Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 16:08:15 (2955)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[16:08]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar frumvarpið sem við tölum nú um að breyta var samþykkt og varð að lögum var það vissulega mikið rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að reyna að taka upp þessa ökurita. En þá voru menn ekki vissir um að það kerfi sem ætti að bóka niðurstöðurnar, þ.e. tæki við skilaboðunum, væri tilbúið.

Það er ekki rétt að ég hafi fengið hringingu frá hæstv. fjármálaráðherra heldur ræddum við saman um nauðsyn þess að gera eitthvað í málunum til að bregðast við samkeppnismismun og öðru slíku. Þess vegna fór ég ekki út í þessa breytingu með glöðu geði á sínum tíma. Vitað var að þetta yrði flókið kerfi, það var engum sem datt í hug að það yrði einfalt. Reynt var að samræma alls konar sjónarmið sem voru ósamrýmanleg, eins og ég nefndi fyrr í dag.

Varðandi persónuupplýsingar eru menn að tala um tvenns konar notkun á kubbunum. Annars vegar væri hægt að nota bara vegalengdina. Þá koma engar persónuupplýsingar fram en þá er heldur ekki hægt að nota þá möguleika sem menn hafa bent á og Evrópusambandið ætlar að nota, ef þeim tekst að leysa það, að mæla hvar menn nota bílana, t.d. væri hægt að hafa mismunandi gjald fyrir malarvegi og malbikaða vegi. Hægt væri að innheimta veggjöld fyrir Hvalfjarðargöngin og önnur göng með þessu, það væri meira að segja hægt að taka upp gjöld fyrir stöðumæla og annað slíkt. Þeir notkunarmöguleikar gefa aftur á móti upp staðsetningu sem getur verið hættulegt varðandi persónuupplýsingar. Allt eru þetta hlutir sem menn þurfa að leysa og verið er að vinna í að leysa í Evrópusambandinu, þ.e. hvort kerfið getið orðið nógu skothelt þannig að enginn komist inn í það. (Gripið fram í.)