Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 13:26:10 (8581)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:26]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að ekki er verið að svipta dómstólana þeim rétti vegna þess að hann er ekki til staðar í dag. Ég tel að í nefndarálitinu séu tínd til rökin sem geti verið með úrræðinu og á móti og mér finnst að það sé gert á afar hlutlægan og sanngjarnan hátt.

Í niðurlagi þess kafla sem fjallar um þetta atriði segir að úrræðið sé nokkuð mikil grundvallarbreyting á gildandi rétti hér á landi. Og þar sem frumvarpinu var ekki stillt upp með þessu úrræði fór það ekki út til umsagnar í þeim búningi. Það yrði að teljast töluvert mikið inngrip af hálfu nefndarinnar að gera slíka grundvallarbreytingu á frumvarpinu í nefndinni af þeirri ástæðu, segir í nefndarálitinu, að úrræðið hafi ekki fengið nægilega ígrundaðan aðdraganda eða nógu þroskaða umræðu til að gera þá breytingu. Ég skal ekkert fullyrða um það að ég gæti ekki stutt þetta úrræði með mjög þröngri útfærslu einhvern tíma í framtíðinni en á þessu stigi málsins er ég ekki tilbúinn til að gera það. Ég vil líka leggja áherslu á það í lokin að við erum ekki að tala um einhvern svartan eða hvítan veruleika. Það er ekki þannig. Hægt að ná miklum árangri í þessum málum án þess að dómstólar hafi þessa heimild og ég mótmæli því að ég hafi ekki fært rök fyrir því hvers vegna heimildin eigi ekki að vera til staðar. Það er m.a. vegna þess að í því getur falist ákveðin þversögn. Við skulum heldur ekki gleyma því að við erum að tala um að úrræðið yrði leitt í lög gegn vilja annars foreldris.