæmis tækifæri til að flytja ræðu sína.)

Þetta voru fyrstu orðin sem hljómuðu í íslensku útvarpi, með leyfi forseta:

„Yfir höfuð að tala er ég þess fullviss að útvarpið á hingað mikið erindi og mér virðist eðlilegt að við þessa miklu og merku uppgötvun mannsins séu ýmsar vonir tengdar. Ég hef reynt að kynna mér þetta mál talsvert og afla mér skýrslna um reynslu erlendis. Og ég þykist hafa komist að raun um að þar er þessi uppgötvun í miklum hávegum höfð og fjöldi hugvitsmanna vinnur árlega að endurbótum á henni. …

Ein afleiðing fámennisins hér er sú að hver notandi útvarpsins verður að greiða hærra gjald fyrir notkunina en erlendis. Allir munu vel skilja hvers vegna svo hlýtur að vera því að engum dylst það að hér á landi er fyrst um sinn ekki unnt að vænta fleiri notenda en eins til tveggja þúsunda en í milljónalöndum skipta notendur tugum og hundruðum þúsunda. Það verður því hlutfallslega miklu erfiðara og dýrara fyrir oss en aðrar þjóðir að halda þessu fyrirtæki uppi, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir gróða af því.“

Þetta á nú bara nokkuð ágætlega, virðulegi forseti, við stöðuna hér í dag þegar við ræðum um afnotagjöld, nefskatt o.s.frv. Og þeir sem hafa talað fyrir áframhaldandi afnotagjöldum eins og einn fulltrúa starfsmanna Ríkisútvarpsins sem kom á fund menntamálanefndar nefndi, G. Pétur Matthíasson, þá er mikil sátt um afnotagjaldaleiðina í mörgum löndum eins og t.d. í Bretlandi. En þá hlýtur það að þurfa að skoðast að þar eru gjöldin svo lág vegna fjölmennisins. Hér þurfa þau að vera það há og þess vegna hefur reynst erfitt að viðhalda þeirri sátt sem ætti að ríkja um útvarpið meðal þeirra sem það eiga og það nota.

Áfram segir Magnús Guðmundsson ráðherra, með leyfi forseta:

„Áður en ég lýk máli mínu vil ég leyfa mér að þakka forgöngumönnum þessa fyrirtækis þá fyrirhöfn, það starf og þau fjárframlög sem þeir hafa lagt á sig, því að ég er þess fullviss að það hafa þeir frekar gert af áhuga fyrir málinu en af gróðavon.

Að svo mæltu lýsi ég því yfir að útvarpsstöðin er frá og með þessum degi opnuð til afnota og óska að hún verði stofnendum til gleði og notendum til gagns og ánægju.“

Þannig lauk ávarpi Magnúsar, því fyrsta sem flutt var í útvarpi á Íslandi, árið 1926 mörgum árum áður en Bylgjan hóf starfsemi sína 1985, þegar einkaleyfi ríkisins á útvarpsrekstri hafði loksins verið aflétt.

Það er fróðlegt að lesa um viðhorf og tilgang þessara stjórnmálamanna á þessum tíma og þeirra einstaklinga sem stóðu að stofnun útvarps þegar við erum að gera okkur grein fyrir því hve mikilvægt er að halda úti útvarpi.

En einkaútvarpið strandaði. Sumarið 1926, eftir nokkurra mánaða rekstur segir Guðmundur Jónmundsson í grein í Verði að hér hafi nokkrir framtakssamir menn komið á fót útvarpsstöð að vonandi sé að hún starfi sem mest og best. Í bókinni Sögu útvarpsins segir síðan, með leyfi forseta:

„… tefji það enn fyrir því að stöðin geti fullnægt þeim kröfum sem æskilegt væri að mega gera til hennar, að enn hafi landsmenn ekki almennt fengið sér móttökutæki. Vonandi verði þess ekki langt að bíða. En einkaútvarpið gekk ekki sökum þess að einkasöluleyfi hafði ekki hlotnast því. Þjónustan var einnig af þeim sökum ófullnægjandi og almennur ágreiningur um það hvernig standa skyldi að útvarpsrekstrinum. Segir í Útvarpsárbók 1930 að starf Félags útvarpsnotenda hafi á fyrstu árunum einkum verið fólgið í því að glíma við Hf. útvarp sem félagsmönnum þótti ekki starfrækja útvarpið svo að til þjóðþrifa yrði, stöð þessi væri allt of afllítil en álögur þungar.“

Segja má að stöðin hafi runnið sitt skeið á enda. Hinn 15. mars skrifar Lárus Jóhannesson Tryggva Þórhallssyni forsætisráðherra ítarlega greinargerð um málið og segir að ef stöðin fái ekki leyfi til að selja tæki sé ekki annað fyrirsjáanlegt en starfsemin leggist niður. Þá hefur a.m.k. einhver starfsemi áfram verið. Hún muni svo endanlega hafa lagst niður örskömmu síðar því að 17. apríl er samþykkt þingsályktun þar sem skorað er á landstjórnina að hefja útvarp að nýju. Í Íslendingi, 29. júní 1928, er þess geti að útvarpsstöðin Reykjavík sé fyrir nokkru hætt. Þó mun hafa verið útvarpað öðru hverju, t.d. um jólin 1928. Segja má að eftir það hafi útvarpsrekstur stöðvast tímabundið á Íslandi þangað til Ríkisútvarpið hóf svo göngu sína.

Það var 28. ágúst 1927 sem stjórnarskipti urðu í landinu eins og ég gat um áðan. Þá tók við ráðuneyti Framsóknarflokksins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar. Tryggvi fór sjálfur með atvinnu- og samgöngumálin og heyrði útvarpið undir hann. Skipaði hann nefnd um Ríkisútvarpið sem vann hratt og vel. Hún hélt fyrsta fund sinn þá um haustið og þegar Alþingi kom saman, snemma árs 1928, var lagt fram frumvarp til laga um heimild handa ríkisstjórninni til ríkisrekstrar á víðvarpi. Því fylgir greinargerð sem er fróðlegt plagg um stöðu útvarpsmála, eins og hún horfði við á þessum tíma. Þar með var brautin nokkuð bein og rekstur á Ríkisútvarpi hófst. Söguna þekkjum við og hingað erum við komin í umræðum um hlutverk og framtíð Ríkisútvarpsins.

Mig langar að lokum að vitna í skemmtileg ummæli hjá framsögumanni meiri hlutans á fundi Alþingis, á 40. löggjafarþingi 1928. Gunnar Sigurðsson segir hér um útvarpið, með leyfi forseta:

„Að því er snertir rekstur útvarpsstöðva þá er hann mjög mismunandi í hinum ýmsu löndum. Flest ríki virðast þó hallast að því annað tveggja að reka það sjálf eða hafa hönd í bagga með því, því að reynslan vill alltaf verða sú að þegar slík fyrirtæki eru rekin af einstaklingum hugsa þeir fyrst og fremst um sinn hag. Alveg eins og t.d. ef Síminn væri einkaeign þá mundu eigendurnir kinoka sér við að leggja línur þangað sem lítilla tekna væri von.“

Það er vegna þessa, virðulegi forseti, sem ég tel réttlætanlegt að hið opinbera verji töluverðum fjármunum af skattfé almennings til að reka fjölmiðil á Íslandi. Ég tel að ríkisvaldið eigi að tryggja nokkra grundvallarþætti í miðlun upplýsinga og menningarefnis. Ég tel að hið opinbera eigi að halda úti fjölmiðli sem starfræki öfluga fréttaþjónustu. Fréttaþjónusta Ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins er að mörgu leyti afskaplega góð. Hún er stundum framúrskarandi og aðdáunarverð á köflum, þegar fréttamenn fá svigrúm til að sinna hlutverki sínu eins og skyldi. Ég tel hins vegar aldrei sjálfsagt að ríkið reki fjölmiðil. Það er aldrei sjálfsagt að ríkið reki útvarp og sjónvarp frekar en að ríkið reki dagblað. En ég tel réttlætanlegt að ríkið reki vel skilgreindan fjölmiðil sem hafi ákaflega afmarkað hlutverk sem flokka megi sem almannaútvarp sem gegni fyrst og fremst hlutverki í miðlun og fjölmiðlun sem einkaaðilar ekki sinna. Ég tel að ríkið eigi ekki að halda úti ljósvakamiðli sem er fyrst og fremst í grimmri samkeppni við markaðsmiðla. Ég nota ekki orðið markaðsmiðla í neikvæðri merkingu um þá fjölmiðla, þeir sinna margvíslegu hlutverki, skemmtilegu og merkilegu á köflum. En til þeirra gerum við einfaldlega allt aðrar kröfur.

Við getum ekki gert sömu kröfur um hlutleysi og miðlun á innlendu efni til einkarekinna ljósvakamiðla eins og við getum gert til ríkisútvarps, ríkisrekins ljósvakamiðils. Því fer fjarri. Mér voru það því djúpstæð vonbrigði þegar menntamálaráðherra lét þessa klasturslegu smíð frá sér, sem þetta frumvarp um Ríkisútvarp hf. er. Þar er ekki ráðist í boðlega eða viðunandi skilgreiningu á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þar er meira og minna allt talið upp sem hægt er að telja upp en engin afmörkun eða skilgreining sett fram, engin pólitísk stefnumörkun um hlutverk, umfang og tilgang útvarpsins að finna. Þar er t.d. ekkert fjallað um hlutfall af innlendu efni í bland við það erlenda og hvort einhverju eigi að breyta í því samhengi.

Erum við einfaldlega að gera Ríkisútvarpið hraðskreiðara, öflugra og grimmara í samkeppni við einkareknu miðlana en það er nú? Erum við að gefa því meira forskot og gera einkareknum ljósvakamiðlum erfiðara fyrir að starfa og dafna á þessum litla markaði? Já, að mínu mun samþykkt frumvarpsins þrengja verulega að hlutverki einkarekinna fjölmiðla. Það mun auka forskot útvarpsins verulega og það tel ég að við eigum ekki að gera.

Við eigum að afmarka Ríkisútvarpið á þessum litla markaði þannig að einkareknir miðlar fái þrifist við hlið Ríkisútvarpsins og RÚV gegni fyrst og fremst afmörkuðu vel skilgreindu hlutverki sem tengist frétta- og samfélagsmiðlun og hins vegar miðlun á innlendu sjónvarpsefni, sem Ríkisútvarpið hvetur til framleiðslu á og gert væri af sjálfstætt starfandi framleiðendum úti í bæ. En Ríkisútvarpið væri hvati að framleiðslu á því og verkkaupi. Ég tel að útvarpið eigi alls ekki að framleiða það sjálft heldur versla við íslenska kvikmyndaframleiðendur á hinum frjálsa markaði.

Hið opinbera ætti að mínu mati, með frumvarpi til laga um Ríkisútvarp, að takmarka svigrúm og umfang Ríkisútvarpsins, trappa það niður á einhverju árabili, afmarka hlutverkið og skilgreina upp á nýtt og gefa einkareknu miðlunum aukið svigrúm til að starfa á þessum litla markaði. Því til glöggvunar ætla ég aðeins að tæpa á umsögn sem menntamálanefnd barst frá 365 ljósvakamiðlum þar sem segir, með leyfi forseta:

„365 miðlar gáfu á síðasta löggjafarþingi umsögn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. … Sú umsögn er endursend … Skal einnig áréttað í upphafi að 365 miðlar telja algjörlega órökrétt að leiða framtíðarfyrirkomulag Ríkisútvarpsins til lykta með þeim hætti sem hér er fyrirhugað, án tengsla við löggjöf um fjölmiðla, sem boðuð hefur verið.“

Þetta tek ég undir, virðulegi forseti. Það er einkar athyglisvert að þessi mál skuli ekki til umræðu hlið við hlið, á svipuðum tíma eða að búið sé að setja heildarlögin um fjölmiðla áður en nýtt frumvarp til laga um RÚV er lagt fram. Ekki liggur svo á því máli þótt ekki sé nema einn vetur eftir af kjörtímabilinu.

Áfram segir í umsögninni frá 365 miðlum, með leyfi forseta:

„Þótt þetta frumvarp sé eingöngu sé sett fram út frá hagsmunum RÚV hefur lögfesting þess áhrif á allan fjölmiðlamarkaðinn og langt út fyrir þetta eina fyrirtæki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi fjáraustri af almannafé til eins fyrirtækis sem á í samkeppni við einkafyrirtæki í nákvæmlega sömu starfsemi. Slíkt skekkir samkeppnisstöðu með ýmsum hætti, t.d. bæði á auglýsingamarkaði og við innkaup á innlendu afþreyingarefni. Er það vafalaust rétt sem útvarpsstjóri kemur inn á í grein í Morgunblaðinu 19. janúar síðastliðinn, að núverandi dagskrá má framleiða með hagkvæmari hætti en nú er gert. Það mun fría upp mikla fjármuni sem RÚV getur beitt í samkeppni við einkafyrirtæki sem þurfa að standa á eigin fótum. Þessi atlaga að heilbrigðum rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja er án efa mikil hindrun í vegi fyrir aukinni fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun.“

Ég get að mörgu leyti tekið undir síðustu orðin sem ég las úr umsögninni, að þetta frumvarp er að miklu leyti atlaga að stöðu einkarekinna ljósvakamiðla á markaði. Til lengri tíma litið er frumvarpið atlaga að þessum miðlum. Ég veit ekki hvort það er í beinu framhaldi af atlögu sem gerð var að rekstri ljósvakamiðla og fjölmiðla í eigu Baugs fyrir nokkru, þegar fjölmiðlalögin voru gerð afturræk úr þinginu með sögulegum hætti, þegar forseti lýðveldisins beitti málskotsréttinum í fyrsta sinn í lýðveldissögunni. En burt séð frá því hvort það tengist frumvarpinu þá er það að mínu mati atlaga að rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja. Undir það tek ég í umsögn 365 miðla, sem ég vitna hérna í, að þetta er atlaga að rekstrargrundvelli einkarekinna ljósvakamiðla. Gefa á Ríkisútvarpinu hf., sem óskilgreindu almannaútvarpi og kannski fyrst og fremst markaðsstöð, gífurlegt forskot á einkareknu ljósvakamiðlana í þeirri hörðu samkeppni um auglýsingafjármuni og kostun sem til staðar eru okkar litla markaði í okkar fámenna landi. Sérstaða íslensks samfélags felst í fámenni í stóru landi og kallar að mínu mati á að við afmörkum umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og skilgreinum sérstaklega afmarkað hlutverk þess við miðlun á fréttum og samfélagslega tengdu efni annars vegar og innlendu efni hins vegar. Það yrðu því gerð mikil mistök ef frumvarp þetta yrði að lögum frá Alþingi. Það væru mikil mistök og atlaga að rekstrargrundvelli einkarekinna ljósvakamiðla.

Áfram aðeins, með leyfi forseti, í þessari umsögn 365 miðla:

„Í sjálfu sér var eðlilegast ef ríkið vill greiða fyrir ákveðna dagskrárgerð eða dreifingu dagskrár í dreifðum byggðum, að slíkt yrði boðið út og Ríkisútvarpið hf. keppti um þau verkefni á jafnréttisgrundvelli, eins og þingmannafrumvarp hefur verið flutt um og þekkt er varðandi vegagerð og ýmis opinber þjónustuverkefni. Má telja víst að slíkt fyrirkomulag næði markmiðum þjónustu með hagfelldari hætti fyrir skattgreiðendur en það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir tillögu um.“

Þá nefna þeir sérstaklega í umsögn sinni um frumvarpið að ekki hafi komið fram skýr rök fyrir því að það samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki, sé í andstöðu við markmið samkeppnislaga og tryggi ekki ásættanlegt jafnræði milli opinberra aðila og einkaaðila í útvarpsrekstri. Segir hér að 365 miðlar séu sammála því áliti.

Ég tel, virðulegi forseti, að leiða megi líkur að því að þetta frumvarp geri það að verkum að samkeppnisstaðan skekkist enn frekar og einkareknir ljósvakamiðlar eigi enn erfiðara uppdráttar en áður. Ég hef talað fyrir því árum saman að umfang Ríkisútvarpsins á auglýsinga- og kostunarmarkaði verði takmarkað töluvert frá því sem nú er og hinu að útvarpið verði sett á fjárlög.

Aftur að því sem varðar tilgang og tilverurétt Ríkisútvarpsins sem slíks. Ég tel að Ríkisútvarpið hafi tilverurétt. Ég tel að ríkið eigi að halda úti ljósvakamiðli sem hafi annað hlutverk en að keppa í grimmri og blóðugri samkeppni um auglýsingafé við einkareknu ljósvakamiðlana. Það á að hafa skýrt skilgreint menningar- og fréttahlutverk og samfélagslegt hlutverk. Ríkisútvarpið sinnir þessu hlutverki að mörgu leyti með miklum sóma. En það er líka í allt of miklum mæli í samkeppni við einkareknu miðlana um erlent afþreyingarefni sem það hefur að mínu mati ekkert með að gera til lengri tíma litið. Það á að einbeita sér að allt öðrum hlutum og þar þarf pólitísk forusta að koma til og það á að kveða á um það í frumvarpinu um Ríkisútvarpið.

Ég tek sérstaklega undir það sem segir í nefndaráliti okkar í minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Meðmælendur frumvarpsins halda því fram að með breytingum á yfirstjórn sé losað um þau flokkspólitísku tök á Ríkisútvarpinu sem því hefur lengi verið þrándur í götu. Því miður er engin trygging fyrir því í frumvarpinu að pólitískri íhlutun linni.“

Ég tel að þetta vegi þungt í því að ekki er hægt að styðja þetta frumvarp eins og það liggur fyrir hér af því að pólitískri íhlutun linnir ekki þannig að hægt sé að draga þá ályktun af þessu frumvarpi. Það eru mikil vonbrigði, rétt eins og það að hæstv. menntamálaráðherra heyktist á því að skilgreina hlutverk og tilgang Ríkisútvarpsins sem ríkisrekins ljósvakamiðils í þessu frumvarpi. Það mistekst algjörlega. Tilraunin, ef tilraun skyldi kalla, er svo misheppnuð að hún er nánast hlægileg af því að í markmiðalýsingunni um hlutverk og skyldur má segja að verið sé að þenja útvarpið yfir allt og ekkert.

Í frumvarpi til laga, sem við ræðum hér, segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:

1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps“-rás.

Þar rekur mig aftur í vörðurnar, virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því, ef hún hefði komið hingað í kvöld eins og ég óskaði eftir þegar ég hóf mál mitt, hvort með þessari setningu í 2. gr. væri verið að fela útvarpinu að hætta rekstri Rásar 2. Það er alla vega ekki kveðið skýrt á um það að Rás 2 skuli haldið úti. Ég held nefnilega að Rás 2, eins og hún hefur þróast á síðustu árum, falli algjörlega undir það sem ég var að lýsa hér áðan. Hún hefur markað sér mjög skýrt hlutverk sem er fyrst og fremst að miðla nýrri og gamalli íslenskri popptónlist, sem er mjög mikilvægt og virðingarvert og glæsilegt hlutverk fjölmiðils. Það er kannski eitt af bestu dæmunum um hlutverk ríkisrekins miðils en því hlutverki sinna einkareknu ljósvakastöðvarnar mjög illa og lítið, allt of lítið. Í því felast rökin fyrir tilverurétti Rásar 2 og um leið rökin fyrir því að ríkið skipti sér af fjölmiðlarekstri almennt. Ég hef margoft sagt að ekki sé sjálfsagt að ríkið standi í fjölmiðlarekstri ef hann miðar ekki að öðru en að drepa niður einkarekna fjölmiðlastarfsemi og kæfa alla samkeppni á fjölmiðlamarkaði. En rökin eru vissulega til staðar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur rofið sátt um Ríkisútvarpið á síðustu árum. Margir hafa það á tilfinningunni að flokkurinn sé einatt að gera tilraunir til að brjóta það undir sig með pólitískum hætti, beita pólitískum ítökum og pólitískri íhlutun í starfsemi þess og miðlun. Þetta hefur gengisfellt starfsemina í hugum einhverra. Atlaga og áhlaup Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í einu feikilega illa heppnuðu tilfelli mistókst. Ég held að flokkunum hafi þá ekki tekist það sem þeir ætluðu sér einfaldlega af því að starfsfólkið lét ekki hina pólitísku áhlaupsmenn komast upp með það sem þeim gekk til.

Hér segir einnig, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið á að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.“

Orðalagið gæti ekki verið opnara og loðnara en akkúrat hér. Stiklað er á einhverju orðalagi eins og „eðlilegt“ og „fullnægjandi“ og „sem almenningi þyki“ — ég veit ekki hvernig á að mæla það. Algjörlega er horfið frá þeirri tilraun sem maður þó taldi að stæði yfir með því grátbroslega frumvarpi sem kom fram í fyrra þegar Framsóknarflokkurinn ætlaði nánast að standa og falla með því að Ríkisútvarpið yrði sf. en ekki hf. Þá var þó gerð tilraun til að skilgreina hlutverk stofnunarinnar en það virðist nánast hafa runnið út í sandinn. Það voru mikil vonbrigði að í þessu frumvarpi skyldi ekki gerð tilraun til þess að skilgreina hlutverk stofnunarinnar og vegur það þyngst í þeirri skoðun minni að frumvarpið sé ekki boðlegt. Það er fyrst og fremst þetta sem ræður viðhorfum mínum, það er að framtíðarhlutverk útvarpsins sem almannamiðils og almennt hlutverk þess skuli ekki skilgreint upp á nýtt. Það kemur mjög vel fram í niðurstöðu nefndarálitsins eins og ég nefndi áðan.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem

a. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

b. eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar og Samkeppniseftirlits er óljóst og ókannað hvort þessar stofnanir búa yfir faglegri hæfni til að skera úr um viðkvæm álitamál sem varða fjárhagslegan aðskilnað milli starfsemi á sviði almannaútvarps og á sviði markaðsstöðvar,

c. ekki er gert ráð fyrir viðeigandi gagnsæi í starfsemi og rekstri Ríkisútvarpsins, t.d. með því að um það gildi upplýsingalög ...“

Ég held að það sé algjört grundvallaratriði að um Ríkisútvarpið gildi upplýsingalög. Ég óskaði eftir því fyrr í kvöld að virðulegur forseti fengi í salinn einhvern af forustumönnum Framsóknarflokksins. Ég veit ekki hvort hann hefur fengið viðbrögð frá Framsóknarflokknum. Engin sérstök?

(Forseti (BÁ): Forseti vill taka fram að hann hefur ekki hlutast til um að einstakir þingmenn Framsóknarflokksins yrðu kallaðir til umræðunnar hér.)

Það tekur mjög á mig, forseti, að Framsóknarflokkurinn skuli lagstur á flótta í þessu máli. Mér finnst það átakanlegt. Það væri miklu stórmannlegra að flokkurinn kæmi hingað í þingsalinn og útskýrði það borubrattur og borginmannlegur fyrir þjóðinni, fyrir þeim kjósendum sem eftir eru, af hverju hann hefði fallið frá því meginprinsippi sínu að Ríkisútvarpið skyldi aldrei gert að hlutafélagi. Af hverju það breyttist á einu sumri, ef svo má segja, af því að útreiðina fékk það frumvarp fyrir ári. Síðan kom þetta klastur hingað inn einhvern tíma í haust, þetta klastur sem á að verða að nýjum lögum um Ríkisútvarpið hf. Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert aðra tilraun til þess að útskýra þetta en þá að við 1. umr. um málið talaði, að mig minnir, einn framsóknarmaður. Út úr því kom ekki það sem ég vænti og ég mun sæta lagi við 2. umr. um málið — ég er bara rétt kominn af stað með fyrri ræðu mína og á þá síðari eftir í umræðunni síðar í vor — og freista þess að ná tali af framsóknarmanni um þetta mál. Það skiptir mig mjög miklu máli að vita af hverju þessi fyrrverandi félagshyggjuflokkur fór í þann leiðangur, sem ég tel að hann sé lagður af stað í með Sjálfstæðisflokknum, að háeffa og síðar einkavæða Ríkisútvarpið. Ég ætla bara að spyrja framsóknarmennina beint að því: Er það framtíðarmarkmiðið að selja og einkavæða Ríkisútvarpið?

Ég fæ engin svör við því af því að Framsóknarflokkurinn er fjarverandi þessa umræðu. Hann hefur t.d.ekki látið sjá sig við þessa umræðu í dag nema þegar fulltrúi hans sat í forsetastóli, var að sjálfsögðu þar ekki þátttakandi í þessum umræðum. En hv. þm. Jónína Bjartmarz var á mælendaskránni á undan mér og ég var svo glaður yfir því þegar umræðan hófst hér í hádeginu að framsóknarmaður talaði á undan mér, þá gæti ég hlustað á framsóknarmann útskýra sinnaskiptin og af hverju flokkurinn hefði fallið frá þessu pólitíska prinsippi án þess að gera einu sinni tilraun til að útskýra það fyrir almenningi, íslensku þjóðinni. Þá hefði ég getað hlustað á framsóknarmann tala, farið í andsvör við hann og óskað sérstaklega eftir því að framsóknarmaðurinn yrði viðstaddur umræðuna og hlustaði á ræðu mína og kæmi jafnvel í andsvör við mig og ætti við mig rökræður um framtíð Ríkisútvarpsins. Að sjálfsögðu byggist þessi þáttur löggjafarstarfsins hér í þingsal á því að við erum að rökræða, yfirleitt með mjög málefnalegum hætti, um hin og þessi þjóðmál, t.d. um það af hverju Ríkisútvarpið á að verða hlutafélag. Af hverju á að setja það sem á ekki að vera ágóðarekstur, rekstur sem að verulegu leyti er háður skattfé almennings, yfir tveir milljarðar á ári, — af hverju á slíkur rekstur heima í hlutafélagaformi en ekki sem sjálfseignarstofnun sem hefur hentað gífurlega vel sem rekstrarform utan um alls konar almannaþjónustu, alls konar þjónustu í almannahag, alls konar samfélagsleg verkefni sem eru ekki framkvæmd af því fólki og þeim félagasamtökum í ágóðaskyni, þó að það hljómi kannski sérkennilega fyrir sumum, t.d. rekstur á skólum, framhaldsskólum, háskólum, barnaskólum, rekstur á heilbrigðisstofnunum, alls kyns samfélagslegur rekstur sem hefur það markmið að bæta samfélagið og sinna hlutverki sem samfélagið þarf á að halda. Þar hefur sjálfseignarstofnunarformið hentað afskaplega vel, komið mjög vel út. Það er ekki fyrr en að síðari tíma sjálfstæðismenn, einhvers konar uppreisnarmenn af hægri vængnum, telja sig knúna til þess. Þessar stofnanir verði að vera hlutafélög af því að það sé svo miklu betra að reka þær þannig.

Við fórum í gegnum heilmikla umræðu um þetta í fyrra þegar illu heilli var ákveðið að leggja Tækniskólann niður og setja hann inn í annan skóla sem einkahlutafélag í stað þess að fara þá bestu leið sem slíkar stofnanir geta farið í sem er sjálfseignarstofnanir. Það fyrirkomulag hentar vel utan um hvers konar samfélagslegan rekstur sem ekki er í ágóðaskyni, þar sem ekki er heppilegt að ríkisstofnanir eða ríkið sjálft hafi með það að gera heldur sjálfseignarstofnanir sem hafi þetta markmið. Þetta er mjög undarlegt og við þessu ætlaði ég að fá svör frá Framsóknarflokknum. Þess vegna óskaði ég eftir því við virðulegan forseta fyrir einum og hálfum klukkutíma bráðum að einhver af forustumönnum Framsóknar, t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra, sem fer með himinskautum í fjölmiðlum þessa dagana um íslenska pólitík innan lands og viðhorfin til utanríkismálanna, yrði hér viðstaddur. En hann hefur ekki látið sjá sig og ekki sagt orð um Ríkisútvarpið sem þó er mjög veigamikill þáttur í íslensku samfélagi. Heilbrigði samfélagsins liggur að vissu leyti því til grundvallar að hér sé fjölmiðlarekstur nokkuð heilbrigður og hér sé starfrækt ríkisútvarp með skýrt skilgreint markmið í frétta- og samfélagsmiðlun annars vegar og miðlun á innlendu efni hins vegar til mótvægis við einkarekna markaðsmiðla sem hafa ekki sama hlutverk og við getum ekki gert sömu kröfur til, þó að þeir sinni að mörgu leyti samfélagslegu hlutverki líka. Til dæmis er rekin hér mjög umfangsmikil fréttaþjónusta af einkareknum miðlum, bæði á ljósvakanum og í prentuðu máli.

(Forseti (BÁ): Forseta leikur nokkur forvitni á að vita hvort hv. þingmaður telur að hann eigi langt eftir af ræðu sinni.)

Já, töluvert langt eftir.

(Forseti (BÁ): Þá biður forseti hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni þar sem ekki eru áform um að halda þingfundi áfram hér fram eftir nóttu og er miðað við að umræðu verði frestað fram á föstudag og mun þá áfram verða haldið 2. umr. um Ríkisútvarpið hf. Er þá gert ráð fyrir að hv. þingmaður haldi áfram ræðu sinni. Málið er því tekið af dagskrá þessa fundar. Þar sem hv. þingmaður hefur gert hlé á ræðu sinni er honum heimilt að yfirgefa ræðustólinn.)