Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 14:33:20 (8595)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Aðeins til að ljúka af minni hálfu orðaskiptum mínum við hv. þm. Jónínu Bjartmarz rétt áðan. Ég ítreka það sem ég sagði að hv. þingmaður færði alveg feikilega góð rök fyrir því af hverju menn ættu að taka upp heimild í lögum fyrir dómara að dæma sameiginlega forsjá. Ég hjó eftir því í ræðu hennar að hún virtist gefa það til kynna að hún mundi eigi að síður ekki á þessu stigi málsins greiða því atkvæði. Þegar ég innti hv. þingmann eftir því varð ég nú ekki miklu nær um það og ég bíð þá bara spennur eftir að sjá hver afstaða hv. þingmanns verður við atkvæðagreiðsluna.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar þingmenn hafa jafnbjargfasta sannfæringu og vel rökstudda og hv. þingmaður leiddi fram áðan sé ákaflega erfitt fyrir þá að skjóta sér undan því að birta þá afstöðu í atkvæðagreiðslu með vísan til þess að sátt þurfi að vera alls staðar í samfélaginu um þetta. Hv. þingmaður sýndi fram á það með óskaplega fínum elegans áðan að þetta er barninu fyrir bestu og það er það sem ræður afstöðu okkar. Og þá er það alla vega mín skoðun að hv. þingmaður geti ekki, eftir þessa sterku röksemdafærslu, annað en að gengist við því viðhorfi þegar til stykkisins kemur í atkvæðagreiðslu.

Ég ætla nú ekki að hrekkja hv. þingmann frekar með því að elta hana uppi í þessu máli. Mér nægir alveg að hlusta á þau viðhorf sem komu fram hjá henni. Ég vona að það séu viðhorf Framsóknarflokksins, ég er þó ekki viss um það. Það hefur komið fyrir að hv. þingmaður hafi aðeins sýnt að það er blæbrigðamunur á skoðunum hennar og flokksins sem betur fer.

Ég er í öllum grundvallaratriðum nema einu ákaflega ánægður með þetta frumvarp. Hv. þm. Bjarni Benediktsson flutti hér athyglisverða ræðu um annað mál í morgun þar sem hann sagði að stundum hefði þingið brotið ísinn og rutt brautina fyrir ný viðhorf. Í annan tíma hefði það stundum gerst að þingið væri á eftir framvindu tímans og þeim viðhorfsbreytingum sem hefðu orðið. Þetta var vel mælt hjá hv. þingmanni.

Ég tel að í þessu máli séu að verða veðraskipti í afstöðu til þess. Fyrir nokkrum árum var það alveg ljóst að mjög öflugir skoðanaleiðtogar á þessum sviðum lögðust gegn sameiginlegri forsjá. Það er að breytast. Ríkisstjórn, einstakir ráðherrar og stjórnskipaðar nefndir höfðu miklar efasemdir um það mál. Það er líka að breytast sem betur fer. Á sínum tíma var forsjárnefnd dómsmálaráðherra kannski sú nefnd sem var rödd hrópandans í eyðimörkinni. Nú sjáum við fram á að sterkir fjölmiðlar eins og Morgunblaðið, sem hefur fylgst ákaflega vel með þessu máli og sýnt af sér nútímalegra snið í umfjöllun um það en um marga aðra málaflokka, hefur með svipuðum elegans og hv. þm. Jónína Bjartmarz hér áðan flutt mjög sterk rök, bæði fyrir sameiginlegri forsjá og líka þeim möguleika að dómari fái að fara eftir sannfæringu sinni um hvað barni er fyrir bestu.

Það er eitt í allri þeirri umræðu sem hér hefur verið um þetta mál á þinginu í vetur og skyld mál áður sem mér finnst vera gagnrýni vert. Það er ósjálfstæði okkar Íslendinga í þessari umræðu. Það er eins og við leggjum ekki í að taka sjálfstæðar ákvarðanir heldur finnst mér stundum eins og að nýlenduhaftið sé enn óslitið í þessum efnum eins og svo oft þegar við erum að tala um grundvallarlög, jafnvel sjálfa stjórnarskrána. Þar horfum við til okkar gömlu nýlenduherra, Dana. Ég rifja það upp að þegar menn ræddu hér hina svokölluðu dómstólaleið við fyrri umræðu þessa máls þótti það óskapleg goðgá að ætla sér að taka undir dómstólaleiðina m.a. vegna þess að Danir væru á öðru máli, eins og það skipti einhverju máli fyrir okkur hvað Danir eru að gera í þessum efnum eða öðrum. Við klipptum á þann naflastreng 1944. Við eigum að vera sjálfstæð þjóð sem horfir víða. Við eigum að leita eftir reynslu annarra þjóða og vega hana og meta á okkar eigin forsendum. Við eigum ekki bara að horfa á það sem Danir eru að gera.

En það er dálítið kyndug kaflaskipti sem hafa einmitt orðið á hinum danska vinkli. Við 1. eða 2. umr. málsins og í drögum sem ég sá að hinu upphaflega nefndaráliti var gert mikið úr því að Danir væru með nefnd í gangi og þeir hefðu lagst gegn þessu máli af því hin sænska reynsla væri svo vond. Það kom margsinnis fram í umræðu hér.

Nú blasir það við í fyrsta lagi að hin danska reynsla er slík að jafnvel þeir hafa snúið við blaðinu, jafnvel þeir, samkvæmt forsíðufrétt í Morgunblaðinu fyrir tveimur, þremur dögum, eru að leggja fram frumvarp sem veitir dómara þessa heimild. Þá spyr ég: Ef við vorum svona föst í hinni dönsku vitund og skilningi á þessu máli á fyrri stigum þess, af hverju koma þeir sem beittu þessum rökum ekki núna og segja: Við skulum gera eins og Danir? Mér hefur því fundist að menn hafi notað þetta sem ákveðið skálkaskjól til að skjóta sér hjá þessari ákvörðun. Ég hef ekki þá reynslu, eins og ég hef áður getið, sem hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur sennilega á svona málum úr fyrri starfsvettvangi sínum. Ég sé það bara í mínu nánasta umhverfi að þar sem slit á hjónabandi verða eru það yfirleitt börnin sem koma verst út úr því. Við sem löggjafi verðum fyrst og fremst að hafa hagsmuni þeirra í fyrirrúmi þegar við tökum okkar ákvarðanir. Það er nú svo að við höfum falið dómurum það vald að skera úr um ágreining og meta mál og taka þá niðurstöðu sem þeir telja besta í hverju máli og því finnst mér það nokkuð umhendis ef ekki á að veita dómurum það vald í forsjármálum líka.

Ég treysti dómsvaldinu og ég hlíti niðurstöðum þess. Ég lít svo á að ef dómari, sem hefur vegið og metið málið með þeim tækjum, búnaði og úrræðum sem hann hefur tök á, kemst að þeirri niðurstöðu að það sé barninu fyrir bestu, ef hann telur eftir rannsókn máls að ágreiningur foreldra sé þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hitann í augnablikum skilnaðarins og því sára skeiði sem honum fylgir, ekki það djúprættur að það sé eigi að síður barninu fyrir bestu að vera í umsjá beggja foreldra, þá á hann að hafa heimild til þess, ef hann telur að það sé barninu fyrir bestu. Ef hann telur hins vegar að staðan í samskiptum foreldra sé slík að það sé ólíklegt að úr rætist þá fylgir hann að sjálfsögðu þeirri sannfæringu sinni og dæmir ekki sameiginlega forsjá. Og sömuleiðis ef einhver teikn eru á lofti um að sameiginleg forsjá geti með einhverjum hætti skaðað barnið, eins og reynsla Svía hefur sýnt í sumum tilvikum, þá ber honum að sjálfsögðu að taka tillit til þess.

Á fyrri stigum málsins og í fjölmiðlum hefur verið rætt töluvert um reynslu Svía af þessu máli. Þeir hafa haft dómstólaleiðina í lögum um töluvert skeið. Það hefur verið töluverð umræða í Svíþjóð og núna í vetur í sænskum dagblöðum, og líka reyndar á heimasíðu sænska dómsmálaráðuneytisins, um gæði og nytsemd þessarar leiðar. Það kom í ljós að í nokkrum tilvikum, þriðjungi sem er náttúrlega mjög hátt hlutfall, lék grunur á að í sameiginlegri forsjá, sem dæmd var af dómara, kynni að hafa leitt til einhvers konar ofbeldis gagnvart börnunum. Þetta leiddi til þess að Svíar tóku þetta til endurskoðunar. Gagnstætt því sem haldið var fram af einum ágætum þingmanni hér fyrir nokkrum mánuðum þá leiddi það ekki til þess að Svíar ætluðu sér að hætta við þessa aðferð. Þvert á móti, þeir hafa lagt fram lagafrumvarp þar sem byggt er á þessari reynslu og segja má að leiðin hafi verið fínstillt. Þeir hafa sett sér nýja mælikvarða, öðruvísi leiðbeiningar og ríkari úrræði til að ganga úr skugga um hvernig best sé að taka á málefnum barnsins. Það liggur fyrir alveg fortakslaust í þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem er að finna í því frumvarpi sem ég hef lesið á heimasíðu sænska dómsmálaráðuneytisins að ef minnsti grunur er uppi um að eitthvað slíkt gæti siglt í kjölfarið þá ber að fara ekki þá leið að dæma sameiginlega forsjá.

Eftir stendur að dómarinn verður að hafa heimild til að gera það sem hann telur þeim einstaklingi sem hann á að hafa í öndvegi í svona málum, sem er barnið, fyrir bestu. Það finnst mér skipta langmestu máli. Ég hef sagt að ég tel ákaflega jákvætt að sameiginleg forsjá verði meginregla núna við skilnað. Ég rifja það upp að allar götur síðan, ætli það séu ekki tvö, þrjú ár síðan að jafnvel stjórnskipaðar nefndir lögðust gegn því sem meginreglu, þrátt fyrir að forsjárnefnd dómsmálaráðherra hafi lagt það alveg skýrt til í skýrslu sinni frá mars 2005 að tekið skyldi af skarið um sameiginlega forsjá sem meginreglu. Í skýrslu forsjárnefndar dómsmálaráðherra var sagt alveg skýrt að það væri niðurstaða nefndarinnar, og ég vitna til hennar á bls. 31, með leyfi forseta: „og jafnframt að lögfesta að dómarar geti dæmt sameiginlega forsjá“.

Mér finnst þurfa óskaplega sterk rök til að leggjast gegn þessari tillögu forsjárnefndar dómsmálaráðuneytisins. Ég er þeirrar skoðunar, alveg eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz, að auðvitað eru að verða ákveðin hvörf í þessari umræðu og skilningurinn er að vakna á þessu. Ég tek alveg skýrt fram að ég er ekki að halda því fram að þetta eigi skilyrðislaust að vera svona, bara í þeim tilvikum þegar dómarinn er þessarar skoðunar.

Ég nefndi það áðan að Íslendingar og margir þingmenn sem hafa á fyrri stigum málsins, bæði í vetur og áður, verið andsnúnir þessari leið hafa jafnan vísað til Danmerkur. En staðan er þannig að í fjölmörgum löndum er þetta meginregla. Þar getur dómari dæmt sameiginlega forsjá.

Svíar hafa, eins og við höfum rakið í þessari umræðu, haft þennan rétt, þ.e. dómarar haft rétt til að úrskurða sameiginlega forsjá, síðan 1998. Þar stendur yfir gagnger endurskoðun á þeim lögum. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er að þetta sé góð leið til að tryggja hagsmuni barnsins en hún hefur verið fínstillt út frá reynslunni. Við höfum séð að Danir virðast taka þetta upp líka og 16. mars samþykkti neðri deild belgíska þingsins lög um þetta. Ég held að efri deild þingsins hafi lokið við staðfestingu þeirra laga í síðasta mánuði. Í Hollandi er líka heimild í lögum til að úrskurða sameiginlega forsjá en þar er skýrt í gadda slegið í lögunum að það sé einungis gert að undangenginni rækilegri úttekt á velferð og högum barnsins.

Hæstv. forseti. Hvernig skyldi staðan vera á hinni kaþólsku Ítalíu? Ég er viss um að hv. formaður allsherjarnefndar hefur örugglega skoðað það, þótt ég ætli ekki að hann sé kaþólskari en páfinn. En hann er það heldur ekki í þessum efnum. Á Ítalíu tóku gildi lög fyrir u.þ.b. sex vikum sem heimila m.a. dómurum að dæma sameiginlega forsjá, ef sérfræðingar meta það best fyrir barnið. Í framhaldi af þeim lögum tók páfinn í Róm sig til og í sérstakri messu á hinu mikla torgi fyrir framan Vatíkanið blessaði hann lögin sérstaklega og þann nýja rétt foreldra sem þau færðu. Við hinir lútersku Íslendingar, sem höfum nú alltaf talið okkur frjálslyndari og víðsýnni en kaþólskuna í þessum efnum, erum allt í einu orðin meira hægfara en páfinn í Róm. Það ætti að vera öllum alþingismönnum nokkurt umhugsunarefni.

Svona heimildir og möguleikar eru auðvitað til víðar í lögum. Í 35 ríkjum í Bandaríkjunum er þetta t.d. regla. Svo er og í Ástralíu, í Kanada og ég veit ekki betur en svo sé líka í Bretlandi, en þó þekki ég það langminnst og hef átt erfiðast með að sækja mér gögn um það. En það er kannski í öðru kaþólsku landi að þróunin hefur verið hvað framsæknust. Þar voru strax árið 1987 samþykkt lög sem heimila dómara að úrskurða um sameiginlega forsjá þrátt fyrir andstöðu annars foreldrisins, nema við sérstakar aðstæður sem voru raktar í þeim lögum. Í þeim upphaflegu lögum var alltaf talað um sameiginlega foreldraábyrgð. Það var meginforsendan sem jafnan var gengið út frá. Í þeim upphaflegu lögum var dómurum gefin sérstök heimild til þess að svipta hvorugt foreldranna foreldraábyrgð þótt deilur væru uppi í skilnaði. Og athugið hvernig Frakkarnir orða þetta, þeir nálgast þetta nákvæmlega frá hinum endanum. Þeir tala um að svipta foreldra foreldraábyrgð vegna þess að meginregla þeirra er sú að ábyrgðin hvíli á báðum foreldrum vegna þess að hinir kaþólsku Frakkar og Ítalir líta á þetta mál og nálgast út frá sjónarmiði barnsins og það skiptir máli.

Árið 1993 var síðan þetta hugtak „sameiginleg foreldraábyrgð“ gert að meginreglu í Frakklandi. Í þeim lögum var tekið fram að mjög ríkar ástæður þyrfti til þess að sú leið yrði ekki valin, eða eins og segir í lögunum „dæmd“. Árið 2002 var gengið enn þá lengra og frönsk lög gerðu báða foreldra jafnréttháa. Inn í frönsk lög kom nýtt hugtak sem ég treysti mér hvorki til að þýða né bera fram. En það gerir ráð fyrir því að börnin geti átt tvö jafnrétthá heimili og tvo foreldra með sömu skyldum og ábyrgð. Í reynd fela þessi lög í sér það sem við höfum kallað jafna umönnun.

Frú forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu með frekari ræðuhöldum. Ég vil bara lýsa ánægju minni með þann skilning sem hér hefur þó komið fram á dómstólaleiðinni. Ég er mjög ánægður með lögin sjálf. Ég tel að þau brjóti í blað. Þau eru framhald af mikilli umræðu um þessi mál sem mér finnst þó rétt vera að koma upp á yfirborðið. En af því að sá þingmaður sem talaði á undan mér talaði um að kannski væru að verða veðrabrigði í umræðunni þá vil ég undirstrika að upptalning mín á því hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum ber það með sér að þar er þessi umræða líka, að breyta lögum. Þar eru þessar breytingar niðurstaða sem mér finnst vera rökrétt af umræðum sem snúast um barnið og hagsmuni þess. Það hefur mér stundum fundist vanta í umræðuna en það á að vera meginkjarninn, ekki hagsmunir annars hvors foreldrisins heldur barnsins. Ef dómari telur af sannfæringu sinni að það sé barninu fyrir bestu að það njóti sameiginlegrar forsjár beggja foreldra þá á hann að hafa þennan rétt.