Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 15:08:12 (1181)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:08]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem breytir þrennum lögum og hefur verið gerð grein fyrir helstu breytingunum. En meginbreytingin í mínum huga er breytingin á barnalögum sem lýtur að því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu, ef svo mætti segja, í íslenskum rétti. En þarna má einnig finna lagabreytingu sem lýtur að því að kæra á úrskurði sýslumanns fresti ekki beitingu þvingunarúrræða barnalaga, þ.e. dagsektanna, og svo má líka nefna að þarna er verið að breyta lögsögu íslenskra stjórnvalda í meðlagsmálum og það er verið að breyta ættleiðingarlögum hvað varðar umsögn barnaverndarnefnda og í lok frumvarpsins er breyting sem lýtur að því að heimila fjárnám fyrir fjárframlögum til framfærslu fjölskyldu og fyrir makalífeyri eftir skilnað og að lokum er verið að breyta fyrirkomulagi um skilnaðarleyfi.

Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvort hin sérstaka sifjalaganefnd, sem er að störfum innan dómsmálaráðuneytisins, hafi samið þetta frumvarp. Ég held að sú nefnd sé alltaf að störfum innan ráðsins. Það er af forvitni sem ég spyr hvort þessi sérstaka nefnd hafi samið þetta frumvarp eða hvort staðið var á annan hátt að samningu þessa frumvarps.

Mig langar líka að minnast á hina svokölluðu forsjárnefnd sem var, ef ég skil rétt, ad hoc nefnd, fyrst skipuð árið 1997. Hún skilaði fyrri áfangaskýrslu 1999. Síðan liðu mörg ár og ég flutti fyrirspurn á Alþingi 7. febrúar 2005 og kallaði eftir seinni áfangaskýrslunni og mánuði seinna birtist sú skýrsla sem var mjög fróðleg. Þetta eru auðvitað tvær skýrslur sem allsherjarnefnd mun skoða mjög vel ásamt öðrum gögnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hugum aðeins að stöðu foreldra og forsjárlausra foreldra og gefum svo gaum að þeirri baráttu sem Félag ábyrgra feðra hefur m.a. háð með því að veita upplýsingar til okkar þingmanna, með greinarskrifum í blöð o.s.frv. En að sjálfsögðu megum við aldrei hvika frá því marki að þessi málaflokkur snýst fyrst og fremst um hagsmuni barnsins. Við þurfum að nálgast allan þennan málaflokk út frá því sem er best fyrir barnið. Það er rauði þráðurinn í barnarétti almennt.

Það eru hagsmunir barnsins að fá að alast upp hjá báðum foreldrum, það er réttur barnsins að fá að umgangast báða foreldra sína. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Mig langar í ljósi yfirferðar hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur — hún rakti lítillega þá umfjöllun sem átti sér stað í allsherjarnefnd á síðasta þingi þegar barnalögum var síðast breytt en þá var ákveðið að fara ekki þessa leið — að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvers vegna hann telur að fara eigi þessa leið núna, hvort eitthvað hafi breyst eða hvort hann hafi einhver sérstök rök fyrir því að fara þessa leið núna, af hverju þetta hafi ekki verið gert síðast og hvort reynslan af sameiginlegri forsjá sé það góð að þessa leið beri að fara.

Það er líka forvitnilegt að vita, ef hæstv. dómsmálaráðherra hefur það hjá sér, hvað af tillögum forsjárnefndarinnar stendur út af. Eru það einhver meginatriði sem forsjárnefndin mælti með sem við höfum ekki farið eftir. Hæstv. dómsmálaráðherra nefndi eina leið sem við höfum ekki farið eftir. Það er að dæma sameiginlega forsjá, eins og ég held að Norðmenn hafi það, en er það eitthvað annað meginatriði sem hæstv. dómsmálaráðherra vill koma að sem stendur út af og má hugsanlega vænta frá honum í frumvarpsformi.

Hér hefur verið minnst á þingmál hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um sameiginlega forsjá og það væri mjög fróðlegt að skoða þessi tvö mál jafnvel saman í allsherjarnefndinni. Ég er reyndar einn af flutningsmönnum með Ástu Ragnheiði í því máli og hef viljað skoða það út frá því hvort við ættum ekki að fara þá leið sem hæstv. dómsmálaráðherra er að mælast til að við förum. Það er líka mjög fróðlegt að átta sig á sögu breytinga á þessu sviði og sérstaklega hvað varðar sameiginlega forsjá en í barnalögunum frá 1981 skyldi forsjáin vera óskipt hjá öðru foreldri ef þeir voru ekki samvistum. Samkvæmt þeim lögum var sameiginleg forsjá foreldra sem ekki bjuggu saman því útilokuð. Þessu var breytt á tíunda áratugnum þar sem fólk gat samið um sameiginlega forsjá. Við höfum líka vitneskju um það að í nágrannalöndunum hefur sameiginleg forsjá foreldra sem ekki eru í samvistum verið heimiluð um nokkurt skeið og í Svíþjóð hefur það verið heimilt frá 1976 en upphaflega gerðu reglur þar í landi ráð fyrir að foreldrar gætu samið um sameiginlega forsjá nema það væri talið andstætt hagsmunum barnsins. Ég veit ekki betur en það sé þá svipað og núverandi lög hjá okkur.

Árið 1983 voru reglur í Svíþjóð rýmkaðar enn frekar og þá var í rauninni farin sú leið sem hæstv. dómsmálaráðherra er að leggja til að við förum, þ.e. að aðalreglan verði sú að foreldrar hafi forsjá barna sinna sameiginlega við skilnað nema þeir óski sérstaklega eftir að hún verði falin öðru þeirra. Þetta merkir að við skilnað þarf ekki að taka sérstaka afstöðu til þess hvort forsjá skuli vera sameiginleg heldur verði það áfram eins og verið hefur nema foreldri sé ekki sátt við þá skipan. Í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra stendur einmitt í 1. gr. að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Hér er því samkomulag beggja foreldra áskilið um sameiginlega forsjá, enda sjá það allir að slíkt mundi tæpast ganga sé eitthvert ósamkomulag milli foreldra hvað það varðar.

Það eru auðvitað rök með og á móti sameiginlegri forsjá. Þetta er gömul umræða og það er mjög fróðlegt fyrir okkur að fara í gegnum hana. Í greinargerð með frumvarpinu frá 1987 voru rökin með og á móti sameiginlegri forsjá rakin ítarlega. Bent var á að sameiginleg forsjá væri til þess fallin að stuðla að betri samskiptum barns við báða foreldra og með því að tryggja því foreldri sem barn býr ekki hjá forsjá væri minni hætta á því að samband við það rofni, þá var lögð áhersla á að deilur um forsjá rísi oft vegna þess að foreldri getur ekki hugsað sér að afsala sér forsjá barna sinna. En með því að tryggja því forsjá ásamt hinu sætti það sig frekar við það þó barnið búi annars staðar. Þetta ætti að stuðla að friðsamlegri skilnaði en ella. Þetta kom fram í greinargerð frumvarpsins frá 1987.

Þar er síðan fjallað stuttlega um gagnrýni á sameiginlega forsjá. Í frumvarpinu, og einnig í grein Guðrúnar Erlendsdóttur í Úlfljóti frá 1982 sem heitir „Sameiginleg forsjá og önnur nýmæli í barnarétti“, er m.a. bent á að sameiginleg forsjá geti haft í för með sér óstöðugleika fyrir barnið og ýmis uppeldisleg vandkvæði fyrir foreldrana. Sameiginleg forsjá geti skapað hættu á því að samið sé um forsjá barnsins á röngum forsendum og að hugsanlega sé verið að slá vandamálum á frest. Þetta eru sjónarmið með og á móti sameiginlegri forsjá sem hafa komið fram og svo höfum við auðvitað reynsluna frá Svíþjóð, eins og hefur verið rakið hér. Það er auðvitað forvitnilegt að Svíar séu hugsanlega að endurskoða sitt fyrirkomulag. Það þarf að skoða því að þeir hafa að mörgu leyti verið fyrirmynd okkar á þessu sviði og eru hafðir til fyrirmyndar í þessu frumvarpi, það kemur fram í greinargerðinni með því. Við þurfum að skoða það í allsherjarnefndinni af hverju Svíar eru hugsanlega að víkja af þessari leið, sé það rétt. Ég þekki það ekki.

Í greinargerðinni og í umræddri grein Guðrúnar Erlendsdóttur var einnig fjallað um kosti og galla sameiginlegrar forsjár. Bent hefur verið á að sameiginleg forsjá samræmist mjög vel þeim þjóðréttarsamningum sem Ísland á aðild að þar sem áhersla er lögð á rétt barns til samvista við foreldra sína. Menn hafa í því samhengi bent á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þetta eru atriði sem við þurfum að skoða.

Við fyrstu sýn er ég að sjálfsögðu jákvæður fyrir þessari breytingu en við þurfum auðvitað alltaf að hafa það bak við eyrað að það eru hagsmunir barnsins sem ráða og í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni í fyrra varðandi seinni áfangaskýrslu forsjárnefndarinnar kemur fram að barnalögin eru í eðli sínu ekki jafnréttislög í þeim skilningi að þeim sé ætlað að tryggja jafna stöðu beggja foreldra til skilnaðar eða við sambúðarslit heldur lög sem hafa það að markmiði að tryggja rétt barnsins varðandi atriði eins og feðrun, rétt til forsjár, umgengni auk framfærslu o.s.frv. Ég tek alveg undir þetta. Markmið barnalaga og barnaverndarlaga er að gæta hagsmuna barna og eins og áður hefur verið rakið eru það hagsmunir barnsins að umgangast báða foreldra sína. Það er enginn að tala um að slaka á kröfunum varðandi þá stöðu sem hugsanlega er uppi í sumum samböndum, jafnvel að viðkomandi barn sé í einhverri hættu eða eitthvað slíkt, sé í hættu á ofbeldi o.s.frv. Það er enginn að tala fyrir því að slaka á kröfunum hvað það varðar eða eftirlit barnaverndaryfirvalda eða eitthvað slíkt. Nóg um sameiginlega forsjá í þessari lotu.

Varðandi þvingunarúrræði barnalaga, sem eru þá dagsektir, ef ég man rétt, þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að það sé heimilt að beita þeim ef umgengni er tálmuð þótt málskotsrétturinn sé ekki liðinn og áður en ráðuneyti eða dómstólar hafi lokið umfjöllun. Þetta er ný leið og ég held að hæstv. dómsmálaráðherra sé að bregðast við vanda sem hefur verið bent á, að í sumum tilfellum sé erfitt að framfylgja úrskurði sýslumanns um t.d. umgengnisrétt. En við þurfum einnig að gæta okkar á þessari breytingu og skoða hana vel í allsherjarnefnd eins og við gerum við allt málið og gæta hagsmuna barnsins. Auðvitað getur alls konar staða komið upp í samböndum og við megum aldrei víkja frá meginreglunni um hagsmuni barnsins.

Það er að lokum forvitnilegt að heyra frá hæstv. dómsmálaráðherra hvað dagsektirnar varðar. Hvað gerist ef ráðuneytið eða dómstólarnir breyta úrskurði sýslumannsins, og viðkomandi er búinn að greiða dagsektir fyrir að hafa hugsanlega brotið gegn úrskurði sýslumanns. Myndast einhvers konar endurgreiðsluréttur eða hvernig er það? Hæstv. dómsmálaráðherra þekkir án efa betur en ég þá stöðu sem kemur upp ef ráðuneytið eða dómstólar breyta úrskurði sýslumanns.

Þetta mál allt er flókið. Það snertir mikla hagsmuni og ég hlakka til vinnunnar í allsherjarnefndinni að við skoðum það mjög vel og frá víðu sjónarhorni og fáum sem flesta á okkar fund, heyrum í umboðsmanni barna, Félagi ábyrgra feðra o.s.frv. Þetta skiptir okkur öll miklu máli. Ég held að í grunninn séum við öll sammála um að hér eigi hagsmunir barnsins að ráða.