Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 14:03:38 (8590)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að þetta mál var ágætlega unnið. Í því er að mörgu leyti gengið í rétta átt. Það var farið vandvirknislega yfir hina ýmsu þætti sem lúta að forsjármálum og þeim erfiðu og viðkvæmu málum sem um er að ræða. Viðhorfin til grundvallarmála frumvarpsins koma vel fram í því að þau skiptast þvert á hinar hefðbundnu stjórnmálalínur og uppi eru má segja þrjú viðhorf til málsins.

Sjálfur er ég sannfærður um að nauðsynlegt hefði verið til að lagafrumvarpið væri eins og best gæti orðið og réttlátlega frá því gengið að svokölluð dómstólaleið væri þar til staðar. Það er mál sem er mjög deilt um hér í dag.

Fram er komin breytingartillaga við 2. mgr. 34. gr. sem orðast svo:

„Dómari kveður á um forsjá barns eftir því sem barni er fyrir bestu.“

Þessa breytingartillögu mun ég styðja þegar hún kemur fram. Ég veit ekki hvað hún hefur víðtækan stuðning á þinginu, en það verður spennandi að sjá. Ég veit að það eru a.m.k. nokkrir úr mínum flokki sem styðja hana, t.d. hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hefur talað afdráttarlaust fyrir því að dómstólaleiðin þurfi að vera til staðar þannig að dómari geti dæmt báðum foreldrum forsjá barns.

Samkvæmt frumvarpinu er grundvöllur sameiginlegrar forsjár óbreyttur frá gildandi lögum, þ.e. að sátt verður að ríkja milli foreldra um hagsmuni barnsins og auðvitað líka þannig að full sátt geti jafnframt verið um að aðeins annað foreldrið fari með forsjá sem getur verið sjálfsagt og ágætt mál.

En hins vegar er það skoðun mín að ef foreldrar koma sér ekki saman um tilhögun forsjár sé nauðsynlegt að það sé hægt í ákveðnum tilfellum að skera úr um þann ágreining fyrir dómstólum. Því ekki er loku fyrir það skotið, og það geta komið upp tilvik þeirrar gerðar, að annað foreldrið í hefndarskyni eða af einhverjum annarlegum ástæðum vilji halda sameiginlegri forsjá frá hinu foreldrinu og beiti þá þeim ráðum og komi þannig í veg fyrir að sameiginleg forsjá geti gengið eftir.

Ég tel nauðsynlegt að í þeim tilfellum komi dómstólar til, og fyrir því treysti ég dómstólunum fullkomlega. Það er ekki annað hægt en að hafa það sem útgangspunkt í þessum málum að við berum traust til dómstólanna að dæma í slíkum málum þegar þau koma upp og hafa þá heimild til að dæma báðum foreldrum forsjá. Dæma sameiginlega forsjá eins og gert er og heimild er fyrir í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Fréttir herma að Danir séu að skoða að taka þau mál upp — kemur þá hv. þingmaður sem ég nefndi rétt áðan og vitnaði til afstöðu hans í því máli sem við köllum dómstólaleiðina.

Ég tel og er sannfærður um að við eigum að fara þá leið að heimila dómstólum það, og þá tel ég að málið væri miklu betur úr garði gert og við hefðum náð miklum árangri, af því að klárlega geta komið upp tilvik þar sem dómstólar eiga og þurfa að hafa þessa heimild. Ég treysti dómstólum fullkomlega til að fara með það vald og ég tel að dómstólar eigi að hafa síðasta orðið í þessum málum eins og þeir hafa í öðrum málum.

Auðvitað er aldrei eftirsóknarvert að mál sem lúta forræði eða hagsmunum barna endi fyrir dómstólum. Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu er það alltaf einhvers konar neyðarlending, einhvers konar endir á sársaukafullu ferli. En stundum er það að mínu mati bæði barninu, framtíð og hagsmunum barnsins fyrir bestu að dómstólar hafi þetta úrræði. Ég er algerlega sannfærður um það. Þegar frá dómsmálinu líður og frá átökunum líður, hafi dómari metið það svo að sameiginleg forsjá ætti að vera til staðar, þá sé það hagsmunum barnsins fyrir bestu að dómstólar geti farið þá leið. Fyrir því má að sjálfsögðu færa mörg rök og má vissulega færa rök á báða bóga. Það er aldrei nein ein afstaða endanleg eða algild í þessum málum.

En til að tæpa aðeins á reynslu annarra landa var farið ágætlega ofan í þetta á fundum nefndarinnar eins og kostur var. Allsherjarnefnd vann mikið í málinu í vetur og engin ástæða til annars en að draga það fram, bæði formanni, varaformanni og öðrum nefndarmönnum til hróss. Það var vel unnið í málinu og farið af mikilli vandvirkni í það. Það var nefndinni allri til sóma þó svo að við hefðum haft uppi ólíkar skoðanir á því hvernig þessu ætti að lykta og hvort ætti að fara dómstólaleiðina eða ekki, sem ég er sannfærður um að eigi að fara og mun styðja breytingartillögu þess efnis og það gera sjálfsagt einhverjir fleiri þingmenn og jafnvel nefndarmenn.

Á fundum nefndarinnar kom fram að slík heimiluð dómstólaleið er í lögum nokkurra landa, þar á meðal Noregs, Finnlands og Svíþjóðar. Þeirra landa sem lagagjörningur okkar allra dregur hvað mest dám af almennt og yfirleitt. Við lítum oft til þeirra landa og reynslu þeirra af ekki síst umdeildum og erfiðum löggjöfum sem ekki blasir við hvernig best er fyrir komið. Það hefur komið fram að í Svíþjóð hefur heimildin verið í lögum frá 1998. Þetta kemur fram í nefndarálitinu og vitna ég í það, með leyfi forseta:

„Árið 2002 var skipuð nefnd til að skoða hvernig til hefði tekist með framkvæmd laganna frá 1998. Sú nefnd kannaði m.a. dómaframkvæmd og skilaði ítarlegri skýrslu í júní 2005. Þar kemur m.a. fram að dómstólar hafi tiltölulega oft notað þann möguleika að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja foreldris, eða í u.þ.b. helmingi forsjárágreiningsmála. Rökin voru í flestum tilvikum þau að samstarfsörðugleikar hafi ekki verið á svo alvarlegu stigi.“ Og það er það sem ég er svo sannfærður um, þ.e. að ágreiningsefnin og örðugleikarnir eru oft ekki á svo alvarlegu stigi að það eigi að líða, hagsmuna barnsins vegna, að annað foreldrið geti út af slíkum málum komið í veg fyrir sameiginlega forsjá. Þess vegna er ég sannfærður um að dómstólar verði að hafa þessa heimild, verði að hafa þetta vald að geta í slíkum málum dæmt sameiginlega forsjá, af því að ég treysti dómstólunum til þess og hef ekki forsendur til annars en að treysta dómstólunum til að fara með þetta viðkvæma vald rétt eins og í svo mörgum öðrum málum.

Rökin voru í flestum tilfellum þau, eins og ég sagði, að samstarfsörðugleikar hafi ekki verið á svo alvarlegu stigi að þeir hafi átt að koma í veg fyrir sameiginlega forsjá. En áfram segir í nefndarálitinu:

„Staðhæfingar um ofbeldi komu fram í um einum þriðja þeirra dóma sem nefndin kannaði og dómstólarnir dæmdu sameiginlega forsjá gegn vilja foreldris í um helmingi þeirra tilvika. Sænsku nefndinni þótti tilhneiging til þess hjá dómstólum að dæma sameiginlega forsjá jafnvel þótt fyrirsjáanlegt mætti vera að foreldrarnir gætu ekki náð saman um málefni barns.“

Þess vegna held ég að almennt hafi reynslan af þessu verið ágæt. Auðvitað er hún enn að eiga sér stað. Fyrsta reynslan af slíkri lagasetningu er að eiga sér stað nákvæmlega þessi árin. Það kom fram í fréttum á dögunum að nú eru Danir líklegir til að feta þá sömu leið og Norðmenn, Svíar og Finnar hafa gert en við Íslendingar ætlum ekki að gera það samkvæmt frumvarpinu, nema breytingartillagan frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, sem ég styð eindregið, um að dómari kveði á um forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu, nái fram að ganga. Ég vona að sú breytingartillaga nái fram að ganga því þá væri þetta frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar svo miklu betri lagasetning á eftir. Ég tel að miklu meiri sátt mundi í framtíðinni ríkja um lagasetninguna. Sjálfur væri ég miklu sáttari við hana því ég á erfitt með að styðja lagafrumvarpið ef dómstólaleiðin er þar ekki innan borðs af því svo sannfærður er ég um að hún þurfi og eigi að vera til staðar, bara út frá því einu að það er barninu fyrir bestu að mínu mati.

Ég er algjörlega sannfærður um að eigi hagsmunir barnsins að ráða, þá eigum við að fara dómstólaleiðina. Það er ekki eins og við séum að fela einhverjum vafasömum aðila það viðkvæmar heimildir að ráðskast með um hagsmuni barna, heldur sjálfum dómstólunum sem við getum ekki annað en treyst til að fara með þessi mál eins og öll hin viðkvæmu erfiðu grundvallarmál í samfélaginu.

Við vitum það af reynslunni að stundum er það bara þannig að foreldrar ná ekki saman eftir erfiðan skilnað, ná ekki sátt um að fara þá leið að vera t.d. með sameiginlega forsjá. Í sumum tilfellum verða slík mál að geta farið fyrir dómstóla og þeir úrskurði um að í raun og veru sé ágreiningurinn ekki svo alvarlegur að hann standi í vegi fyrir sameiginlegri forsjá og þess vegna eigi hún að geta komið til.

Í mörgum öðrum löndum eru farnar svipaðar leiðir og hef ég vitnað til nokkurra þeirra og hafa þær komið fram í gögnum sem til nefndarinnar hafa komið. En grundvallaratriðið er þetta: Ég er sannfærður um að við eigum að heimila dómstólunum að hafa þetta vald og mun ég styðja fram komna breytingartillögu og þess vegna er ég ekki á nefndarálitinu af því ég taldi það óásættanlegt að dómstólaleiðin væri ekki farin í þessu máli.