Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 14:51:21 (8596)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:51]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Örfá orð varðandi dómstólaleiðina og þessi mál. Vissulega skiptir máli hvernig skipast með forsjá, hvort sem það er með dómi, fyrir sýslumanni eða bara foreldra á milli. Það skiptir óskaplega miklu máli fyrir velferð hvers einstaks barns. Mér finnst synd að í þessari umræðu allri skuli menn fjalla svo mikið um dómstólaleiðina. Sem betur fer eru það aðeins örfá mál sem fara fyrir dómstóla af öllum þeim málum þar sem foreldrar skilja.

Í tilefni af orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ágætri ræðu hans — við sjáum þessa hluti að mörgu leyti í sama ljósi — þá verð ég að fá að leggja áherslu á að sáttameðferðin skiptir öll börn máli hjá öllum foreldrum sem eru að skilja. Mér finnst óásættanlegt ef bera á fyrir borð í umræðunni þýðingu hennar og leiðbeiningarskyldu sýslumanns. Hvað sem hver segir eru hagsmunirnir þar ríkastir fyrir flest börn, að sem fæst mál þurfi að fara fyrir dómstóla.

Eitt í viðbót, frú forseti. Viðhorfsbreytingin hefur orðið gífurleg. 1992 ætluðu margir vitlausir að verða yfir því að hægt yrði að semja um sameiginlega forsjá. Í dag eru margir þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera meginregla, að meginreglan eigi að vera að forsjáin sé skipt. En m.a. fæðingarorlofið hefur fleygt okkur fram í þessu efni vegna þess að þar er áherslan öll á að það sé sameiginlegt verkefni foreldra, bæði fyrir og eftir skilnað, umönnun og ábyrgðin á barninu.

Annað sem hefur breyst frá 1992 er að þetta heitir forsjá. Þetta fjallar um að sjá fyrir, ekki að ráða yfir. Þar voru hagsmunir barnsins líka settir í öndvegi. Okkur hefur því miðað svo fram á síðustu tæpum tveimur áratugum að hvort við, árinu fyrr eða seinna, lögleiðum (Forseti hringir.) dómstólaleiðina finnst mér smáatriði miðað við alla hina ríku hagsmunina.