Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 14:46:48 (1177)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt það sem ég vildi fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort það hefði verið kannað og svo virðist ekki vera. Vissulega er meðlagið eign barnsins sem betur fer og það á að fylgja barninu.

Það sem ég spurði hæstv. ráðherra um var einmitt það að þar sem barnið er að fullu til jafns hjá foreldrum sínum báðum, föður og móður eða báðum mæðrum og báðum feðrum eftir því hvernig hlutum er fyrir komið í hverju tilfelli fyrir sig, hvort það sé ekki eðlilegt, eins og forsjárlausir feður og fleiri slík samtök hafa verið að berjast mjög fyrir á síðustu mánuðum og missirum, að gerðar verði ýmsar úrbætur í þessum málum sem lúta að rétti feðra og hvort þetta sé ekki ein af þeim sem ætti að skoða í lagabreytingum á barnalögum og lögum á sviði sifjaréttar, þ.e. að meðlagið ætti að skiptast til jafns á milli þar sem um væri að ræða raunverulega sameiginlega forsjá en þar sem hún væri ekki bara á pappírnum eins og er í langflestum tilfellum, þar sem barnið er hjá móður sinni fyrir utan nokkra daga í mánuði í langflestum tilfellum. En þar sem um er að ræða sannarlega sameiginlega forsjá, eins og er í mörgum tilfellum, þykir oft vera brotið á feðrum af því að meðlagið fer að fullu til móður en barnið er alið upp nákvæmlega hnífjafnt ef svo má segja hjá þeim báðum þar sem það skiptist á milli vikna að vera hjá móður eða föður, sem sagt foreldrum sínum til skiptis.

Þess vegna vildi ég varpa þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann teldi ekki þörf á að skoða það hvort ætti að taka það inn í þessar breytingar eða ekki og hver niðurstaðan af þeirri skoðun yrði.