Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 17:48:35 (2500)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæða umfjöllun um frumvarpið. En þau atriði sem hann spurði um varða í meginatriðum 2. gr., a, b og c-lið. Í a-lið er um að ræða að á fasteignamarkaði hafa orðið þær breytingar að lántakendur geta tekið mun hærra lán sem hlutfall af markaðsverði fasteignarinnar en áður var. Talið er rétt að heimila sjóðunum að auka hlutfall sitt í lánveitingum á fasteignamarkaði úr 65% í 75% af metnu markaðsverði til að þeir geti tekið áfram þátt í fjármögnun á þessum markaði.

Í b-lið er um að ræða að heimila hærra hlutfall af fjárfestingum í hlutabréfum og það á rætur sínar að rekja til þess að það eru miklu meiri og fjölbreyttari möguleikar á hlutabréfamarkaði en áður var. Hlutabréf hafa verið að gefa mjög góða ávöxtun að undanförnu. Til að sjóðirnir geti nýtt sér þær aðstæður eða viðlíka aðstæður í framtíðinni er talið rétt að heimila þeim að hækka hlutfall sitt í fjárfestingum í hlutabréfum.

Í c-lið er um að ræða að breyta viðmiðunum eða tímasetningu viðmiðana hvað varðar þau hlutföll sem að framan getur svo hægt sé að miða við árshlutauppgjör en ekki bara uppgjör um áramót. Það hefur auðvitað verið mikil gróska á þessum mörkuðum og það hefur leitt til þess að staða sjóðanna hefur vænkast mjög yfir árið og því er rétt að leyfa þeim að njóta þess í því að geta notað það sem viðmið í hlutföllum í fjárfestingum.