Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 13:01:59 (8577)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:01]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingar á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar. Það er um málið að segja að farið hefur fram afar mikil vinna í allsherjarnefnd vegna þessa máls og eins og sjá má á þskj. 1128, nefndarálitinu, hefur nefndin fundað með fjölmörgum aðilum og umsagnir bárust víða að vegna málsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á barnalögum, lögum um ættleiðingar og hjúskaparlögum. Meginbreytingin sem frumvarpið felur í sér á barnalögum er að sameiginleg forsjá er gerð að meginreglu eftir samvistarslit foreldra nema annað sé ákveðið. Þá eru lagðar til breytingar varðandi þvingunarúrræði þegar umgengni er tálmað og enn fremur á lögsögureglum í meðlagsmálum.

Einnig eru lagðar til breytingar á ættleiðingarlögum sem varða einkum málsmeðferð og breytingar á hjúskaparlögum sem fela í sér að einfalda málsmeðferð við innheimtu framfærslueyris og lífeyris til maka á grundvelli laganna og að fella niður heimild til að kæra útgáfu skilnaðarleyfis til ráðuneytisins þar sem eðlilegra þykir að dómstólar fjalli um slík mál vegna þeirra afdrifaríku réttaráhrifa sem fylgja útgáfu skilnaðarleyfis og þá einnig ógildingu slíks leyfis, eins og segir í nefndarálitinu.

Í nefndinni varð töluverð umræða um þá breytingu sem frumvarpið leggur til, þ.e. um sameiginlegu forsjána og að sameiginleg forsjá verði meginregla eftir skilnað eða slit skráðrar sambúðar. Þessi mál hafa verið að þróast frá árinu 1992 þegar sameiginleg forsjá var tekin upp í barnalögin og í greinargerð sem fylgdi frumvarpi á þeim tíma voru talin upp rök með og á móti þeirri tilhögun. Í öllum meginatriðum hefur reynslan af sameiginlegri forsjá verið mjög jákvæð og það má heita að sameiginleg forsjá sé í framkvæmd meginregla í dag. En þegar tekið er til skoðunar hvort rétt sé að innleiða í lög þá meginreglu að sameiginleg forsjá skuli verða að lögum þá koma til skoðunar ýmis sjónarmið m.a. um það hvort með því sé tekinn af samvistaraðilum sem eru að slíta samvistum eða hjónum sem eru að slíta hjúskap samningsrétturinn um þetta efni. Því sjónarmiði var vissulega hreyft í nefndinni en það sjónarmið er þó leiðandi í þessu máli og í nefndaráliti styður allsherjarnefnd það meginsjónarmið að í raun sé um breytingu að ræða sem ætlað er að fylgja eftir þeirri framkvæmd sem hefur mótast í kjölfar lagabreytingarinnar frá árinu 1992.

Ég hygg að ekki ástæða sé til að fara í smáatriðum ofan í allt það sem fram kemur í nefndarálitinu en í því er, vil ég leyfa mér að segja, farið óvenju ítarlega ofan í öll þau atriði sem komu til skoðunar. Ég ætla þó að stikla á stóru undir einstökum fyrirsögnum í nefndarálitinu.

Það er þá fyrst aðeins um forsjána. Það kom mjög sterkt fram á fundi nefndarinnar að þörf er á að koma að meiri fræðslu um inntak forsjár. Spurt var hvort ekki væri eðlilegt að inntak forsjárinnar væri nákvæmlega skilgreint í lögum en niðurstaðan varð að gera það ekki heldur þyrfti að skilja eftir svigrúm til að inntak forsjárinnar gæti þróast með þjóðfélagsbreytingum. Á hinn bóginn má segja að það sé mikilvægt á hverjum tíma að foreldrar hafi mjög skýrar leiðbeiningar og upplýsingar um þann rétt sem þeir eru að meðhöndla við sambúðar- eða samvistarslit. Það var af þeirri ástæðu og í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem fór fram um þessi atriði sem nefndin kallaði eftir því hvort til stæði í ráðuneytinu að koma á framfæri frekari upplýsingum. Kom þá fram að dómsmálaráðuneytið er að undirbúa útgáfu bæklings um m.a. inntak sameiginlegrar forsjár, hvað í henni felist og hvaða ákvarðanir teljist meiri háttar þannig að samþykki beggja foreldra þurfi að koma til vegna hagsmuna barnsins. Eins og segir í niðurlagi kaflans um forsjá í nefndarálitinu telur nefndin þarft að leiðbeiningarreglur um hvað felist í sameiginlegri forsjá verði kynntar en hins vegar telur nefndin ekki að rétt sé að slíkt sé bundið í lög. Almennt má um þetta segja að ekki er rétt að binda um of hendur foreldra í þessu efni. Foreldrar eiga að geta ráðið því í öllum aðalatriðum hvaða atriði það eru sem þeir kjósa að fara sameiginlega með.

Svo ég fari úr forsjánni yfir í umfjöllun um dómstólaleiðina þá fór fram töluvert mikil umræða í nefndinni um þá leið. Við þekkjum dæmi þess á Norðurlöndunum að sú leið hafi verið farin. Nú nýlega höfum við fengið upplýsingar um að í Danmörku eru að koma fram tillögur um að breyta lögum þar á þann veg að dómstólar geti dæmt foreldra til að fara sameiginlega með forsjána þegar um ágreining í því efni er að ræða. Um þetta fór fram töluvert mikil umræða og niðurstaða nefndarinnar um þetta atriði — ég tek fram að það var ekki án fyrirvara sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu, ekki án fyrirvara frá einstökum nefndarmönnum — er sú að fara þá leið sem frumvarpið gengur út frá, þ.e. að dómstólar fari ekki með heimild til þess að dæma foreldra til að fara sameiginlega með forsjána heldur að leggja áherslu á sáttameðferðina. Það er tekið til umfjöllunar sérstaklega á bls. 6 í nefndarálitinu, um sáttameðferð. Megináherslan er lögð á — og það er nokkuð sem ég get kannski sagt að hafi komið mörgum nefndarmönnum nokkuð á óvart við meðferð málsins að það er hægt að ná gríðarlega góðum árangri með því að láta reyna á sáttameðferð í skilnaðarmálum. Við höfum dæmi þess að þar sem menn hafa lagt sig eftir því að ná sátt hefur árangurinn verið mikill. Að mínu áliti er það skynsamlegra fyrir okkur að leggja áherslu á að þróa sáttaúrræðið enn frekar, láta reyna á það miklu betur en gert hefur verið hingað til að reyna að ná sáttum foreldra þegar til ágreinings kemur um forsjána. Það er einungis þegar við höfum gengið þá leið til enda að til greina komi að fara að skoða hitt úrræðið sem væri þá að dómstólar mundu fá það vald að geta dæmt foreldrana til að fara sameiginlega með forsjána.

En það er reyndar annað sem ég fyrir mitt leyti set fyrirvara við varðandi dómstólaleiðina. Það er að mér finnst vera ákveðin öfugmæli í því að dómstólar geti dæmt aðila til að verða sammála um atriði sem þeir segjast vera ósammála um. Það hljóta að vera ákveðin öfugmæli í því fólgin að þriðji aðili geti skikkað foreldra til að vera sammála um eitthvað sem þeir segjast ekki vera sammála um og lýsa yfir að þeir telji sig ekki geta verið sammála um. Það er kannski helst þetta sem leiddi til þess að sumir þeirra sem komu fyrir nefndina lýstu því yfir að yrði þessi leið farin þá yrði það að þeirra mati hreinlega réttarfarsslys. En sitt sýnist hverjum um þetta atriði og hér togast vissulega á sjónarmið. Þessi leið hefur verið farin annars staðar, til að mynda eru tilfelli í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Þessi heimild hefur verið til staðar í Svíþjóð frá árinu 1998 en þeir hafa verið að endurskoða og þróa þetta úrræði og tilhneigingin hefur verið í þá átt að draga úr heimildum dómstólanna þar í landi til að beita úrræðinu. En eftir stendur að heimildin er til staðar þar sem það er augljóslega fyrir bestu þegar höfð er hliðsjón af hagsmunum barnsins. Ég held ég láti þetta duga um dómstólaleiðina. Það er sem sagt meginniðurstaðan að fylgja þeirri línu sem lögð er í frumvarpinu um að leggja ekki til að dómstólar fái heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.

Varðandi leiðbeiningarskyldu sýslumanns ætla ég ekki að staldra lengi við þann kafla. Það er einungis ástæða til að vekja athygli á mikilvægi leiðbeiningarskyldu sýslumanns. Sýslumaður gegnir afar mikilvægu hlutverki í þessum málum, þ.e. við sambúðar- eða samvistarslit. Það virðist vera í allt of mörgum málum að þeir aðilar sem eru að slíta samvistum eða sambúð geri sér ekki grein fyrir réttaráhrifum þeirra ákvarðana sem teknar eru á þeim tímapunkti. Slíkt leiðir auðvitað bara til þess að ágreiningur rís í kjölfarið og þess vegna er mikilvægt að frá fyrstu stundu liggi góðar og greinargóðar upplýsingar fyrir þeim aðilum sem leita til sýslumanns og afar mikilvægt að sýslumaður leiðbeini um öll þau atriði sem máli kunna að skipta vegna þeirra ákvarðana og þeirra samninga sem gerðir eru í kjölfarið, þar á meðal um umgengni við börn og forræði þeirra. Ekki er óalgengt að blandað sé saman í almennri umræðu um þessi mál reglum um umgengnisrétt annars vegar og forræði hins vegar og í sjálfu sér ekkert sjálfgefið að foreldrar, þó að þeir geti verið góðir uppalendur í öllu, séu vel að sér um þær lagareglur sem gilda þegar sambúðar- eða samvistarslit eiga sér stað. Þess vegna — og einmitt vegna þeirra kringumstæðna sem oft eru þegar slíkt gerist þar sem fólk hefur um margt annað að hugsa en kannski beinlínis lagareglurnar sem gilda um þær kringumstæður — er ástæða til að vekja sérstaka athygli á leiðbeiningarskyldu sýslumanns. Það er af þeirri ástæðu sem nefndin leggur til breytingu við 1. gr. frumvarpsins sem hnykkir á þessu atriði sérstaklega.

Um andlát forsjárforeldris ætla ég að leyfa mér að vísa til þess kafla í nefndarálitinu en þar er um það að ræða að nefndin vísar því máli í raun og veru áfram til skoðunar í sifjalaganefnd.

Um sáttameðferðina almennt hef ég fjallað í ræðu minni. Nefndin hefur tekið upp umfjöllun um sáttameðferðina í víðu samhengi við ráðuneytið og hefur mætt þar miklum skilningi og vilja til að taka til skoðunar hvernig þróa megi frekar sáttaúrræði við skilnað til að ná meiri árangri en við sjáum í framkvæmd í dag. Ég held að ég geti mælt fyrir hönd flestra nefndarmanna þegar ég segi að það kom verulega á óvart í störfum nefndarinnar að sjá hversu tilviljanakennt í raun og veru sáttaúrræðið hefur þróast í framkvæmd á Íslandi. Það er nánast þannig að einstakir dómarar hafa tekið upp hjá sjálfum sér að gera ríkari tilraunir til að ljúka málum með sátt en aðrir og í kjölfarið hefur þróast einhver reynsla og upp úr henni hefur síðan verið unnin statistík. Sú statistík sýnir okkur að hægt er að ná miklum árangri með því að láta reyna á sættir en það ber að hafa í huga um sáttameðferð fyrir dómi að mál rata að sjálfsögðu ekki til dómstóla fyrr en allt er komið í hart og þá er ýmislegt búið að ganga á áður. Því er það í sjálfu sér mjög merkileg staðreynd að þegar menn leggja sig virkilega fram um að reyna að sætta mál, jafnvel þótt þau séu komin til dómstóla, séu vísbendingar um að hægt sé að ná miklum árangri í því að ljúka málum í góðri sátt. Þetta hefur orðið til þess að nefndin beinir því mjög sterklega til ráðuneytisins að setja af stað á skoðun á því hvernig hægt sé að samhæfa sáttaúrræðin í landinu, taka upp samræður við dómstólana og sýslumenn eftir atvikum og ræða þessi mál í góðu samstarfi við þær sérfræðinefndir sem starfa á vegum ráðuneytisins.

Nefndin leggur áherslu á að þessari endurskoðunarvinnu verði komið af stað sem fyrst. Það er full ástæða til að ætla að um það geti tekist nokkuð víðtæk samstaða að ýta þessu áfram, þ.e. ég hef enga ástæðu til að ætla að nein sérstök fyrirstaða standi í vegi fyrir því að þetta verði tekið til skoðunar, hvorki hjá sýslumönnum, dómstólum né þeim sérfræðingum sem starfa undir ráðuneytinu eða í ráðuneytinu. Að minnsta kosti mættum við í nefndinni ekki þeim skilningi neins staðar þegar þetta var tekið til umfjöllunar að það væri einhver ósvinna að hrinda slíkri vinnu af stað. Það verður því mjög fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því starfi sem vonandi fer af stað sem allra fyrst. Vakin er athygli á því í nefndarálitinu að til að mynda í Danmörku hafa verið lögfestar reglur um sáttameðferðina.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar ofan í önnur atriði sem fjallað er um í nefndarálitinu nema ástæða gefist til í umræðunni um málið. Ég þakka nefndarmönnum í allsherjarnefnd fyrir gott samstarf í þessu máli sem eins og ég sagði í upphafi hefur verið mjög umfangsmikið í störfum nefndarinnar í allan vetur. Upp úr því hefur fæðst þetta ítarlega nefndarálit sem ég tel að taki á öllum þeim sjónarmiðum og ólíku skoðunum sem fram komu um það hvernig haga beri löggjöf um þessi efni á Íslandi.