Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 14:15:00 (8591)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:15]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að leggja nokkur orð í belg um þetta frumvarp. Ég á ekki sæti í nefndinni sem fjallaði um málið en mér heyrist á öllum sem þar komu að að málið hafi verið vel unnið. Ég hef aftur á móti alloft lagt fram frumvörp sem snúa að þeim málum sem hér er verið að taka á.

Á síðari hluta síðustu aldar flutti ég þingsályktunartillögu um að bæta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína þar sem einmitt var tekið á ýmsum þáttum sem hér er verið að leiða í lög, þar sem gagnrýnd voru ýmis atriði sem sneru að réttarstöðu barna hvað varðaði umgengni við báða foreldra sína. Það var seinagangur í stjórnsýslunni.

Við sem fluttum þetta mál árið 1997 töldum að það þyrfti að koma á vandaðri skilnaðarráðgjöf í tengslum við hjónaskilnaði og sambúðarslit. En grundvallaratriðið í öllum þessum málum er að hagsmunir barnsins skuli hafðir að leiðarljós, að þeir skuli alltaf vera í fyrirrúmi. Einnig tókum við þar á því að það væri eðlilegt að skipa barni talsmann um leið og umgengni væri komin í hnút. Einnig gæti verið ástæða til að koma á milligöngumanni þegar foreldri sinnti ekki umgengnisskyldum sínum við barn. Þetta eru sem sagt þingmál sem ég hef flutt í þessa veru.

Í allsherjarnefnd liggur nú mál frá átta hv. þingmönnum Samfylkingarinnar um að sameiginleg forsjá skuli vera meginregla í lögum, einmitt það sem verið er lögfesta hér með þessu þingmáli. En við höfðum ítrekað lagt slík frumvörp fram án þess að þau næðu fram að ganga. Þegar ný barnalög tóku gildi árið 2003 var sú leið t.d. ekki gengin til enda að sameiginleg forsjá væri meginregla. Ég fagna því að þetta skuli vera að verða að lögum.

Ég fagna því líka að hér er lögð áhersla á sáttameðferðina en við töldum á sínum tíma að skylda ætti fólk til þess að fara að minnsta kosti í einn tíma í slíkri meðferð. Það hefur komið fram í nefndinni að slík sáttameðferð í skilnaðarmáli hefur gefist vel, m.a. á Reykjanesi hjá ákveðnum dómara. Sömuleiðis fagna ég því að auka eigi fræðslu um sameiginlega forsjá.

Hér hefur dómstólaleiðin aðeins komið til umræðu, þ.e. að heimila eigi dómstólum að dæma sameiginlega forsjá. Það getur vel verið að ástæða sé til þess að það verði sett í lög. Aftur á móti hefur sú leið ekki farið til umsagnar hjá fagaðilum, eftir því sem ég best veit. Ég tel varhugavert að samþykkja slíka lagabreytingu án þess að hún fái umfjöllun í nefndinni og fagaðilar komi að því og án þess að umsagnir komi um þá leið. Ég held að við þurfum að horfa til þess á næstu árum að koma með slíka breytingu og sjá hvaða umfjöllun hún fær í nefndinni.

En ég vil sem sagt fagna því að þarna er verið að stíga jákvæð skref í þessum málum og þarna eru að verða að lögum ýmis atriði sem ég hef ítrekað lagt til hér á þinginu að verði lögfest. Ég mun því styðja þetta mál en sitja hjá við dómstólaleiðina. Ég væri tilbúin að styðja hana ef hún kæmi hér inn í þingið í nýjum búningi, t.d. á næsta hausti, og fengi eðlilega umfjöllun í nefndinni.