Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 15:30:05 (1183)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:30]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Mig langar í upphafi máls míns að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir ágæta framsögu hans um þetta frumvarp og fyrir frumvarpið sem slíkt. Ræðumenn á undan mér, eins og hæstv. ráðherra, hafa rakið hvert meginefni frumvarpsins er. Við erum að leggja þarna til aðallega þrjár breytingar á barnalögum og tengdum lögum og það er óþarfi að fara yfir það. En það sem kannski skiptir mestu máli í þessu er aðallega tvennt, annars vegar það sem frumvarpið leggur til, þ.e. sú breyting að í stað þess að gera ráð fyrir því sem meginreglu að annaðhvort foreldranna hafi forsjá barns þá verði forsjáin sameiginleg, að það verði meginreglan, og svo hitt, sú breyting sem er á ákvæðunum um hvernig sé hægt að styrkja þvingunarúrræði þegar umgengnisréttur er ekki virtur.

Þegar allsherjarnefndin á sínum tíma fjallaði um breytingarnar á barnalögunum, þær síðustu sem voru gerðar, var m.a. rætt mikið innan nefndarinnar hvort við ættum að stíga þetta skref til fulls, að hafa það sem meginreglu að forsjáin væri sameiginleg. Það voru aðeins skiptar skoðanir innan nefndarinnar og líka meðal þeirra gesta og í þeim umsögnum sem nefndin fékk. Ýmsir vísuðu til þess að það væri meginreglan á Norðurlöndunum og svipuð sjónarmið hlytu að eiga við hér, að þetta væri eitthvað sem tryggði betur velferð barna að hafa þetta sem meginreglu. Niðurstaðan hjá nefndinni þá var að stíga ekki skrefið til fulls. En ég held að flestir sem tóku þátt í því starfi hafi verið mjög opnir fyrir því að það væri í rauninni næsta skref sem við tækjum.

Þau okkar sem þekkja þessi mál öðruvísi en bara sem þingmenn, hafa komið að þessum málum t.d. sem lögmenn í forsjármálum, hafa flest mjög eindregna skoðun á þessum málum og hún er sú að það tryggi betur velferð barna að forsjáin sé sameiginleg. Það er oftar en ekki þannig að feður, sem eru þeir sem oftast enda uppi sem forsjárlausir, líta einhvern veginn á það að þar með sleppi ábyrgð þeirra á börnum. Þetta er ekki spurningin um hvaða rétt foreldrar hafa til barna heldur hvaða ábyrgð þau bera. Ég nefni það líka í þessu samhengi af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um hugtakanotkun að til skamms tíma hét þetta ekki forsjá. Þetta hét forræði. Ýmislegt hefur því breyst í hugum fólks í takt við breytingar á hugtökum í lögum um það hvað forsjáin felur í sér.

Oftar en ekki er mikil umræða manna á milli og stundum í fjölmiðlum um forsjárdeilur. En óskaplega lítið er talað um hvert er raunverulegt inntak þessarar forsjár. Það er ákvæði í barnalögunum sem heitir inntak forsjár og þar er reynt að skilgreina hverjar skyldur foreldra séu og það eru skyldur sem báðir foreldrar bera gagnvart börnum sínum og báðir foreldrar bera þær skyldur áfram þó að þeir skilji að skiptum. Með því að taka upp sameiginlega forsjá sem meginreglu er verið að árétta að þó að foreldrar skilji að skiptum þá eru þeir ekki að skilja við börnin sín. Skyldurnar standa eftir sem áður áfram og öll ábyrgðin sem foreldrarnir báru áður sameiginlega.

Mín reynsla er sú að þegar foreldrar fara að deila við skilnað er það oftar en ekki svo að konur fá forsjána og bera sig eftir henni, að þegar konum er svo bent á það hversu mikið betur tryggir velferð barnsins að faðirinn upplifi það áfram sem sína skyldu og ábyrgð að annast barnið og hafa eitthvað með framtíð þess og umhverfi, þá eru þær líka oft fúsar til þessa samstarfs. En það má ekki blanda því saman þegar verið er að tala um að foreldrar deili um sitthvað annað en málefni barnsins. Þeir geta eftir sem áður verið sammála um hvernig þeir vilja ala barn sitt upp og hvaða aðstæður þeir vilja búa því þannig að í þessum málum verður alltaf að leggja áherslu á það að upphaflega er fólk að skilja vegna þess að það getur ekki orðið sammála um allt annað, en að halda því opnu að það geti verið sammála um og starfað saman að velferð barnsins og komið sér saman um það hvernig hagur þess er best tryggður. Ég held að með því að breyta þessu og gera sameiginlega að meginreglu í barnalögunum þá hafi það líka áhrif á hugarfar foreldra gagnvart börnum sínum og hverjar skyldur þeirra eru. Þannig göngum við út frá því að það sé í undantekningartilvikum sem foreldrar geti ekki átt samskipti og komið sér saman um allt sem lýtur að barninu og velferð þess, að það sé undantekning frekar en hitt að við gefum okkur það fyrir fram að flestallir foreldrar séu þó þannig gerðir, þó að þeir geti ekki búið saman, að þeim sé treystandi til að fara með forsjána saman. Það sem mér finnst í rauninni megingildi þess að hafa þetta sem meginregluna er þessi hugsun og þetta traust á fullorðnu fólki sem þó getur ekki búið saman.

En það mætti gefa svolítið meiri gaum í allri umfjöllun um þetta því sem segir í barnalögunum um það hvað í rauninni felist í forsjá samanber orðnotkunina eða breytinguna á hugtökunum sem varð fyrir nokkrum árum, þ.e. að breyta þessu úr forræði í forsjá. Þetta er spurningin um að sjá fyrir og mér finnst ekkert útilokað það sem fyrri ræðumaður í dag nefndi um ákveðnar aðrar orðtakabreytingar því að þær geta líka haft áhrif í sömu átt og það er nokkuð sem við hljótum að skoða í allsherjarnefndinni.

Ég held líka og á það hefur verið bent að þessi þvingunarúrræði eins og þau hafa verið praktíseruð hafa ekki verið til þess fallin að koma í veg fyrir að það foreldri sem hefur forsjána hamlaði umgengni við barn. Ég held að það sé mjög vert að huga að því hvort þessi breyting er betur til þess fallin vegna þess að í þessum dæmum er þetta oftar en ekki þannig að heift á milli foreldra, heift á milli fullorðins fólks sem er að skilja, er látin bitna á börnunum. Þau verða að bitbeini í þessu og er beitt sem vopni í áframhaldandi deilum og ósamkomulagi foreldra. Útgangspunkturinn er alltaf sá hverjar skyldur foreldranna eru til að tryggja rétt barnsins til að umgangast báða foreldra sína eftir skilnað og draga það fram að það er aldrei barnið sem verið er að skilja við heldur er það fullorðna fólkið sem er að skilja að skiptum.

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að í allsherjarnefndinni verði vel farið yfir þetta mál. Sum okkar sem sitjum í nefndinni núna búum að þeirri vinnu sem lögð var í síðustu breytingar á barnalögunum þegar ákveðið var að stíga ekki skrefið til fulls. Ég geri ráð fyrir að við fáum helstu aðila sem að þessum málum koma á fund nefndarinnar og eins umsagnir frá öðrum. Það er ljóst að þessar tillögur voru ekki lagðar fram í þessari áfangaskýrslu forsjárnefndar sem vísað er til í greinargerð með frumvarpinu. Hins vegar skilaði nefndin lokaskýrslu sinni nú í mars á þessu ári. Við skulum líka horfa til þess að við erum þarna að hluta til að fara sömu leið og helstu nágrannaþjóðir okkar, að vera með forsjána sameiginlega, og þó einhverjar hugleiðingar séu um galla í einhverjum tilvikum á sameiginlegri forsjá í Svíþjóð þá held ég að við ættum að bíða með að vera sérstaklega að horfa til þess því að það er alveg ljóst að þó að þetta fari sem meginreglan inn í barnalögin þá verður það eftir sem áður þannig að í einhverjum tilvikum getur fólk ekki komið sér saman. En það verður vonandi í undantekningartilvikum.

Frú forseti. Ég fagna því alveg sérlega að þetta frumvarp er komið fram og vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir það og hlakka svo til vinnunnar sem fram undan er í allsherjarnefndinni við að lögleiða þessar reglur.