Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 16:58:30 (8558)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[16:58]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hugur minn var greinilega við nefndarstörfin. Við erum hér komin á síðari hluta máls sem hefur tekið allmikinn tíma í menntamálanefnd og verður vonandi til heilla því málefni sem um ræðir.

Ég verð að viðurkenna að mér leist ekki á þetta frumvarp í upphafi og var ýmsum atriðum þess nokkuð andsnúinn. En sem betur fer hefur nefndarstarfið leitt til þess að ég get heils hugar tekið undir nefndarálitið sem hér var áðan farið í gegnum. Ég tel að mikill árangur hafi náðst í starfi nefndarinnar.

Ég nefni — bara svona eitt af öðru án þess að fjalla um það, breytinguna á heiti stofnunarinnar og markmiðslýsingu hennar — að það er skýrt að starfsmenn hennar eru hluti af fræðasamfélagi Háskóla Íslands og þar með nátengdir háskólanum með þeim hætti að þeir eru sem sé hluti af honum að nokkru leyti.

Ég nefni þær breytingar sem leiða til þess að stofnunin verður raunveruleg háskólastofnun, akademísk stofnun, með því skipulagi sem þar af leiðir, þar á meðal húsþingi sem nefndin hefur orðið sammála um að setja á stofn í hinni sameinuðu stofnun og hefur sama nafn og samsvarandi samkoma í Árnastofnun eldri. Ég nefni enn fremur að að ósk starfsmanna ýmissa og flestra hefur starfsheitum verið breytt, þeim sem á stofnuninni verða. Enn er að nefna að hvatt hefur verið til þess að nýjar stöður sem voru svona nokkuð í lausu lofti, kenndar við ágæta tvo fræðimenn, verði fyrst og fremst gististöður og að við skipan í þær komi allt fræðasvið stofnunarinnar til greina en ekki einstök fræðasvið eins og áður var gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Af öðrum atriðum legg ég áherslu á þann samdóm nefndarinnar að beina því til menntamálaráðherra að athuga nú þegar fjárþörf þessarar stofnunar fyrir næsta fjárlagaár, fjárveitinguna fyrir þeim stöðum sem við ræddum áðan og kenndar eru við Árna Magnússon og Sigurð Nordal, fjárveitingu í samhengi við kostnað sem hlýst af sameiningunni, fjárveitingu sem ætlað sé að mæta þörf fyrir fjölgun starfa við rekstur og skrifstofuhald en sú fjölgun er nauðsynleg eigi að nást það hagræði og sú efling starfseminnar sem stefnt er að með frumvarpinu. Þar er líka minnt á að vegna galla í kostnaðarmati frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins gæti þurft að endurskoða fjárþörf stofnunarinnar í tengslum við sameininguna á næsta ári, það fer auðvitað eftir því hvort menn notfæra sér biðlaunarétt sem gert er ráð fyrir og hvernig gengið verður frá sameiningunni að öðru leyti.

Fleira má nefna í þessu. Það eru allmiklar breytingar á frumvarpinu og ég fagna þeim öllum. Framsögumaður, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sagði að við stjórnarandstæðingar hefðum skrifað undir með fyrirvara og gat þess réttilega að hann tæki til Íslenskrar málnefndar. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það en ég hef enn miklar efasemdir um að rétt sé að leggja af sérlög um Íslenska málnefnd og koma málum hennar fyrir í þessum lögum. Ég hefði talið eðlilegra að málnefndin væri algjörlega sjálfstæð með sérlögum og kvíði því nokkuð hvað verður í framhaldinu. Á hinn bóginn hefur okkur tekist í nefndinni að lagfæra greinina sem fjallar um Íslenska málnefnd. Við höfum gefið henni skýlausan rétt til almennra ábendinga um málfar sem ekki var fyrir hendi í frumvarpinu en hún hefur núna í sérlögum sínum. Við leggjum áherslu á að Íslensk málnefnd fái fjárveitingu á sérstökum fjárlagalið og teljum eðlilegt að hún geti í hennar krafti samið við hina nýju Árnastofnun um starfsemi og verkefni sem gerir hana sjálfstæðari gagnvart stofnuninni. Við segjum líka í nefndarálitinu að við teljum eðlilegt að málnefndin geti, ef hún kýs, starfað með öðrum háskólastofnunum eða einstökum fræðimönnum eða hverjum sem hún vill og þurfi ekki að biðja um leyfi hinnar nýju Árnastofnunar eða forstöðumanns hennar eða stjórnar til þess arna.

Við kusum þess vegna að flytja ekki breytingartillögur við þessa grein og rjúfa ekki samstöðu nefndarinnar með því. En ég vil segja það hér að ég lít á þessa nýskipan Íslenskrar málnefndar sem tilraun sem sjálfsagt er að endurskoða eftir nokkur ár í ljósi reynslunnar og hyggst beita mér fyrir því að það verði gert ef ég hef aðstöðu til hér á þinginu og hvet menntamálaráðherra núverandi og þá sem við taka að fylgjast vel með þessu máli. Íslensk málnefnd er mjög mikilvæg stofnun í samfélagi okkar og við megum ekki við því að veikja stofnanalega stöðu þeirra örfáu stofnana og apparata sem við höfum sett til verndar og eflingar íslenskri tungu.

Við vonum að vel fari en það er helst þessi partur frumvarpsins og umfjöllunarefni þess sem ég hef áhyggjur af. Ég tel hins vegar að með þeim breytingum sem við leggjum hér öll til geti þetta blessast nokkuð vel og orðið til heilla því starfi sem fram fer á stofnunum fimm, fræðunum sjálfum sem um ræðir og öllu því fólki sem þau stundar annaðhvort í starfi hjá stofnunum eða utan þess, þjóðinni sjálfri og öllum áhugamönnum um viðgang þessa máls.

Ég verð að lokum að hryggja þingheim og forseta með því að mér sýnist að nefndin þurfi að koma saman aftur eftir 2. umr., við þurfum aðeins að ræða það hér fyrir atkvæðagreiðsluna vegna þess að við gerðum ráð fyrir að þetta frumvarp yrði samþykkt mun fyrr á árinu en nú er raunin og höfum þess vegna miðað við 1. júní sem síðasta dag við skipun stjórnar og dómnefndar að ég held. Þessu þarf að breyta og við þurfum að ráðgast um það, forseti, í nefndinni með hvaða hætti það verði gert.

Ég þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir framsögu sína hér og öllum nefndarmönnum fyrir hlut sinn að málinu, einkum formanni nefndarinnar sem hefur verið mjög ánægjulegt að eiga samstarf við. Ég er ekki einn um að telja að það samstarf í nefndinni og reyndar einnig við fulltrúa ráðherra og aðra þá sem komu að málinu, m.a. starfsmenn og forstöðumenn, sé til fyrirmyndar í störfum menntamálanefndar og ég vona að nefndin beri gæfu til þess að þegar um stórmál er að ræða, sem ekki eru þó bein pólitísk úrlausnarefni, geti vinnubrögð af þessu tagi tíðkast milli okkar sem þar störfum.