Verslunaratvinna

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:17:45 (2922)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Verslunaratvinna.

345. mál
[14:17]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að rætt var um það hvort þyrfti að bregða frá reglugerð Evrópusambandsins sem kveður á um lágmark, þ.e. 4% upp að 50 þús. evrum. Það má fara hærra og það var farið hærra, upp í 10% upp að 3 þús. evrum og síðan 5% upp að 50 þús. evrum í staðinn fyrir 4%. Þetta var rætt í nefndinni, kostir og gallar beggja leiða. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta vantaði kannski í nefndarálitið.

Það er þó ljóst að of há gjöld geta hamlað uppboðum þar sem menn selja þá kannski frekar beint eða í gegnum listaverkasala og geta þannig óbeint komið eigendum slíkra listaverka í koll og þar með listamanninum sjálfum. Þá minnkar óhjákvæmilega eftirspurn eftir listaverkum.

Þetta var rætt í nefndinni og hefði með réttu átt að koma fram í nefndaráliti.

Varðandi innheimtu ríkisins á ýmsum gjöldum fyrir einkaaðila og félagasamtök — það er rétt að þetta er mér hjartfólgið vegna þess að ég hef svarið eið að stjórnarskránni, herra forseti. Ég les út úr henni að skatta megi ekki leggja á nema með lögum og ríkið getur ekki innheimt annað en skatta og þóknunargjöld af borgunum. Þóknunargjöld eru þess eðlis að menn fá þjónustu í samræmi við gjaldið sem þeir borga og skattar eru þá allt annað, þ.e. þegar ríkið innheimtir eitthvað þegar þjónustan sem veitt er stendur ekki alveg undir því eða engin þjónusta er veitt í staðinn. Skattar eiga að renna til, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á sköttum, opinberra aðila, þ.e. til ríkis eða sveitarfélaga. Aðrir eiga ekki að njóta skatta.

Við erum hins vegar með töluvert mikið í lagasafninu af slíkum gjöldum. Ég nefni fiskræktargjald sem er í lögum um lax- og silungsveiði, iðnaðarmálagjald, skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga opinberra starfsmanna, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Mönnum er gert að borga í stéttarfélag opinberra starfsmanna þótt þeir séu ekki félagar og þótt þeir vilji ekki vera félagar og þótt þeir séu á móti þeirri stefnu sem félagsskapurinn predikar, t.d. í sambandi við að vatnsréttarmál séu mannréttindi. Það er ekki víst að allir opinberir starfsmenn vilji skrifa upp á það en þeir verða samt sem áður að borga undir þá skoðun. Það má náttúrlega segja að það brjóti ákvæði stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi.

Ég hef unnið að því og flutt um það frumvörp, og mun halda áfram að flytja frumvörp um það, að ríkið hætti að innheimta gjöld fyrir aðila þar sem fjármunir renna til einkaaðila.