Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 13:58:36 (8588)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:58]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst athyglisvert að heyra hjá áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í allsherjarnefnd að hann væri á báðum áttum og jafnvel andvígur því að sameiginleg forsjá væri meginregla eftir sambúðarslit eða skilnað. Mér finnst það með ólíkindum og lýsa forneskjulegum viðhorfum. Þegar menn segja í umræðunni að aðeins eigi að hugsa um hagsmuni barnsins en ekki foreldranna þá er eins og það fari ekki saman. Yfirleitt fara hagsmunir barna og foreldra saman. Menn geta ekki slitið þar í sundur, að það megi bara kasta fyrir róða að horfa á hagsmuni foreldra þegar rætt er um þessi forsjármál. Það tel ég alveg af og frá. Það á einmitt að horfa á þetta saman. Sé gengið á hagsmuni foreldra þá hlýtur það að koma niður á börnunum. Það hlýtur hver maður að sjá.

Fleira fannst mér athyglisvert í ræðu hv. þingmanns, sérstaklega að sáttameðferðin væri eitthvað sem menn ættu að taka upp í staðinn fyrir að sameiginleg forsjá barna væri meginregla. Eins og ég hef skilið sáttameðferðina þá er hún reynd þar sem ekki hefur náðst sátt um hvernig forsjá með börnum skuli háttað. En í yfirgnæfandi fjölda þeirra atvika sem koma upp er einmitt nokkuð sæmileg sátt um hvernig umgengni skuli háttað og forsjá barna. Þessi umrædda sáttameðferð sem ég tel um að gera að skoða fer einmitt fram þar sem ekki næst sátt.