Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 15:42:23 (1185)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[15:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Frumvarpið sem hér er lagt fram er á margan hátt til bóta, t.d. það að sameiginleg forsjá skuli gilda ef ekki er gert ráð fyrir öðru, ef ekki er beiðni um annað. Það held ég að sé mjög til bóta.

Það sem þetta frumvarp ekki tekur á er vandamál þeirra barna þar sem annað foreldrið skilur ekki bara við hitt foreldrið heldur við börnin líka. Þetta á sérstaklega við um karlmenn sem hafa skilið við konurnar sínar en börnin líka. Þessum þætti hefur lítið verið sinnt og þegar börnin eru orðin eldri fara þau jafnvel að leita að feðrum sínum sem skildu við þau á unga aldri. Á þessu er ekki tekið og á þessu tekur kerfið ekki. Mér finnst kerfið oft og tíðum vinna í raun í þágu hinna fullorðnu en ekki barnanna, því miður. Börn sem ekki vilja hitta foreldra sína skulu t.d. gera það engu að síður. Til er dæmi um það.

Svo held ég að menn þurfi líka að horfast í augu við ákveðinn raunveruleika sem er í gangi, þ.e. neyslu, fíkniefnaneyslu, og ofbeldi á heimilum sem á nú reyndar að fara að gera stórátak í að laga. Það er kannski ekki auðvelt fyrir foreldri að senda barnið sitt til hins foreldrisins sem það veit að er í neyslu á þeim tíma eða hefur beitt ofbeldi þó ekki hafi verið kært. Ég held að veröldin sé allmiklu flóknari og þyngri í vöfum en menn eru stundum að ímynda sér við hin grænu skrifborð og halda að þetta sé allt saman slétt og fellt. Það er ekki þannig. Ég held að það þurfi miklu meiri skilning á því hvílíkar aðstæður börnum eru sums staðar búnar í þjóðfélaginu til að átta sig á því hvort beita eigi alls konar mjög hörðum refsingum við það foreldri sem veigrar sér við að senda börnin frá sér, oft og tíðum með rökum. Stundum er það reyndar bara heift vegna skilnaðarins og ég hef engan skilning á því. En mér finnst enn vanta þá skyldu foreldra að umgangast börnin sín ef þau óska þess og slæmt að annað foreldrið skuli komast upp með það hreinlega að skilja við börnin sín jafnframt því sem það skilur við foreldrið.

Ég tel að þetta frumvarp sé mjög til bóta. Ég held að sameiginleg forsjá sé jákvæð og geti lagað það sem lagað verður í þessum erfiðu samskiptum. En ég vil gjarnan að hv. nefnd taki dálitla umræðu um raunveruleikann í þjóðfélaginu.