Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 14:53:36 (8597)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:53]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona, eftir hjartnæmar ræður hv. þingmanns um nytsemd þeirrar leiðar sem hér hefur verið kennd við dómstóla, að ekki megi skilja síðustu orð hennar svo að hún muni ekki tjá þessa afstöðu sína í atkvæðagreiðslu. Ég er að vísa til þeirra orða hv. þingmanns þegar hún sagði að það skipti ekki árinu til eða frá hvenær þetta yrði samþykkt. Vafalítið mun það ekki skipta neinu grundvallarmáli. En það væri samt betra að þeirri sannfæringu, sem bæði ég og hv. þingmaður höfum í þessu máli, yrði hrint í framkvæmd vegna þess að við trúum að það sé rétt leið.

Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá þingmönnum í dag, að sáttaleiðin skiptir mjög miklu máli. Mér finnst ákaflega mikilvægt að heyra það, sem ég lærði við umfjöllun þessa máls í þessum í sal og í þingflokki mínum, að hægt er að sýna fram á að einstakir dómarar sem fara þá leið ná sátt í 90% mála. Þá velti ég því fyrir mér: Ef svo er og ef það hefur verið reynslan síðan um aldamót, hvers vegna er ekki lögð meiri áhersla á þá leið af hálfu ríkisvaldsins? Af hverju kemur ekki t.d. hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, og lemur í borð og segir: Það verður að taka þetta upp í ríkari mæli? (Gripið fram í: Hann leggur það til í álitinu.) Gott og vel, ég var að lesa þetta álit og þann kafla og hefði gjarnan kosið að það yrði gert með miklu sterkari hætti. En ég virði þann vilja og þær sterku áherslur.

En ég ætlaði að vísa, í framhaldi af orðum hv. formanns allsherjarnefndar, til hæstv. dómsmálaráðherrans sjálfs sem hefði átt að setja mál af þessu tagi í forgang sökum hinnar góðu reynslu af því. En ég vænti þess, frú forseti, að við munum öll fallast í faðma, ef ekki á þessu ári þá á hinu næsta, í þessu máli.