Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 13:23:57 (8580)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hv. formaður allsherjarnefndar hafi alls ekki gert grein fyrir því hvers vegna hann vill ekki veita dómurum þann möguleika að dæma sameiginlega forsjá. Það sem formaður allsherjarnefndar er að reyna að rökstyðja er að setja dómara í þá stöðu að þeir verði að gera upp á milli jafnhæfra einstaklinga, gera upp á milli þeirra á þann hátt að annar þeirra hafi ekki forsjá yfir barninu sínu. Það er sú staða sem hann er að setja dómara landsins í. Ég treysti einfaldlega dómurum landsins til að geta metið það hvort ekki sé hægt að hafa þriðja möguleikann þegar foreldrar takast á um forsjá barna sinna, þ.e. sameiginlega forsjá. Það er alveg af og frá að verið sé að dæma fólk sem er ósammála til að vera sammála. Það er ekki hægt að stilla hlutunum þannig upp. Það er af og frá. Það er verið að veita dómurum þann möguleika, ef fallist verður á þá breytingartillögu sem ég legg fram, að þeir kveði á um forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu og uppeldi þess. En í rauninni er formaður allsherjarnefndar að rökstyðja það hér að þeir verði sviptir þessum möguleika. Mér finnst það alveg fáránlegt. Hann hefur alls ekki rökstutt það, frú forseti, af hverju svipta eigi annað foreldri því að hafa forsjá með barni sínu. Og það að verið sé að hopa með þetta fyrirkomulag í öðrum löndum hefur bara ekkert verið rökstutt. Það eru einmitt að berast fréttir af því að verið sé að skoða það og leggja til í Danmörku að þessi leið verði farin. En hv. formaður allsherjarnefndar virðist alls ekki vilja skoða þá leið og kemur ekki með nokkur rök.