Tekjuskattur

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 15:22:01 (8806)


132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

tekjuskattur.

793. mál
[15:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu sem ég kallaði aftur til 3. umr. fyrr í dag. Tillagan gengur út á að bæta einni grein við þetta frumvarp, sem annars lýtur að því að heimila fyrirtækjum að fresta eða dreifa gengishagnaði sem til fellur vegna rekstrar ársins 2005 á þrjú framtalsár eða skattlagningarár.

Sú ráðstöfun er almennt studd hér enda má það kallast sanngjarnt að koma til móts við fyrirtæki einkum og sér í lagi í útflutningsgreinum sem annars fengju á sig skattlagningu vegna mikils bókfærðs gengishagnaðar. Við þær aðstæður er hins vegar eðlilegt að menn spyrji sig að því hvort ekki séu fleiri aðilar í þjóðfélaginu sem hafa þörf fyrir ráðstafanir og úrbætur vegna snöggra breytinga sem orðið hafa í efnahagsumhverfi okkar, svo sem eins og þá sem nýlega hafa keypt eða byggt húsnæði og treyst á vaxtabætur frá ríkinu sem hluta af afkomu sinni eða tekjum, til að standa straum af þeim útgjöldum.

Nú liggur það fyrir, þannig að ekki þarf neitt frekar að rannsaka það mál í sjálfu sér, að tekjulágar fjölskyldur sem hafa treyst á vaxtabætur sem hluta af afkomu sinni verða fyrir mikilli skerðingu á þessu ári vegna snöggrar hækkunar fasteignaverðs á síðustu mánuðum, einkum og sér í lagi frá haustmánuðum 2004 til haustmánaða og frá um áramót 2005.

Raundæmi úr framtölum sýna að fólk sem á árinu 2005 fékk fullar eða verulegar vaxtabætur upp á þriðja hundrað þúsund kr. fær annaðhvort stórskertar eða engar bætur í ár þótt allt haldist óbreytt annað en hækkun fasteignaverðsins. Þetta stafar af því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni fyrir því að uppfæra skerðingarmörkin, hin eignartengdu skerðingarmörk sem nemi hækkun verðlags. Hvað þá að þau séu uppfærð þannig að eignamyndunin sem að nafninu til fer inn á skattframtölin eingöngu vegna hækkaðs fasteignaverðs skerði ekki vaxtabætur þeirra.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hélt hér ræðu áðan og fór mikinn í því hversu velviljaðir stjórnarflokkarnir væru, alveg sérstaklega þessu unga fólki sem hefði verið að kaupa sér húsnæði og binda sér byrðar undanfarin missiri. Hvar er nú ást stjórnarflokkanna á þeim þúsundum tekjulágra heimila í landinu sem hafa treyst á vaxtabæturnar en fá þær ekki í ágústmánuði næstkomandi nema ráðstafanir verði gerðar til þess að við álagningu á árinu 2006 breytist þessi viðmiðunarmörk?

Hv. þm. Atli Gíslason vakti athygli á þessu máli við 1. umr. þessa frumvarps hér fyrir nokkrum vikum síðan. Hann tilgreindi raunveruleg dæmi úr framtölum fólks frá síðastliðnum vetri sem sýna í hnotskurn þennan vanda. Hv. þingmaður sagði, með leyfi forseta:

„Ég ætla að nefna tvö tilvik um þessar skerðingar.“ — Þá er verið að vísa til skerðinganna sem verða vegna fasteignaverðshækkananna. — „Fyrra tilvikið varðar þrítuga einstæða móður með tvö börn. Hún skuldaði tæpar 11 milljónir í árslok 2004, átti íbúð að fasteignamati 14,6 millj. kr. og greiddi rúmar 500 þús. kr. í vaxtagjöld. Hún fékk fullar vaxtabætur árið 2005 eða 207 þús. kr. Hún skuldaði jafnmikið í árslok 2005, greiddi nánast sömu vaxtagjöld en fasteignamat á íbúð hennar hækkaði um 4,1 milljón á milli ára.“ (Gripið fram í: Sagðirðu þetta ekki í morgun líka?) Jú, það þarf nefnilega að segja þetta þangað til þið skiljið það, hæstv. landbúnaðarráðherra og skafðu nú úr eyrunum.

„Hún fær engar vaxtabætur við álagningu árið 2006 þar sem hrein eign hefur hækkað með einu pennastriki úr 3,6 millj. í 7,7 millj.“ Hin bókfærða eign í húsnæðinu hækkar vegna hækkana fasteignaverðs en tekjur viðkomandi einstaklings, einstæðrar móður með tvö börn, eru óbreyttar og vaxtagjöldin óbreytt. Útkoman er að hún verður af þessum 207 þús. kr. sem hún hefur treyst á.

„Hitt dæmið varðar tæplega fimmtugan einstakling sem fékk í vaxtabætur í fyrra 152.539 kr. greiddar út við álagningu 2005 en fær engar 2006. Það skýrist af því að fasteignamat á íbúð hans hefur hækkað úr 11,3 millj. árið 2005 í 15,1 millj. árið 2006 en tekjur og fjárhagsstaða hafa ekkert breyst á milli ára.“

Þetta er raunveruleikinn. Þetta er veruleikinn hérna úti í þjóðfélaginu. En í fílabeinsturnum ráðherranna er þetta einhvern veginn öðruvísi. Þeir halda að það nægi að fara með útúrsnúninga og þvætting af því tagi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að bera á borð fyrir okkur í þessari umræðu. Að það þurfi að skoða áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á íbúðalánum. Hvað kemur þetta þessu fólki við? Halda menn að fólk sem búið er að taka sín lán, kaupa sína íbúð, gera greiðsluáætlun og fara með hana gegnum matið í bankanum og það er varla aur afgangs, að það varði eitthvað um átök stjórnarflokkanna um það hvað verður um Íbúðalánasjóð? Það kemur þessu máli ekki við. Ekki hætishót. Það liggur allt fyrir sem liggja þarf fyrir í þessu efni.

Menn geta ekki skotið sér á bak við eitt eða neitt í þessu efni. Hvorki hástemmdar ræður um væntumþykju í garð ungs fólks né að málið þurfi að skoðast og athugast.

Það er undarlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli þá ekki að minnsta kosti upplýsa okkur um hvernig ríkisstjórnin hyggist skoða þetta mál. Hefur ríkisstjórnin skoðað hvernig hún stendur að vígi lagalega til þess að gera þarna einhverja breytingu ef hún þá ætlar að reyna það, ef hún þá vill það, eftir að álagningin hefur farið fram? Það hefur aldrei þótt góð latína að þurfa að gera slíka hluti eftir á, afturvirkt, jafnvel þótt ívilnandi séu. Það eru alla vega mikil handarbakavinnubrögð.

Hvaða lagaheimildir hefur ríkisstjórnin til að gera eitthvað í þessum efnum fyrr en í fyrsta lagi eftir að þing hefur komið saman og nýjar heimildir hafa verið stofnaðar með lögum? Það hlýtur að orka stórlega tvímælis að ríkisstjórnin geti nokkuð annað gert en láta framkvæmdina ganga óbreytta fram á grundvelli gildandi laga. Niðurstaðan verður sem sagt sú að þúsundir lágtekjufjölskyldna í landinu, sérstaklega unga fólkið sem hefur verið að kaupa að byggja húsnæði undanfarin ár, verður af þessum stuðningi sem fólk hefur treyst á og haft alla ástæðu til að ætla að héldist.

Með því að hækka eignamörkin eins og gerð er tillaga um á þskj. 1252 þannig að hin eignatengdu skerðingarmörk hækki í tilviki einstaklings úr rúmum 3,7 millj. kr. í 5,2 millj., og fyrir fjölskyldur úr tæpum 6,2 millj. í 9,67, þá eru þessi mörk um það bil stillt af eins og þarf til að framkvæmdin haldist óbreytt og vaxtabæturnar haldi gildi sínu að teknu tilliti til verðlags og þróunar fasteignaverðs.

Þess vegna er málið einfalt, frú forseti. Það er ekkert annað að gera en að samþykkja þessa tillögu ef menn vilja endurreisa vaxtabótakerfið í þeirri mynd sem það hefur verið framkvæmt undanfarin ár. Ef menn fella hana þá er ekkert annað til staðar en skortur á pólitískum vilja til að standa eðlilega að þessari framkvæmd. Þá þýða engin ræðuhöld og bros og engar gamansögur, hæstv. landbúnaðarráðherra. Þá eru menn bara svona litlir karlar.